Ég fékk svakalega löngun um daginn í hefðbundið hakkabuff úr svínahakki (ódýrt kjöt!).
Allstaðar sem ég fór var búið að setja eitthvað twist á buffin, bæta við einhverjum krúsídúllum en það var ekki það sem ég var að leita eftir – tengdó í útlöndum (höfum yfirleitt farið þangað í buff ;-)) og mamma á hvolfi í saumaklúbbsundirbúningi (best að trufla það ekkert) þannig að hin “mamma Google” var nýtt til að finna lausnina.
Þessi fannst á danskri síðu og var mjög vel lukkuð – það vel að afgangurinn sem átti að verða til var ekki til…
fyrir 4
- 600gr hakk (má vera svína eða nautahakk eða blanda þá er það yfirleitt ca 30-40/70-60%)
- 0,5 tsk salt
- pipar
- 600gr laukur
- 40 gr smjör
Mótið buff – þrýstið aðeins niður saltið og piprið.
Skerið laukinn í þunnar sneiðar.
Brúnið smjörið, skellið lauknum á pönnuna og mýkið. takið laukinn til hliðar.
Steikið buffinn í ca 1 mín á hvorri hlið. lækkið hitann og haldið áfram að steikja buffin ca 5-7 mín á hvorri hlið. Takið laukinn og buffin af pönnunni en haldið á þeim hita.
Þá er það sjálf sósan!
Sósan:
- 4dl kjötkraftur (svína eða nauta)
- 1msk maisenamjöl eða annarskonar sósujafnari
- salt
- pipar
- sósulitur
setjið sósujafnarann á pönnuna og bætið kjötkraftinum við, látið sjóða aðeins. bætið við sósulit eftir þörfum. smakkið til með salti og pipar.
Berið fram með soðnum kartöflum, sósu og rifsberjasultu