ÚFF PÚFF hvernig skal byrja þessa yfirferð, get seint sagt að þetta ár verði í einhverju uppáhaldi en sannarlega verður það minnisstætt.
Janúar
Einkenndist af bið, bið eftir niðurstöðum, bið eftir viðtali bið eftir því sem væri í vændum. Mamma greindist með meinvörp í lifur og beinum um miðjan mánuðinn og var það mikið áfall en baráttuhugur <3
Krakkarnir tóku þátt í Reykjavíkurmótinu í sundi og stóðu sig þar með prýði. Oliver skrapp með félögum sínum í Gullhópi til Lyngby að keppa sem var frábær reynsla þótt árangurinn léti á sér standa enda var hann búinn að vera lasinn og keppti ekki í öllum greinum sem hann var skráður í í upphafi. RIG var í beinu framhaldi með svipuðum árangri.
Við skelltum okkur í bröns á Haust á milli hluta Reykjavíkurmeistaramótsins með fjölskyldu Leifs í tilefni afmælis Skúla.
Febrúar
Plan um lyfjameðferð, lyfjabrunnsísetning, undirbúningsrannsóknir og fyrsta lyfjameðferð hófst með líftæknilyfi og krabbameinslyfi.
Oliver skellti sér á dómaranámskeið í sundinu og lagði sig mikið fram í að ná sem flestum mótum á vorönninni til þess að öðlast fullgildingu sem dómari. Meira um það síðar. Þau kepptu öll á Gullmóti KR og dómaraneminn var auðvitað bæði í hlutverki þátttakanda og dómara þar. Ása byrjaði að mæta með bróður sínum á morgunæfingar í sundinu – þau gætu ekki verið ólíkari með að vakna fyrir þær. Uppskeruhátíð sundsins sýndi dugnað krakkanna þar sem þau fengu öll viðurkenningar fyrir framfarir og ástundun á síðasta ári.
Við skelltum okkur upp í Húsafell í vetrarfríinu og nutum þess að vera aðeins úr ys og þys borgarinnar.
Dagný fór í viðtal hjá Bandaríska sendiráðinu til þess að komast með hópnum í Flórídaferðina yfir páskana – VÍSA til næstu 10 ára komið í hús.
Feðgarnir fóru með Sverri, Hákoni & Þorvaldi í Geðbót í stráka/spilaferð yfir nótt.
Við eignuðumst lítil frænda Kallason sem við getum varla beðið eftir að spilla á næstu árum.
Mars
Sigurborg Ásta söng með kórnum sínum í messu í Seljakirkju í upphafi mánaðar.
Við hófum smá tiltekt í Birtingaholti með því að losa okkur við gamla hluti sem dagað hafa uppi þar – sumt við mikla gleði þeirra sem þá fengu, en gamalt túpusjónvarp (sem virkaði enn) fór í hendur lítils fyrirtækis sem sér um allskonar grafíska hönnun og auglýsinga gerð (Agla Rún og Axel). Oliver & Ása Júlía hófu að bera út Moggann á miðvikudagskvöldum í fjáröflun fyrir sundið og var þetta 8 vikna verkefni með yfir 200 lúgum ( 2 hverfi).
Mamma fór í fyrstu innlögn á 11EG þar sem hún fékk svo miklar aukaverkanir af lyfjagjöfinni. Hera líknarheimaþjónusta kom að ummönnun mömmu með mikilli natni.
Við fögnuðum fermingum Ísaks Hrafns og Sigmars Kára í mánuðinum.
Um miðjan mars var loksins haldið í Álfaferðina til Florida í tilefni 75 ára afmæla tengdó í ár. Við flugum til Orlando og eyddum tæpum 2 vikum í risa húsi í Windsor island resorts í Davenport. Afkomenda hópurinn eyddu 2 dögum í Universal görðunum við mikla gleði ungviðsins. Við fórum öll í Gatorland krókudílagarðinn þar sem sumir fengu ósk sína uppfyllta að knúsa krókudíl! (Gréta). Við fórum líka öll saman í heimsókn í Kennedy Space center sem var heilmikil upplifun fyrir krakkana. Við ásamt Sigurborgu, Tobba & börnum fórum í Disneyland þar sem við eyddum heilum degi og nutum okkar í botn. Ýmislegt var brallað þess á milli og þess gætt að allir fengu eitthvað við hæfi. Þessi ferð reyndist mér þó afskaplega erfið þar sem mamma var svo veik en hún tók ekki í mál að ég yrði eftir.
