Mér þykir það dálítið skemmtileg hefð að lít yfir árið og punkta niður það sem hefur gerst á árinu. Kemur oft í ljós að það sem virst hefur viðburðarlítið ár reynist vera ár stærri viðburða 😀
Í ár var heilmikið í gangi og hægt að segja að þar hafi nokkrir stórviðburðir leynst amk ekki minni en í fyrra 😉
Janúar:
Nýtt ár gekk í garð og var því fagnað á tilheyrandi máta í Birtingaholtinu.
Við fögnuðum afmæli Skúla afa þegar mánuðurinn var rétt tæplega hálfnaður.
Leifur var sendur í örferð á Búðarháls en annars var hann að vinna í bænum.
Ása Júlía og Oliver fóru bæði á sundnámskeið hjá Sundskóla KR, Oliver var áfram í Austurbæjarskóla hjá Símoni en Ása Júlía fékk að fara í Sundhöllina til Halldórs. Oliver hélt líka áfram að æfa fótbolta með Fram. Ása Júlía byrjaði líka að æfa dans í Dansskóla Jóns Péturs & Köru.
Í lok mánaðarins skelltum við okkur í “Opið Hús” í húsi sem við duttum niðurá í fasteignaauglýsingunum, það uppfyllti eiginlega of mörg af okkar skilyrðum þannig að við gátum ekki annað en kíkt á það. Úr varð að við gerðum tilboð í húsið og því var tekið – auðvitað var smá fyrirvari til staðar…
Febrúar:
Opinbert varð að fluttningar stæðu til og að við myndum breytast í Breiðholtsvillinga áður en langt um liði. Hvassaleitið var sett á sölu og seldist áður en vikan var liðin!
Mánuðurinn leið alltof hratt með kassa út um allt og fluttninga yfirvofandi.
Bolludagur, sprengidagur og öskudagur komu með sínum hefðum, Ása Júlía dansaði um allt sem senjorita og Oliver handtók alla þá sem ekki fóru að lögum enda lögreglumaður þar á ferð.
I lok mánaðarins kom svo í ljós að við yrðum 5 áður en árið liði.
Mars:
Fengum Kambaselið afhent og aðeins 5 dögum síðar vorum við búin að tæma og afhenda Hvassaleitið og fylla bílskúrinn í Kambaselinu. Mikill sprettur í byrjun mánaðarins og heilmiklar framkvæmdir byrjuðu, fyrst að mála og fast á hæla þess fylgdi svo smá breytingar í skúrnum og nú þegar þetta er skrifað eru yfirstandandi framkvæmdir í risinu sem búast má við að eigi eftir að taka þónokkurn tíma til viðbótar.
Fórum á ættarmót hjá Fagureyjarættinni (Sigurborg amma og systkini hennar) og komumst þar að því að ótrúlegustu tengingar eru til staðar í ættartengslum og vináttum.
Leifur var virkur í fundarstússi hjá Sjálfstæðisflokknum vegna yfirvofandi kosninga.
Hittum loksins Sigurborgu og Ingibjörgu eftir 4 mánaða dvöl þeirra mæðgna í Danaveldi… og stuttu síðar Tobba líka.
Afmæli Magga afa var í lok mánaðarins
Apríl:
Páskar! með tilheyrandi páskaeggjaáti og sykursjokki.
1 árs afmæli Ingibjargar var haldið hátíðlegt.
Við byrjuðum að lauma fréttum af fjölgun til nánustu ættingja.
Jóhann frændi lést og kvöddum við hann í yndislegri og látlausri athöfn um miðjan mánuðinn í Fossvogskirkju.
Dagný skellti sér upp í Borgarnes og hitti afkomendur Olla afa og Helgu ömmu í árlegri lappaveislu heima hjá Vífli frænda og Jónínu.
Oliver byrjar að æfa fótbolta með ÍR. Ása Júlía sýndi dans ásamt hinum krökkunum á byrjendanámskeiðinu ásamt því að tækla sundið hjá Halldóri og Oliver lauk sundskólanum með glæsibrag.
Oliver missti fyrstu tönnina!!
Maí:
Afmæli Olivers var haldið hátíðlegt að vanda hér í Kambaselinu. Aldrei þessu vant var ein risaveisla í stað 2 enda nóg pláss hér 😉
Vinirnir Oliver og Valur Kári buðu skólahópi í afmælisveislu í Ævintýragarðinum.
Kíktum í heimsókn í Ossabæ en SVIK voru með hann yfir helgi í byrjun mánaðarins.
Dagný & krakkarnir fóru í vorferð með Heilsugæslunni á Þingvelli sem endaði í grilli og gleði í bústaðnum hjá Magneu og fjölsk. Frábær dagur með dásamlegum mat og hressu fólki.
