Enn eitt leyniprjónssjalið *hóst* ég veit… þetta er bara svo skemmtilega ávanabindandi.
Þennan höfund þekki ég ekki né hef ég séð mikið af verkunum hennar en hún heitir Lisa Hannes en gengur undir hönnunarnafninu Malhia
Hún talar um að þetta sé í raun fullkomið til þess að nýta upp minni dokkur eða afganga, svo framarlega sem maður á amk 48metra eftir og allt að 8 liti en það þurfti samt hátt í 2 dokkur af aðallitnum.
Ég kaus að kaupa mér nokkra liti og nýti svo það sem eftir er af dokkunum í dúllur sem ég er að hekla.
Dokkurnar hér til hliðar eru flestar heilar en ég notaði ekki þann sem er á ca kl 11 á myndinni 😉 og ekki þennan hvíta heldur – bætti við afgangi af Geilsk sem er bleikur. Ég kaus semsagt að nota Yaku garnið yndislega að mestu og ég valdi það í rauninni með dúllurnar til hliðsjónar.
Eftir á að hyggja hefði ég sennilega átt að fara í tóni ljósari gráan í aðallit en þetta kemur samt nokkuð vel út.
Höfundur mælti með prjónastærð 3.5mm og ég notaði hana… gæti alveg trúað að það þyldi 4mm.
Ég á samt eftir að blokka sjalið þegar þetta er skrifað þannig að endanleg útkoma er svosem ekki alveg komin.
Í síðustu vísbendingunni voru 2 valmöguleikar, ég valdi kost 2 sem þýddi að ég notaði bara 1 lit þar en kostur 1 hafði nokkra og þá í raun endurtekning á litunum sem áður voru komnir.
Þegar ég var að vinna vísbendingu 2 tókst mér að klemma mig á bílhurð á vísifingri hægri handar (slapp þó nokkuð vel) og var því vel innpökkuð á vísifingri sem gerði mér örlítið erfiðara fyrir að prjóna en það hafðist á endanum….
Ég er eitthvað að mikla það við mig að blokka það eða kannski frekar að finna pláss til þess að blokka það almennilega og etv tíma *hohoho* kannski ég dembi mér bara í það í kvöld og bæti þá myndum hér inn við tækifæri. ER amk búin að ganga frá öllum endum 😉
Ég væri alveg til í að gera annað eintak af þessu sjali en þá yrði litavalið allt öðruvísi… mögulega 1 sterkur aðallitur og svo 1 litur í mismunandi tónum…
Næsta MKAL er samt komið á prjónana og vísbending 2 af 5 í vinnslu þar en það er annað sjal eftir ROMI sem hannaði fyrsta sjalið sem ég gerði í fyrra og kom þessari bakteríu af stað hjá mér.