Við skötuhjúin ásamt yngsta fjölskyldumeðliminum skelltum okkur með Hinturunum til Barcelona núna um mánaðarmótin. Ástæða ferðarinnar var árshátíð Hnit 🙂
Fimmtudagur 1.maí
Ræs um 5 í morgun. Sigurborg var frekar undrandi á að við værum að vekja hana enda er það ekki alveg vaninn 😉
Eftir að við náðum í Jón Þór í Engihjallann brunuðum við beint á flugvöllinn, ferðin var hafin!
Sigurborg var sofnuð áður en vélin fór í loftið og svaf ca hálfa leiðina. Hún tók reyndar lúr í aðfluginu og lendingu líka 😉
Eftir að við losuðum okkur við töskurnar á hótelið og búin að finna “crewið” okkar héldum við af stað í leit af mat… fólkið gafst upp og skellti sér á MacDonalds. Röltum svo niður Römbluna og wnduðum niður á höfn. Þar tókum við eftir lögregluþyrlu sem sveimaði yfir borginni. Stuttu síðar sáum við fjölda lögreglubíla og lögreglumenn í óeirðarbúningum sem ráku fólk í burtu. Sáum að fólk hafði ráðist á banka og brotið rúður og rústað hraðbanka. Löggan lokaði svo hluta af borginni og okkur hálf ýtt til baka í gegnum gottneska hverfið í áttina að römblunni. Við vorum reyndar veidd inn á ágætis veitingastað sem klikkaði reyndar all svaðalega í afgreiðslu á matnum. Fyrst fékk helmingur hópsins mat og þegar þau voru búin að borða fengu 2 okkar sinn mat og Leifur sat eftir. Þegar hann fékk loksins sinn mat voru allir búnir að borða og staðan frekar undarleg.
Við röltum svo til baka á hótelið. Mæðgurnar kúrðu sig saman fyrir framan sjónvarpið en Leifur kíkti út með nokkrum Hniturum
Föstudagur 2.maí
Flestir skelltu sér í skoðunarferð með rútu á vegum ferðaskrifstofunnar í morgunsárið en við kusum að rölta á eigin vegum um borgina. Rákumst á Halldór og Bryndísi í morgunmatnum og úr varð að við fórum saman í verslunarmiðstöðina Diagonal Mar sem er víst nýjasta verslunarmiðstöðin í Barcelona. Þar tókum við heimsókn í H&M með klassískum íslenskum stæl og versluðum slatta af fötum á börnin. Leifi langaði að kíkja inn í Toys’r’us en sú var eiginlega minni og lélegri en verslanirnar heima, Leifur keypti samt 1 stk legokassa fyrir afmælisbarn dagsins.
Við fengum okkur hádegismat á veitingastað í verslunarmiðstöðinni og röltum svo eftir ströndinni til baka með smá stoppi á strandbar til að vökva okkur. Leifur rölti niður að sjó með Sigurborgu og Bryndísi bara til að geta sagt að hann hafi stungið tánum í sjóinn. Röltum áfram að smábátahöfninni og svo að dýragarðinum. Fórum inní Parc de la Ciutadella og að Castell dels Tres Dragons og undir Arc de Triomf.
Vorum komin uppá hótel rúmlega 5 og náðum að hvíla okkur aðeins áður en við fórum að snurfusa okkur fyrir árshátíðina sem haldin var á hótelinu.
Þetta reyndist vera frekar fyndin árshátíð… í ljós kom að ekki hafði verið gert ráð fyrir fordrykk þannig að einn í skemmtinefndinni skaust út í búð og reddaði freyðivíni, maturinn var í anda landsins en reyndar fékk hann misjafnar undirtektir og verður líklegast minnst sem forréttarins sem enginn borðaði 😉
En hann var ca á þessa leið… ólystilegur smokkfisk og hrísgrjón í forrétt (Leifur reyndar þrælaði ofan í sig kjöthlutanum eftir að hafa hreinsað mesta slorið frá) Aðalrétturinn var svo nautakjöt sem var ágætt fyrir mötuneyti en ekkert sérstaklega árshátíðarlegt og með því var ein-tvær sneiðar af sætri kartöflu. Í eftirrétt var dísætur og mjög súr berja-sorbetís (sem ísætan Dagný rétt smakkaði). Til að kóróna allt saman ráku þau okkur út kl. 22 til að þrífa salinn og út af hótelinu uppúr 23 svo við héldum ekki vöku fyrir gestunum.
Þetta var já frekar fyndin upplifun og ekki alveg árshátíð sem er í anda íslendinga.
Dagný og Sigurborg fóru upp á herbergi þarna um það leiti sem við vorum beðin um að yfirgefa salinn en Leifur varð eftir.
Partýpinnarnir skelltu sér á bar í nágrenninu og skemmtu sér fram eftir nóttu.
Laugardagur 3.maí
Fólk vaknaði mishresst þennan daginn. Mæðgurnar fóru einar í morgunmat á hótelinu. Við skelltum okkur svo öll út stuttu síðar og ákváðum að rölta niður Römbluna og kíkja meðal annars inn á gamla markaðinn La Boqueria. Þar inni fundum við girnilegustu ávaxtahlaðborðin ásamt ógirnilegustu kjöt og fisk hlaðborðunum 😉
Við hittum Halldór og Bryndísi eftir að við komum út af markaðinum og settumst niður með þeim í mat og drykk á Römblunni.
Gengum svo inní gotneska hverfið. Gengum inn Carrer dels Escudellers. Þar á horninu við Carrer del Vidre sáum við veitingastað sem við áttum síðar eftir að borða á, þar sem þeir voru að grilla kjúklinga úti á húshliðinni. Staðurinn heitir Los Carracoles frá 1835.
