Guðmundur Karl…
eða Gummi Kalli eins og ég þekkti hann frá því í 7 ára bekk í Grandaskóla verður kvaddur í dag.
Mér þykir það alveg rosalega skrítin tilfinning..
…að vita að ég eigi ekki eftir að sjá hann skokka niður Framnesveginn í fyndnu litlu stuttbuxunum sínum.
…að ég eigi ekki von á því að sjá hann vera á fullu að hita upp eða teygja eftir hlaupa æfingu þegar ég skrepp út í Vesturbæjarlaug.
…að eiga ekki eftir að rekast á hann á rölti um hverfið… á leið niðrí búð eða e-ð.
…að strákur sem var með mér í bekk allan Grandaskóla sé farinn… Ég veit ekki til þess að það sé neinn annar úr hópnum sem var í þessum bekk frá 7 til 12 ára sé farinn.
Undanfarna daga hafa verið að koma smá minningarbrot upp í kollinn á mér tengd Gumma Kalla. Þau spanna mörg ár enda hef ég þekkt hann í um 18 ár. Vá er svona langt síðan ég kynntist honum ?
Minningarnar eru fjölbreyttar, skólinn, skíðaferðalög, leikjakvöld með öllum krökkunum á Aflagrandanum, kofabyggingar og margt fleira.
Það er ein minning sem mér þykir voða sæt og eftirminnileg. Við áttum að gera eitthvað verkefni í íslenskutíma, skrifa um besta vin okkar eða eitthvað þessháttar. Gummi Kalli og Sævar fengu að flytja sín verkefni saman enda voru þeir að skrifa um hvorn annan, síðasta setningin situr einhverra hluta vegna fast í kollinum á mér,
“Við höfum verið bestu vinir síðan við komumst að því að kennitölurnar okkar enda eins”.
Það eru margar minningamyndir sem poppa upp í kollinn og á þeim öllum er Gummi Kalli brosandi. Ég man varla eftir honum þar sem hann er ekki brosandi eða með glettinn svip eins og hann hafi verið að prakkarast.
Ég samhryggist fjölskyldu & vinum Gumma Kalla innilega og bið guð að vera með þeim á þessum erfiðu tímum.
Hvíl í friði kæri vinur.