Hin árlega haustferð með vinnunni hans Leifs var farin núna um helgina. Hópnum var smalað saman við Miðbæ og haldið með rútu á Snæfellsnesið fagra.
Við byrjuðum á því að stoppa í “Bunkernum” eins og Leifur kýs að kalla sumarbústað Forstjórans en Leifur fékk að hafa puttana aðeins í útreikningunum á honum enda er hann Steyptur í hólf og gólf!
Allavegana “Bunkerinn” er staðsettur á fallegum stað í Borgarfirðinum og nutum við þess að kíkja til þeirra í smá tíma og næra okkur aðeins áður en haldið var áfram.
Gestaþraut bústaðarins er mjög einföld – Finndu sprungu í loftinu, verðlaun í boði ef sprunga finnst!
Frá “Bunkernum” var haldið áfram út á Nesið og áttum við örstopp við bæinn Ölkeldu þar sem misþyrstir ferðalangar fengu sér sopa. Við Leifur vorum auðvitað í þeim hópi. Leifur var á því að þetta væri alveg drekkanlegt en hann myndi líklegast ekki sætta sig við þetta úr krananum heima 😉 Mér fannst vatnið bragðast eins og goslaust sódavatn. Allt í lagi en ekkert meira en það.
Þegar þarna var komið var komið þónokkuð rok og maður beið bara eftir rigningunni sem auðvitað kom og fór líka 😉
Við keyrðum út á Nesið og héldum að Vatnshelli þar sem við fórum í heimsókn í Bárðarstofu, Vættagöng og Iður. Skemmtilegt að sjá að nafnið á Innganginum í hellana heitir Undirheimar sem er svolítið táknrænt 🙂
Það var rosalega skemmtilegt að fara niður í hellana og við erum bæði alveg á því að fara aftur við tækifæri með krakkana með okkur! svo margt merkilegt þarna niðri sem hefur aldrei litið dagsins ljós. Eins og t.d. dropasteinarnir.
Leiðsögumennirnir hafa svo skemmt sér annsi vel undanfarin ár við að búa til hinar ýmsu tröllasögur og tengt þær við það sem hægt er að sjá út úr hrauninu. Sbr þessi glæsilega tröllskessa hérna til vinstri. Spurningin er er hún brosandi eða drullufúl kerling sem er orðin þreytt á átroðninginum frá þessu vasaljósaóða liði þarna niðri. Hún er víst kölluð Tengdamamman og býr í Vættagöngum sem er “miðju” hellirinn.
Það var svolítið skrítin tilfinning að vera þarna niðri í þessum kulda sem þar var og kolniðamyrkri. Sjá ekki neitt og heyra bara í leiðsögumanninum, samferðafólkinu og dropunum úr loftinu. Svolítið Magnað!
Eftir hellaskoðunina kíktum við niðrá Djúpalónssand þar sem fólk gerði misgóðar tilraunir við að lyfta þeim, Fullsterk, Hálfsterk, Hálfdrætting og Amlóða sem og að gera góðlátlegt grín að fólki sem fór örlítið of nálægt (samt langt frá því að vera nálægt) sjónum og þurftu að flýja eina ölduna sem skreið LANGT upp í fjöruna.
Djúpalónssandur er samt alltaf svo fallegur, að koma niður eftir göngustígnum um þetta stórbrotna landslag sem minnir einna hellst á ævintýraheim og í kolsvarta steinafjöru þar sem nær alltaf (amk alltaf þegar ég hef verið þarna og það er ekkert sjaldan) svakalegan öldugang sem dáleiðir mann. Það er ekkert skrítið að brakið af Epine GY 7 hafi farið svona illa þarna fyrir utan og sé á víð og dreif um fjöruna. Finnst samt svolítið sérstakt að brakið sé flokkað sem minjar sem ekki megi hrófla við þar sem náttúran sér nú annsi vel um það sjálf 🙂 minnir mann reyndar bara á að maður má aldrei vantreysta náttúruöflunum.
Þegar við komum aftur í rútuna eftir að hafa eytt dágóðum tíma í fjörunni drifum við okkur áfram á áfangastað enda komin hellidemba og hávaða rok.
Ferðinni var haldið í Hólminn fagra. Við vorum komin á Hótel Stykkishólm rétt fyrir kl 18 og héldu allir beinustu leið upp á herbergi með sitt hafurtask, sumir fengu sér kríu á meðan aðrir skelltu sér í léttan göngutúr um nágrennið. Við vorum í fyrri hópnum þó svo að hvorugt okkar hafi beint sofnað, en það var afskaplega gott að leggjast niður í smá stund.
Upp úr 19:30 fór fólkið að safnast saman í fordrykk í anddyri hótelsins og um kl 20 var okkur svo smalað saman inn í matsalinn þar sem við nutum matarins í góðum félagsskap (þó ég hafi eiginlega verið á því að félagsskapurinn hafi verið mun betri en maturinn en það er annað mál 🙂 hvenær hefur t.d. piparsósa verið með meira bbq bragði en piparbragði?).
Eftir hressandi kvöldgöngu með Óla og Hólmfríði um götur Stykkishólms drifum við okkur bara í bælið enda langur en skemmtilegur ferðadagur að baki.
Þegar allir höfðu nært sig af morgunverðarhlaðborðinu, komið dótinu sínu út úr herbergjunum og gert upp syndir kvöldsins var lagt af stað í borgina á ný.
Vorum komin til krakkana aftur rétt rúmlega 2 eftir yndislega ferð á Snæfellsnesið – panta betra veður næst takk!