Við vorum komin heim á hótel aftur um 16 og hvíldum okkur í smá stund, höfðum nefnilega mælt okkur mót við Halldór og Bryndísi síðar til að fara á Plca d’Espanya og í nýju Arenas verslunarmiðstöðina sem var gerð inní gömlum nautabanahring. Fundum þar Nespressobúð þar sem við notuðum tækifærið og keyptum nokkra stauka af kaffi sem við (lesist Leifur) höfðum ekki smakkað áður ásamt limited edition kaffi í gjafaumbúðum til að gefa SVIK. Við fengum okkur að borða á veitingastað sem heitir Happy Rock og var þjónustustúlkan sem sá um okkar borð alveg rosalega hrifin af Sigurborgu Ástu. Hún fékk m.a. einn af þjónunum til að koma til að hjálpa sér að lýsa hrifningu sinni á dömunni en hann ákvað að stríða henni og segja að hún vildi kaupa Sigurborgu Ástu, hvað við vildum fá fyrir hana… daman skildi þetta og var allt annað en sátt við samstarfsmann sinn 😉
Eftir matinn gengum við að gosbrunnunum og horfðum á sýninguna sem byrjaði kl. 21 og rúlla á 30mín fresti. Þegar á leið varð hún flottari þegar fór að dimma. Vorum þarna í 45 mínútur og tókum svo lestina heim.
Sunnudagur 4.maí
Líkt og síðustu daga eyddum við deginum með Dóra og Bryndísi en þau höfðu líkt og við ákveðið að fara ekki með hópnum í skoðunarferð upp í Montserrat í dag.
Gengum upp í moderníska hverfið eftir Passeig de Gracia, framhjá Casa Batlló að La Pedrera (Casa Milá, Það var hulið dúk vegna viðgerða) og að LA Sagrada Familia.
Við vorum komin að Sagrada Familia um kl. 11. og fórum í röðina en var strax sagt að það væri uppselt fram á morgundaginn þannig að við urðum að láta okkur nægja að skoða hana bara að utan í gegnum girðinguna. Þarna sáum við þau fyndnustu ferða WC sem við höfum nokkurntíma séð, eingöngu fyrir KK og voru mjöööög sérstök, ekkert privacy, bara horn með “gati” til að pissa í!
Við gengum uppí Parc Guell og vorum komin þangað kl. 1330. Þar var sama sagan, þurftum að kaupa miða en komumst samt ekki inn. Við gátum fengið að fara inn kl. 1630 sem við tókum. Gengum aðeins til baka í leit að kaffihúsi en þau eru ekki þarna eins undarlegt og það er! Fundum loks eitt. Gengum um efri hluta garðsins en þar þarf ekki að borga sig inn. Gengum uppfyrir Placa de la Natura og upp stiga á hæðina og svo niður eftir Viaduct dels Enamorats. Borðuðum nesti á bekkjum nokkuð ofan við Placa de Natura. Fórum svo inní garðinn sjálfan á Placa Natura. Settumst á Gaudi-bekkinn fræga þar sem Dagný gaf Sigurborgu brjóst. Eftir að hafa rölt um garðinn drifum við okkur heim á hótel.
Eftir að hafa skipt út Manduca burðarpokanum fyrir kerru fyrir Sigurborgu gengum niður gotneska hverfið niður á Los Carracoles á horni Carrer dels Escudellers og del Vidrem, þar pöntuðum við borð sem við gátum fengið eftir ca 40 mín. Þegar röðin var komin að okkur var ákveðin upplifun að komast inn á sjálfan veitingastaðinn en við þurftum að ganga í gegnum eldhúsið þar sem verið var að flambera. Við fengum þröngt borð útí horni en það var allt í lagi því staðurinn var skemmtilegur og þjónustan góð. Pöntuðum öll sirloin-steik. Við vorum öll rosalega ánægð með matinn og höfðu strákarnir orð á því að þetta gæti mögulega verið ein besta nautasteik sem þeir höfðu fengið. Menn með gítara komu og sungu fyrir okkur. Byrjuðu á að syngja vögguvísu fyrir Sigurborgu sem farin var að vola smá.
Þegar komið var heim á hótel hófst pökkunin og frágangur fyrir heimferðina.
Mánudagur 5.maí
Kláruðum að pakka og fórum með Dóra og Bryndísi á markaðinn á Römblunni þar sem Bryndís keypti 1.6kg af jarðaberjum á svipaðan pening og við borgum fyrir 250gr öskju heima :-/
Fórum uppá Katalóníutorgið og settumst á Txapela tapas-staðinn. Fengum bestu tapasrétti sem við höfum smakkað og okkur fannst matseðilinn líka alveg stórkostlegur enda voru myndir af nákvæmlega öllum tapasréttunum sem voru í boði, mjög þægilegt.
Þegar við vorum búin að næra okkur var komið að heimferðinni, við fórum á hótelið og náðum í farangurinn okkar og beint í rútuna sem beið hópsins við hótelið.
Við fengum snilldar sæti á heimleiðinni, sætaröð 1 með nægu plássi fyrir okkur. Sigurborg svaf mest alla leiðina og var eins og engill þann stutta tíma sem hún var vakandi.
Þegar við komum heim í Kambaselið biðu okkar mjög svo spenntir ungar með ömmu sinni. Við spjölluðum aðeins um ferðina og leyfðum Oliver að opna umslagið sem tilkynnti að við værum að fara í LEGOLAND í sumar. Hann var svo þreyttur að hann virtist ekkert mjög spenntur yfir því en þegar hann melti það þá breyttist það fljótt.
Myndirnar hér í færslunni eru myndir sem Dagný sendi inná Instagram á meðan við vorum úti. Aðrar myndir koma inn með tímanum á Fotki 😉