Apríl
Stuttu eftir heimkomu fór mamma aftur í innlögn á 11EG og var þar í nokkrar vikur. Henni var ekki treyst í frekari lyfjagjöf og var henni því sjálfhætt í raun.
Oliver fór í endajaxlatöku x2 í neðri góm hjá Bjarna tannlækni sem tókst merkilega vel en tók á og var hann þónokkuð verkjaður eftir þetta.
ÍM50 var um miðjan mánuðinn þar sem Oliver stóð sig með prýði. Við stelpurnar fengum miða á Frost frá Birtingaholti í jólagjöf og hafði mamma ætlað að fara með okkur en sökum aðstæðna breyttist það í að Leifur fór með okkur – virkilega flott sýning sem við skemmtum okkur vel á.
Við Leifur skelltum okkur í langþráða árshátíðarferð til Marrakesh með vinnunni hans Leifs (áttum að fara 2020 en eitthvað kom í veg fyrir það). Stórkostlegar upplifanir í formi matargöngu með heimamanni á fyrsta degi og flugferð í Loftbelg yfir sveitirnar í nágrenni Marrakesh standa svo sannarlega uppúr.
Oliver tók bóklega bílprófið og stóðst það með glæsibrag!
Við fögnuðum fermingu Guðrúnar Lovísu frænku.
Maí
Oliver fagnaði 17 ára afmælinu sínu í byrjun próflesturs en ákvað að bíða með að taka verklega prófið þar til eftir prófin í MR sem gengu vonum framar og er hann því búinn með 1 árið sitt í MR. Hann skellti sér þó í miðjum próflestri í eitt stk. þríþraut (Kópavogsþríþrautin) með félögum sínum í sundinu og stóð sig merkilega vel m.v. að hafa aldrei áður prufað að svo mikið sem mæta á eina æfingu í þríþraut.
Krakkarnir ákváðu að taka aðrar 8 vikur í Moggaútburði en nú var það bara 1 hverfi (voru með 2 áður) og kláruðu það með sæmd. Stelpurnar fóru í æfingabúðir á Laugavatn og skemmtu sér vel þar.
Leifur og Ingó á K50 hófu að laga múrverk og mála framhlið hússins sem gekk vonum framar.
Oliver tók verklega bílprófið rétt áður en hann hóf störf á Hnit sem “þræll” á skrifstofunni.
Júní
Akranesleikar setja svolítið mark á sumarbyrjun fjölskyldunnar og var það eins í ár en stelpurnar mættu á laugardeginum (mótið er frá fös til sun) og tóku nokkrar greinar þar.
Linda frænka og Luke komu til Íslands og gistu hjá pabba í Birtingaholti. Olli og Leifur fóru með Luke á Laugarvatnstorfæruna sem honum fannst mikil upplifun.
Skólaslit hjá stelpunum og þá eru 5 og 9 bekkur búnir hjá þeim.
Stelpurnar tóku sig til og mættu á vormarkað á Aflagrandanum með muni frá pabba ásamt prjónuðum hosum og hekluðum smekkjum frá mömmu. Þær seldu merkilega vel af jóladótinu hans pabba miðað við árstíma 😉
Leifur fagnaði 45 árum <3
17. júní rúnturinn með Krúser og Luke með í ár!
Birtingaholtsömmuogafadætrahittingur var haldinn hjá Siggu frænku í Grafarvoginum í ár og var flott mæting <3
Mamma kom í heimsókn heim af spítalanum og færðist yfir a útskriftardeild á Landakoti. Heimsóknin gekk vel og leið henni afskaplega vel að komast í sitt umhverfi þó það væri bara í nokkrar klst. Færslan yfir á Landakot gekk hinsvegar ekki vel og stoppaði hún þar bara í nokkra daga áður en hún var flutt aftur yfir á Hringbrautina. Við fengum fjölskyldufund í lok mánaðar með lækninum hennar þar sem ákveðið var að ekki væri hægt að gera meira, líkaminn myndi ekki þola frekari lyfjagjafir og óskað var eftir plássi fyrir hana á líkardeild. Ég óskaði eftir því að reynt væri frekar að fá pláss á Landakoti svo hún væri nær pabba sem gekk eftir. Við ákváðum að segja ekkert við krakkana þar sem stelpurnar voru á leið á AMÍ í Keflavík og Oliver tók að sér að dæma þar og klára þar með alla þá punkta sem hann þurfti til þess að teljast fullgildur dómari. Annars leyndum við engu fyrir krökkunum varðandi veikindin. Ása Júlía byrjaði að vinna í sundskóla Ægis.
