Fyrst þarf að baka nú eða kaupa 2 svampbotna ef letin er alveg að fara með mann… að baka svampbotn er nefnilega ótrúlega auðvelt og fljótlegt.
Það sem þarf er:
- 4 egg
- 150gr sykur
- 150gr hveiti
- 1 tsk lyftiduft
Stífþeytið egg og sykur. Sigtið saman hveiti og lyftiduft og blandið saman við eggjahræruna. Bakið í hringformi, 24 cm í þvermál, við 180-200°C hita í ca 20 – 25 mín (í mínum ofni á H14, undir/yfir hiti í 18 mín). Botninum má skipta í 2-3 botna.
Á meðan botnarnir kólna er kremið græjað og gert
Kremið:
- 50gr suðusúkkulaði
- 3 eggjarauður
- 4 msk flórsykur
- 1 peli rjómi
Best er eiginlega að byrja á því að þeyta rjómann og setja hann svo til hliðar á meðan hinn hluti kremsins er gerður.
Suðusúkkulaðið er brætt og kælt. Því næst eru eggjarauðurnar og flórsykurinn þeytt vel saman í skál. Súkkulaðinu blandað varlega saman við og að lokum þeytta rjómanum, hrært saman með sleikju/sleif.
Stór perudós opnuð og safa hellt yfir neðribotninn og svo ca 1/3 af kreminu. Efri botninn settur á og smá safa hellt yfir hann líka, 1/3 af kreminu smurt á og peru helmingum raðað á og svo restin af kreminu sett yfir peruhelmingana og hliðarnar á kökunni 😉