Við skelltum okkur í smá ferðalag um helgina með vinnunni hans Leifs.
Hittumst nokkur við Olis í Norðlingaholti og keyrðum í samfloti austur í Þjórsárdal þar sem stoppað var í bústað eins af samstarfsmönnum Leifs og gætt sér á léttum brönsh í æðislegu umhverfi.
Þvínæst var haldið inn að Stöng .. eða þeir sem voru á stærri bílum, við höfðum verið svo forsjál að dobbla tengdó til að lána okkur jeppann sinn á meðan þau voru úti þannig að við vorum í góðum málum 😉 Krökkunum fannst þetta ævintýri algert æði enda keyrandi ofaní á og stóra polla 😉 Eftir að hafa skoðað Þjóðveldisbæ Gauks Trandilssonar var haldið áfram keyrslu og stoppað við Gjánna og gengu sumir niður í hana, þar á meðal Oliver & Ása Júlía ásamt Leifi en við Sigurborg drifum okkur aftur inn í bíl til að hlýja okkur. Næsta stopp var Háifoss þar sem við Sigurborg héldum okkur enn inni í bílnum en Leifur kíkti út með krakkana. Þá var haldið að hótel Hálönd þar sem við gistum. Við fengum úthlutað “íbúð” þar sem búið var að setja upp ferðarúm fyrir Sigurborgu Ástu og búa um bæði kojur fyrir krakkana sem og svefnsófa í stofunni… veit ekki alveg hvað þau héldu að við værum mörg enda þarna þá tilbúin svefnpláss fyrir 7. Að hafa nóg af sængum var ekki slæmt svosem þar sem íbúðin var ÍSKÖLD og það tók okkur langan tíma að ná hitanum upp. Drógum fyrir öll gluggatjöld, skrúfuðum alla ofna í botn og kveiktum m.a. á eldavélinni. Þetta var svakalegt! Ég klæddi Sigurborgu ekki úr útifötunum fyrir en ca 2 klst eftir að við komum í hús. Sem betur fer var hitaketill þarna og “complimentary” heitt kakó og instantkaffi þannig að við gátum hitað kakó fyrir liðið 🙂
Um kvöldið var sameiginlegur kvöldmatur á hótelinu þar sem við fengum dásamlegan mat og áttum saman góða stund með hópnum.
Þegar við vöknuðum á sunnudagsmorgni blasti við okkur alhvít jörð og þökkuðum við bara fyrir að vera á jeppanum sem tengdó á en ekki Previunni því þá hefðum við bara þurft að vera þarna þar til snjórinn bráðnaði! Reyndar er það svolítið hart að segja þar sem þarna voru þónokkrir vel útbúnir stærri jeppar á svæðinu sem hjálpuðu þeim sem ekki komust úr stæðunum 🙂
Þegar fólk hafði metið aðstæður var ákveðið að hluti hópsins héldi áður ákveðnu plani, það er að segja sá hluti sem var á jeppum og treysti sér til, og skellti sér yfir Búðarhálsinn og kíkti á virkjunina. Það fannst Oliver ekki leiðinlegt! enda er barnið búið að sjá þessa virkjun nánast á öllum framkvæmdastigum (hvort hann man allt er annað mál!).
Við vorum annsi lúin þegar við komum aftur í borgina eftir ævintýrablendna ferð 🙂
Leifur setti nokkrar myndir inn á Facebook síðu HNIT