Júlí
Mamma var flutt yfir á Landakot í byrjun mánaðar og kvaddi okkur nokkrum dögum síðar eða þann 5. júli og vorum við öll hjá henni ásamt systrum hennar, Guðmundu og Hjördísi. Linda frænka kvaddi hana daginn áður en þau Luke héldu aftur til Texas. Sam Jr. kom í þeirra stað og var pabba stoð og stytta fyrst eftir andlát mömmu. Jarðaförin var 17. júlí frá Fossvogskirkju hjá sr. Jóni Ómari og var hún jarðsett í Gufuneskirkjugarði ekki svo langt frá ömmu og afa.
Sigurborg Ásta skellti sér á námskeið í Húsdýragarðinum og naut sín þar í botn enda elskar hún dýr.
Ágúst
Við vorum búin að panta okkur ferð til Barcelona og ætluðum okkur að elta krakkana í æfingabúðir í Calella á Spáni. Eðlilega var þessi ferð í nokkru uppnámi í byrjun sumars en við ákváðum að láta slag standa og nutum þess út í eitt að vera í öðru umhverfi. Við vorum umvafin dásamlegum foreldrahópi úr sundinu sem var nákvæmlega það sem við þurftum. Engin sérstök plön bara afslöppun, góður matur og ekki síður góður félagsskapur í þessar 2 vikur. Við Ása Júlía fögnuðum afmælunum okkar í sólinni.
Skólinn hófst hjá krökkunum þegar við komum heim. 2. ár í MR hjá Oliver og 6. og 10. bekkur hjá stelpunum. Vinnan fór á fullt hjá okkur Leifi.
September
Rútínan í allri sinni mynd fór í gang. Loksins varð litla baðið tilbúið, innrétting, ljós og wc á sínum stað. Ása Júlía fékk ný gleraugu og fullorðnaðist um leið þónokkuð – skrítið hvað þau breyta miklu.
Við fórum LOKSINS í stórfjölskyldumyndatökuna sem við höfðum gefið Ingu og Skúla í 50 ára brúðkaupsafmælisgjöf, hittumst öll í Elliðárdalnum og fengum hana Gunnlöðu til þess að smella nokkrum myndum af öllum hópnum sem komu mjög vel út.
Við Sigurborg Ásta skelltum okkur í leikhús á Fíu Sól en Sigurborgu var búið að langa mjög að fara á þá sýningu.
Ása Júlía náði að láta draum rætast og komst inn í nemendaráðið í skólanum, mikil hamingja þar.
Október
Við hjúin skelltum okkur út að borða með góðum vinum í upphafi mánaðar, löngu tímabær samvera með góðum vinum. Við létum reyndar ekki duga að fara bara með þeim heldur drifum okkur strax viku síðar með hressum sundforeldrum í hláturskastsdinner með prosecco&bjór ivafi.
Krakkarnir mættu á sundmót og stóðu sig ágætlega þar. Sigurborg Ásta saxar hægt en örugglega á lágmörk fyrir AMÍ næsta sumar.
Ég skellti mér á námskeið í skjalavörslu hjá Endurmenntun HÍ sem var hrein viðbót við þá þekkingu sem ég náði mér í í Heilbrigðisgagnafræðináminu.
Við mæðgur tókum fyrsta skrefið í að aðstoða pabba við að fara í gegnum fötin hennar mömmu. Ýmslegt sem fékk að fara en flest liggur enn vel flokkað uppi á lofti í Britingaholtinu.
Stelpurnar tóku sig til stuttu fyrir hrekkjavökuna og tóku 3 stk af graskerjum í nefið og skreyttu fyrir hrekkjavökuna. Sigurborg Ásta dreif sig með vinkonum sínum í að ganga í hús og sníkja í tilefni Hrekkjavökunnar.
Nóvember
Við pabbi fylgdum Gunnu vinkonu mömmu síðasta spölinn frá Lindakirkju í byrjun mánaðar – þær eru þá 2 úr saumaklubbnum sem hafa kvatt okkur í ár.
Ása Júlía fylgdi Skrekkshópi Seljaskóla í Borgarleikhúsið bæði á undanúrslitakvöldið sem og úrslitakvöldið, frábær stemning og upplifun. Hún dreif sig líka upp á svið og tók svokallaðan Orm í beinni utsendingu!
