Undanfarin ár hef ég útbúið svokallað samverudagatal fyrir krakkana og í raun okkur líka! Inn í það fléttast ýmis verk eins og t.d. að undirbúa gluggana í herbergjum krakkanna fyrir jólaljós og eru þau voðalega spennt fyrir því… eins og sjá má hérna á myndinni til hliðar 😉 Ása Júlía á fullu að pússa gluggann í herberginu sínu 🙂
Oliver spurði mig í byrjun nóvember sl hvort við yrðum ekki örugglega með svona dagatal aftur í ár þar sem við gerðum eitthvað saman á hverjum degi fram að jólum. Það var auðvitað auðfengið 😉
Það er ýmislegt sem við bröllum eins og einn daginn skellti ég mér á netið, prentaði út nokkrar myndir sem hægt var að perla eftir og útkoman var stórglæsileg og skemmtilegt að eiga svona perl eftir krakkana (og okkur!)
Þetta er auðvitað smá þolinmæðisverk en aðal áskorunin fyrir krakkana er að bíða eftir því að perlið sé straujað!
Við vorum líka með piparkökubakstursdag, piparkökuskreytingardag, jólabíómyndadag, konfektgerðardag, smáköku og súkkulaðidag, og auðvitað freyðibað sem er í miklu uppáhaldi hjá krökkunum og ekki var leiðinlegt að fá að taka Sigurborgu með í ár!