Við mæðgurnar skelltum okkur til ömmu og afa í dag í þeim tilgangi að plata ömmu til að baka með okkur Kleinur!
Langt síðan við höfum fengið alvöru almennilegar kleinur og var Ása Júlía alveg með það á tæru að hún ætlaði sko að borða þær allar líka 😉
Mamma var reyndar nokkurnvegin tilbúin með deigið þegar við komum vestureftir sem var svosem ágætt því þá gat sú stutta byrjað að læra snúninginn en við áttum svosem ekki von á að hún myndi endast nema alveg í blábyrjun en svo var nú ekki. Hún rak á eftir okkur ef við vorum ekki nógu fljótar að fletja út eða skera og færa yfir á borðið til hennar tilbúið í snúning – á einum tímapunktinum gafst hún upp og flatti út bara sjálf! var svo komin með skerann í hendurnar þegar við fengum að hjálpa henni að skera.
Hennar eintök voru mörg hver annsi sniðug en hún kaus að snúa þeim aðeins öðruvísi en við og kláraði ekki alltaf alveg snúninginn en það hafðist samt 🙂
Mikið var gott að fá nokkrar kleinur og ískalda mjólk þegar steikingin var yfirstaðin og frystirinn er nokkrum pokum ríkari af kleinupokum til að grípa í 🙂
Þetta var mjög skemmtilegur dagspartur og yndislegt að eiga svona stund með þeim tveim.