Oliver tók þátt í ÍM25 og tók mömmu sína vel á taugum þar en endaði með brons í 200m flugsundi í opnum flokki – ekki amalegt! Hann komst líka á pall í bæði 50 og 100m flugsundi í unglingaflokki.
Sigurborg Ásta fagnaði 11 ára afmæli sínu um miðjan mánuðinn og fékk fólkið sitt í mat og köku og svo vinkonuhópana báða (sund og skóla) í smá afmælisgleði nokkrum dögum síðar.
Seinnipartinn þann 28 fékk ég skilaboð frá vini pabba þar sem hann bað mig að hringja í sig, það símtal reyndist afar erfitt en pabbi hafði farið í hjartastopp þar sem hann var með félögum sínnum í Viðarvinum við tálg í Lækjarskóla. Sjúkraflutningamennirnir náðu honum í gang en tvísýnt var hvort hann kæmi til okkar aftur dagna sem fylgdu, hann var fyrstu nóttina á gjörgæslunni í Fossvogi þar sem honum var ekki treyst í flutning yfir á Hringbraut en var fluttur yfir um hádegisbil daginn eftir.
Við Leifur gengum til kosninga og drifum okkur einnig stutta stund í jólaboð hjá Hnit en það var haldið í XD salnum í Mjóddinni þannig að það var stutt að fara.
Krakkarnir voru búin að lofa sér á jólamarkað með tálg frá afa sínum á kjördag á Aflagandanum sem gekk vonum framar.
Desember
Segja má að þetta hafi verið skrítnasti desembermánuðurinn sem ég hef lifað, þrátt fyrir að hafa verið í svipuðum sporum með pabba fyrir litum 4 árum síðan þá er munurinn sá að þá hafði ég mömmu mér við hlið. Pabbi tók sér góðan tíma í að koma til baka til okkar og búið var að undirbúa okkur undir það að ef hann færi aftur í hjartastopp á meðan hann væri á gjörgæslunni væri það líklegast fyrir bestu að hann fengi að fara til mömmu, eins erfitt og það yrði.
Hann var fluttur yfir á Hjartadeildina eftir ca 10d á Gjörgæslu (reyndar þá var hann tilbúinn til þess að fara yfir á deild eftir ca viku en þurfti að fá einkastofu sem var ekki laus). Við bíðum svo eftir plássi á Landakoti fyrir pabba en því miður þá getur hann ekki farið heim eins og staðan er og er hann ekkert alltof sáttur við það og vill komast heim sem fyrst.
Ása Júlía tók sig til og sat hjá börnum Bryans og Lauren (læknir frá USA sem hóf störf á Nesinu í sumar) á meðan við skelltum okkur í jólaboð Nesmanna hjá Theodóru og Grími. Gekk ótrúlega vel á öllum vígstöðvum.
Sigurborg Ásta söng í messu á fyrsta í aðventu í Seljakirkju ásamt vinkonum sínum.
Laufabrauðið var skorið heima hjá Sigurborgu og Tobba í ár.
Krakkarnir mættu á jólafjör hjá sundfélögunum í Rvk og var meðal annars “synt í kringum jólatréið” sem vakti mikla kátínu allra. Í framhaldi af því fórum við mæðgur á tónleika með IceGuys í Laugardalshöllinni og hittum þar Sigurborgu, Tobba, Jón og Ingibjörgu – mikil gleði þar.
Oliver keppti á Bikarmótinu fyrir hönd Rvk liðsins.
Við tókum þorláksmessuhefðina og fórum í Jólaþorpið og Hellisgerði á Þorlák, enduðum svo í mat á Just Wingin it sem er að breytast í skemmtilega hefð líka.
Við tóku svo skrítnustu jólin, við vorum á Hjartadeildinni hjá pabba þegar bjöllurnar í Hallgrímskirkju hringdu inn jólin. Fólkið hans Leifs kom svo til okkar á annan í jólum.
Þegar þetta er skrifað er kvöldið hálf óráðið að öðru leiti en að við vonum heitt og innlega að árið 2025 sýni okkur mildi en það verður líka ár breytinga þar sem ég tók þá ákvörðun í lok október að segja starfi mínu á Heilsugæslunni lausu eftir rúmlega 18 ára starf þar og við tekur nýtt og spennandi ævintýri í febrúar <3