Það hefur staðið til í mest allt sumar að kíkja í Hólminn að leiði Sigurborgar og Víkings þannig að úr varð að við ásamt Ingu og Skúla og Gunnari og strákunum drifum okkur í bíltúr vestur í gær (Eva var í vinnu).
Við fengum virkilega skemmtilegan dag og krökkunum fannst æðislegt að vera í “picknick” í skógræktinni eða ævintýraveröldinni eins og þetta leit út fyrir þeim með tilheyrandi “skrímslum” og leynistöðum.
Eftir að hafa nært okkur fórum við í kirkjugarðinn þar sem við fórum að leiði Sigurborgar og Víkings, stoppuðum líka hjá Fríðu systur Sigurborgar. Ása Júlía drakk bókstaflega í sig ættfræðina sem Skúli afi bauð upp á enda virðist ættfræði og ættartengsl eiga afskaplega greiða leið inn í kollinn hennar (þó nöfn séu ekki hennar uppáhald).
Við kíktum líka í Súgandisey og að Tangagötu 13 þar sem þau bjuggu alla sína hjúskapartíð. Sigurborg sagði mér einhverntíman að þau hefðu flutt þangað inn á brúðkaupsdaginn sinn þannig að þetta er í bókstaflegri merkingu 😉
Krakkarnir fundu berjalyng í Súgandisey og voru fljót að hreinsa af því öll æt ber og hófust fljótt handa við að leita að fleiri lyngjum.
Við röltum líka yfir í fjöruna í Maðkavíkinni og sumir gerðust svo djarfir að fara alla leið í Gullhólmann (þ.e. bara ég og Sigurborg Ásta urðum eftir í fjörunni). Krökkunum fannst ofsalega spennandi hvað við fundum mikið af “krakka kröbbum” og týndu og týndu og týndu litla krabba… planið er að kíkja á þá við tækifæri með stækkunargleri og stúdera almennilega 🙂
Við vorum frekar lúin öll þegar við runnum í hlaðið í Kambaselinu og fólkið fljótt að sofna.
Takk fyrir daginn Inga, Skúli, Gunnar, Hrafn Ingi, Sigmar Kári og Birkir Logi!