Fyrir umþað bil mánuði síðan heklaði ég húfu á Sigurborgu Ástu… átti reyndar alltaf eftir að setja færslu hingað inn um hana en það var reyndar bara vegna skorts á myndum. Ég slæ því 2 flugur í einu höggi í þessum pósti 😉
Sara vinkona heklaði svo dásamlega fallega dökk rauða silkihúfu á Sigurborgu Ástu rétt áður en hún fæddist og gaf okkur. Þessi húfa var virkilega mikið notuð og ég veit fyrir víst að nokkrir Silkitoppar (en það er nafnið á húfunni) fóru á heklunálar eftir að fólk sá þessa húfu. Sem er ekkert skrítið þar sem hún fellur svo vel að höfði barnsins og er mjög einföld í rauninni. Reyndar þónokkur talning þannig að maður þarf að hafa hugann við en það gerir ekkert til og hún er nokkuð fljótgerð, sérstaklega fyrir vana heklara (sem ég er ekki!).
Þegar fallega húfan frá Söru var að verða of lítil tók ég mig til og keypti Jaipur silki í Litlu Prjónabúðinni, fann heklunál nr 2 og útkoman varð þessi 🙂
Ástæðan fyrir því að ég er að monta mig er nú ekki beint húfan þó ég sé rosalega ánægð með hana!!
Í gærmorgun fékk ég ábendingu frá Lindu Björk um að kíkja á forsíðubloggið á Ravelry sem hafði verið birt kvöldið áður og viti menn… ég má barasta vera mjög stolt og montin af þessari húfu þar sem einn af stjórnendum Ravelry valdi hana sem eitt af 3 íslenskum verkefnum til að birta í bloggfærslunni sinni 😀
Á þessum tímapunkti var þessi mynd sem er birt þarna og ég setti hér að ofan eina myndin í verkefninu á Raverly… ég gat náttrúlega ekki haft þetta bara svona ónei! Fljótlega eftir að Sigurborg Ásta vaknaði úr lúrnum sínum var bætt úr því og þessar myndir settar inn líka 🙂
Til hamingju með myndbirtinguna. Voða falleg húfa og litla hnátan yndisleg.