Leifur náði sér í einhverja pest sem endaði með ferð á bráðamóttökuna eftir heimsókn til Guðmundar læknis með næturgistingu, súrefni í nös og 3-4 lítra af vökva í æð. Í ljós kom svæsin lungnabólga og var Leifur í dágóðan tíma að ná sér eftir þessi veikindi.
Fórum í 1 mæðraskoðun hjá Gígju ljósu og 12vikna sónar, 9.nóvember var dagurinn sem sónarinn gaf.
Oliver útskrifaðist úr leikskólanum og fór í rosalega skemmtilega ferð með krökkunum í skólahóp.
Oliver tók þátt í sínu fyrsta fótboltamóti, mótið var haldið í Laugardalnum og var á vegum Þróttar.
Fögnuðum afmæli Ingu ömmu í lok mánaðarins.
Júní:
Dagný skellti sér á tónleika með Evu og Ásu, fengu þær þónokkra Nostalgíu beint í æð á tónleikum Vina Vors og Blóma í Borgarleikhúsinu. Á meðan Dagný skemmti sér þar tók Oliver sig til og lærði að hjóla án hjálparadekkja!
Leifur byrjaði aftur á vöktum á Búðarhálsinum.
Dúddí frænka lést og voru Sigurborg og Tobbi fulltrúar okkar við útför hennar í Danaveldi.
Feðgarnir fóru í Vorferð leikskólans að Langasandi og í skógræktina á Akranesi. Svaka sport að hlaupa út í ískaldann sjóinn! Því miður voru mæðgurnar fjarri góðu gamni þar sem Ása Júlía náði sér í leiðindarpest.
Fjölskyldan skellti sér vestur á Snæfellsnes þar sem afkomendur Olivers afa Dagnýjar hittust í Ólafsvík og minntust þess að heil öld var liðin frá því að hann fæddist. Virkilega skemmtilegur dagur sem hófst á göngu um æskuslóðir hans, að kindakofanum og út í skógrækt. Um kvöldið borðuðum við svo öll saman í félagsheimilinu Klifi og nutum þess að vera saman og rifja upp minningar tengdum Oliver afa og Helgu ömmu.
Jóhanna amma og Leifur áttu bæði afmæli fyrri hluta mánaðarins.
Við fórum í 20 vikna sónar og í ljós kom að Oliver og Ása Júlía fengju litla systur í nóvember.
Júlí:
Oliver hættir á Austurborg þegar sumarfríið byrjaði.
Dagný og krakkarnir skelltu sér í heimsókn til Leifs á Búðarháls.
Hann fékk vini sína af Austurborg í heimsókn einn góðan sumardag.
Við eyddum sumarfrísdögunum, þeim fáu sem sólin lét sjá sig amk, á pallinum hérna í Kambaselinu. Krakkarnir fengu uppblásna busllaug sem vakti mikla gleði og buslugang.
Leifur kom heim í sumarfrí af Búðarhálsi.
Maggi, Elsa og krakkarnir komu í kaffi á pallinn og Oliver tók sig til og kenndi Óskari Leó Kubb.
Feðgarnir nýttu rigningardaga í múrverk í risinu ásamt því sem þeir gengu góða hjálp frá ættingjum við framkvæmdirnar þar.
Ágúst:
Ásta frænka og Linda frænka komu til landsins og áttum við að fá að hafa þær hjá okkur í rúman mánuð en örlögin gripu inn í þegar Sam frændi lést í lok mánaðarins, flýttu þær því heimferðinni og ákvað Maggi afi að fara með þeim.
Við skelltum okkur í 2 nátta útilegu við Faxa í hávaðaroki. Fórum í bíltúr um nágrenni Faxa og skelltum okkur í sund í Reykholti þar sem Ása Júlía fékk að fara með nýju dúkkuna (Ágústa Linda) frá Lindu með ofaní… sú er þeim töfrum gætt að geta synt svo framarlega sem rafhlöður eru til staðar.
Ágúst er afmælismánuðurinn mikli hjá fjölskyldunni enda eiga Dagný, Ása Júlía og Sigurborg langamma allar afmæli á stuttum tíma… svo bættum við auðvitað í gleðina í fyrra með því að gifta okkur og fögnuðum við því 1 árs brúðkaupsafmæli líka.
Dagný og æskuvinkonurnar fóru saman út að borða á Forréttabarinn í tilefni afmælisgleðinnar sem á sér stað yfir sumarið en 3/5 af hópnum eiga afmæli í júlí og ágúst. Dagný hugsar oft enn til grillaða Gullostsins með vatn í munninum.
Oliver tók þátt í sínu öðru fótboltamóti , Andrésar Andarmótinu á vegum Víkings og skemmti mörgum með því að vera á hliðarlínunni í ÍR-búningnum að hvetja félaga sína sem kepptu með Fram í öðrum riðli.
Stuttu eftir að Dagný byrjaði að vinna aftur eftir sumarfrí fór hún í sykurþolsmælingu (ath með meðgöngusykursýki) sem hún auðvitað var ekki með vott af. Blóðþrýstingurinn var hinsvegar ekki alveg í takt við sykurþolið og skikkaði Gígja ljósa hana í lækkað starfshlutfall.
