Ég er alltaf á höttunum eftir einföldum mat til þess að taka með mér í hádegisnesti í vinnuna. Á þvælingi mínum á netinu rakst ég á uppskrift af fersku túnfisksalati sem ég ákvað að slá til og prufa og auðvitað koma með smá twist þar sem ég er t.d. lítil tómatamanneskja en því meiri gúrkumanneskja ooooooog já ég þarf oft að breyta eftir mínu höfði 🙂
Þetta magn dugar fyrir 1 og jafnvel rúmlega það 🙂
1/2 dós túnfiskur í vatni(ca 70gr)
1/2 papríka, rauð
1/2 papríka, gul
1/4-1/2 agúrka
1/2 Avocado
ca 1/4 bolli fersk steinselja
nokkrar þunnar sneiðar af lauk eða rauðlauk
væn lúka af blönduðu salati
1msk sítrónusafi
2msk góð Ólífuolía
Salt og pipar
Papríkan, agúrkan og avocadoið skorið í teninga og sett í skál. Salati bætt við ásamt ca 1/4 bolla af saxaðri steinselju (má vera meira og má vera minna :-)) lauknum bætt við ásamt túnfisknum og öllu blandað saman.
sítrónusafi og olía hrisst saman og hellt yfir.
saltað og piprað (mér finnst gott að setja aðeins meira heldur en hitt af piparnum).
og njóta!
Þar sem sítrónusafinn hindrar Avocadoið í að verða brúnt og ljótt þá er í góðu lagi að gera salatið kvöldið áður og geyma í ískápnum þar til komið er að því að njóta þess. Ég geri það hiklaust og gríp svo bara með mér að morgni áður en ég held til vinnu.