Mamma gerir bestu hjónabandssælu í heimi – kalt mat! Iðulega ef hún er að baka eitthvað og er “búin að hita ofninn” þá klárar hún baksturstörnina á að skella í eina tvær hjónabandssælur 🙂 Reyndar þá er það auðvitað málið að uppskriftin hennar passar fullkomnlega í 2 26cm form 😉
Skemmir auðvitað ekki heldur að hún notar eigin rabbarbarasultu sem hún býr til úr rabbarbaranum úr garðinum hjá sér – heimagert er alltaf best að mínu mati amk!
Nú er sundfélag krakkanna að sjá um utanumhald RIG og því eru foreldarnir beðnir um að skaffa eitthvað í sjoppuna eða þá að taka sjoppuvakt. Við erum reyndar upptekin um helgina en hví ekki að skaffa eitthvað í sjoppuna – Ægir er búið að gera helling fyrir sjálfstraust drengsins 🙂
Hví ekki að senda hjónabandssælubita í sjoppuna ?
Uppskriftin hér er einföld en ég kaus að setja þetta í ofnskúffu og því tvöfaldaði ég uppskriftina 😉
- 200gr hveiti
- 200gr Sykur
- 200gr Haframjöl
- 200gr Smjör/smjörlíki brætt
- 1tsk lyftiduft
- 1/2-1tsk natron
- 1 egg
- Rabbarbarasulta
Ofninn hitaður í 180°C og 2 26cm hringform smurð.
Allt nema rabbarbarasultan er sett í skál og hrært vel saman.
Ca 3/4 af deginu sett í formin og þrýst vel niður og aðeins upp á kanntana. Rabbarbarasultunni dreyft yfir botninn – magnið fer svolítið eftir smekk. Afganginum af deiginu er svo dreyft yfir sultuna.
Bakað við 180°c þar til gullið (var í rétt rúmar 20mín í mínum ofni).