Bökur eru ó svo einfaldar – sérstaklega þegar letin tekur öll völd og keypt er útflatt deig í búðinni svo að það eina sem þarf að gera er að ákveða hvað á að fara út í eggjahræruna. Þetta er frekar basic og hægt að setja allskonar út í fyllinguna.
í þetta sinn var það einskonar ísskápatiltekt hjá mér 😉 Skinka, frosið brokkolí, smá laukur og að lokum papríka. Bætti líka rest af bæði rjómasmurosti og rjómapiparosti út í eggjablönduna ásamt matreiðslurjóma.
Útkoman varð mjög bragðgóð og fór meiraðsegja vel í gormana mína 😉
Það sem þarf er eftirtalið:
- ca 200gr skinka skorin í bita
- ca 200gr frosið brokkolí
- nokkrar þunnar sneiðar af lauk (bara 2-3)
- 3-4 mini papríkur (fást í pokum í Costco, gular, rauðar og appelsínugular)
- 150gr rjómaostur (þessi í bláuboxunum)
- 25gr rjómaostur m/pipar
- 3 egg
- 2dl matreiðslurjómi (má líka vera mjólk eða venjulegur rjómi)
- salt & pipar
- rifinn ostur
Aðferð:
Báðar týpurnar af rjómaostinum sett í skál og hrærðar saman. Eggjum bætt við og hært vel – þynnt út með matreiðslurjómanum. Smakkað til með salti og pipar.
Papríkan, laukurinn og skinkan skorið niður og brokkolíið líka skorið niður þannig að stæðstu stilkarnir eru frá – sett til hliðar.
Bökudeigið sett í form (ég á bökuform með lausum botni sem er afskaplega þægilegt, annars má líka nota bara smelluform eða bara eldfastform). Deigið pikkað með gaffli og fyllingunni dreift yfir botninn.
Eggjablöndunni hellt yfir allt og rifnum osti dreift yfir allt saman.
Sett inn í ofn í ca 45mín við 200gr.
Borið fram með fersku salati og etv perlubyggi.