Við fórum í óvissuferð með vinnunni hans Leifs í gær.
Hópurinn safnaðist saman við Miðbæ um 10 leitið og keyrt var af stað austur fyrir fjall.
Fyrsta stopp var ekki fyrr en við Skógarfoss og þar fóru flestir af stað upp til að líta hann augum eftir að hafa gætt sér á samlokum og ýmsum drykkjarföngum.
Frá Skógarfossi fórum við yfir á Skógarsafn þar sem við kíktum á Byggðarsafnshluta safnsins með leiðsögn – vá hvað það væri auðvelt að gleyma sér þar í marga marga klukkutíma! mæli hiklaust með því að fólk fari þarna um og ekki skemmir að það þarf ekki að vera stöðugt að banna krökkunum að koma við hlutina! það má snerta!
Næsta stopp var svo Landeyjahöfn og þá auðvitað einnig Herjólfur!
Smá munur á ferðinni núna og þegar við fórum með Heilsugæslunni fyrir nokkrum árum 😉 núna = engin rigning! Þrátt fyrir stutt stopp í þetta sinn gerðum við Eyjunni góð skil, skoðuðum Eldheima sem var rétt svo búið að grafa upp (þ.e. aðal húsið) þegar við vorum þarna haustið ’10. Virkilega gaman að fara þarna í gegn aftur. Eftir að við yfirgáfum safnið keyrðum við um og Kristín gaf okkur ágætis leiðsögn um eyjuna, m.a. hvar “Tyrkirnir” komu í land og hvar “Þjóðhátíðin” var haldin í 2 ár eftir gos…
Við enduðum svo eyjaferðina okkar á því að fá okkur dýrindis máltíð á veitingastaðnum Einsi Kaldi, þar fékk ég eitt það besta nautakjöt sem ég hef fengið lengi og bjóst svo innilega ekki við að smakka 😉 hægeldaða nautaKINN sem hafði verið elduð í 38klst! svo ótrúlega meir og góð… alveg dásamleg!
Eftir matinn var haldið af stað aftur í land … yndislegur dagur sem gaf okkur svo fallega kveðju í lok dags með dásamlegu sólsetri sem við gátum fylgst með á meðan við vorum að sigla yfir í Landeyjahöfn.