Mér finnst gaman að tilraunast og prófa eitthvað nýtt 😉 ég leyni því svosem ekkert og er dugleg að henda hingað inn uppskriftum sem ég geymi fyrir mig þegar mig langar að prófa eitthvað nýtt.
Eitthvað nýtt var einmitt það sem mig langaði í á afmælisdaginn minn. Fann reyndar ekkert sérstakt sem mig langaði að prufa svona í snöggri yfirferð EN ég reyndar vissi að mig langaði í súkkulaði og berjablöndu… útkoman varð smá mix hér og smá mix þar og voilá girnilegar súkkulaðicupcakes með hindberjafyllingu & súkkulaðismjörkremi.
Hráefni fyrir bollakökurnar
- 1 1⁄2 bolli hveiti
- 1 bolli sykur
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 1⁄2 bolli kakó
- 1 bolli vatn
- 1⁄2 bolli olía
- 1 egg
- 1 tsk vanilludropar
- 1 tsk eplaedik
Leiðbeiningar:
Hitið ofninn í 180°C.
Setjið öll þurrefnin í skál og blandið vel, því næst skal bæta við því sem eftir er. Hrærið þar til blandan er kekkjalaus og búin að blandast vel.
Setjið í muffinsform og bakið í 15-17 mín (fer eftir ofnum).
Þessar eru lúffengar og mjög áþekkar súkkulaðikökunni sem ég baka alltaf fyrir afmæli krakkanna – en þarna bætist reyndar við egg.
Svo er það fyllingin sem er hægt að gera á meðan kökurnar eru að bakast og kólna.
Hráefni fyrir fyllingu
- 450gr frosin hindber (ekki verra ef þau eru sykruð) afþýdd
- 1/3 bolli sykur
- 3 msk cornstarch eða kartöflumjöl
- 1 tsk sítrónusafi
Leiðbeiningar
Afþýðið hindberin í íláti og haldið safanum eftir . Bætið nægu vatni við safann þannig að vökvinn mælist 1 og ¼ bolli. Setjið vatnið, safann, sykurinn, sítrónusafann og cornstarch(kartöflumjöl) í pott og hrærið vel. Hitið við meðal hita þar til blandan byrjar að sjóða og þykkna, passa að hræra á meðan.
Kælið alveg.
Hrærið afþýddum hindberjunum saman við blönduna.
Gerir ca 2 bolla af fyllingu.
Fyllið með fyllingarstút frá Wilton.
Krem
- 100 gr Smjör við stofuhita
- 3 dl flórsykur
- 2 msk kakó
- 1 eggjarauða (má skipta út fyrir 1-2 msk mjólk til að fá mýktina)
- 1-2 msk vatn (eða eftir þörf)
- 1tsk vanilludropar
Hrærið saman smjöri, flórsykri og vanilludropum. Bætið kakóinu og eggjarauðunni/mjólkinni saman við. Bætið við vatni ef þörf þykir.
Hrærið þangað til kremið er loftkennt og hráefnin blandast vel saman.
Ég sprautaði svo með M1 stútinum frá Wilton sem er oft kallaður “rósastútur” til að fá kremið til að mynda þetta blóma útlit.