Þetta nafn…
Fátt hægt að segja til um það annað en að grunnurinn er fenginn þegar ég var í heimsókn hjá vinkonu minni á Akureyri fyrir MÖÖÖÖÖRGUM árum 🙂
Annars finnst mér fínt að kalla þetta líka, taka til í ísskápnum pastaréttur enda eru þeir yfirleitt eitthvað í ætt við þetta 😉
Í þetta sinn átti ég til niðurskorna papríku í frysti, sker alltaf niður papríku þegar mér finnst hún vera að verða of ljót í salat og skelli í frysti og á þá næst þegar planið er að gera einhvern svona rétt, pottrétt eða lasagna. Síðustu sveppirnir úr bakkanum og svo átti ég smá matreiðslurjóma líka.. allt til að nýta það sem til er.
- 300g pasta (ósoðið)
- 100g skinka
- 100g beikon
- 100g ferskir sveppir
- 1 papríka – bara sú sem er til
- 1 dós rjómaostur m/kryddblöndu
- 1/4-1/2l mjólk eða rjómi
- salt
- provencial krydd
Byrjum á því að skera niður sveppina, beikonið, skinkuna og papríkuna. Sjóðum pastað í léttsöltuðu vatni.
Beikon, sveppir, skinka og papríka steikt á pönnu. Rjómaosti og mjólk/rjóma blandað útí þegar búið er að fá smá lit á blönduna.
Þegar rjómaosturinn hefur bráðnað og blandast vel við mjólkina/rjómann er kryddinu bætt við og látið malla örlítið – eiginlega bara akkúrat á meðan við erum að sía pastað 🙂
Öllu blandað saman og borið fram með góðu brauði.