Ása Júlía býður ættingjum og vinum í hádegisafmælisveislu á Menningarnótt. Himinlifandi skotta þar á ferð með dúkkukökuna sína.
Oliver eyðddi nokkrum dögum í ofdekri hjá ömmu og afa í Birtingaholti áður en stóra skrefið var tekið, Skólastrákur mætti í fjölskylduna í lok mánaðarins.
Fórum í eina flottustu afmælisveislu ársins, 40 ára afmæli Víkings frænda Leifs, ekki oft sem maður er sunginn í kaf af fagfólki í miðjum afmælissöng.
September:
Dagný hélt áfram að daðra við háþrýsting og var sett í algera hvíld frá vinnu og helst gott betur en það. Gott að eiga gott stuðningsnet ömmu og afa 😉 Í framhaldi af þessu tóku við vikulegar heimsóknir til Gígju til að fylgjast með þrýstingi og fleiru. Einnig fórum við í vaxtasónar til að fá „frumtölur“ varðandi stærð barnsins, það er víst hætta á að fylgjan kalki snemma og valdi því vaxtarskerðingu hjá barninu þegar háþrýstingur gerir vart við sig. Allt kom algerlega eðlilega út úr því og alveg meðal stúlka á leiðinni.
Dagný og Anna María frænka stóðu fyrir ættarhittingi í byrjun mánaðarins, þ.e. afkomendum Þuru ömmu og Steina afa. Fjölskyldan hittist í Lionssalnum í Sóltúni og vorum við með samskotsborð ásamt því að fá ljósmyndara á staðinn til að taka nokkrar myndir af fólkinu.
Maggi afi kom heim eftir 3vikna dvöl hjá Ástu frænku í Texas með töskur fullar af dótaríi sem við höfðum pantað á netinu *úps*
Dagný og Oliver skelltu sér á Ripleys Belive it or not heimsmetasýningu í Háskólabíói við mikla gleði þess síðarnefnda.´
Oliver fékk líka að fara með pabba upp á Búðarháls frá laugardagsmorgni til sunnudagskvöld, hann var alveg í skýjunum með þá ferð, þar sem hann fékk m.a. að prófa að stýra 25t gröfu og fá bíltúr í búkollu.
Strumpur bættist í fjölskylduna… réttnefni er reyndar Toyota Previa og er hann kallaður Strumpurinn í daglegutali hérna heima… eða Strumparútan.
Ása Júlía byrjaði hjá Símoni í Sundskóla KR í Austurbæjarskóla – Hæ Símon, ég er komin! Var eitt af því fyrsta sem daman sagði í fyrsta tímanum.
Október:
Dagný náði að eiga smá einkatíma með Ásu Júlíu þar sem þær fóru út að borða og höfðu það nice á meðan Oliver var í afmæli hjá skólabróður og síðar í mánuðinum fékk Oliver smá mömmutíma á meðan Ása Júlía fór í afmæli til vinkvenna sinna. Nauðsynlegt að eiga smá einkatíma með hvoru fyrir sig áður en friðurinn er úti 😉
Ása Júlía fékk Lúlla bangsa með sér heim af leikskólanum og var hann hjá okkur yfir helgi. Kíktum með hann á Bangsaspítalann og reyndist hann vera hrammbrotinn og þurfti heilmikla umönnun að mati Ásu.
Mánuðurinn leið og loksins kom að því að Leifur fór síðustu vaktarlotuna á Búðarháls. Ekki seinna vænna 😉
Ása Júlía fór í 4 ára skoðun í byrjun mánaðarins og rúllaði öllu þar upp eins og ekkert væri að undanskildu sjónprófinu. Úr varð að við fengum tilvísun til augnlæknis.
Fyrsta bekkjarkvöldið hjá bekknum hans Olivers var haldið í ÍR-heimilinu og fengum við danskennslu í hiphop dansi (eða já, krakkarnir fengu hana).
Meðgangan gekk vel, Dagný stækkaði og stækkaði og við fórum aftur í vaxtarsónar og þá vildi ljósmóðirin meina að stúlkan yrði vel yfir meðalstærð við 40vikur og vildi helst af öllu senda Dagnýju aftur í sykurþol (þarna komin tæplega 38vikur) vegna vaxtarstökks barnsins og mikils magns af legvatni.
Nóvember:
Leifur kom heim!
Dagný var send í mónitor á LSH til að kíkja á skottuna, eitthvað fannst þeim hún heldur róleg og voru mæðgurnar sendar í sónar og athugun á flæði naflastrengsins. Allt var í fínu lagi þar en við vorum beðin um að koma aftur viku síðar og þar var allur pakkinn endurtekinn og á ný vegna rólegheita hjá dömunni, í seinna skiptið var meðgöngulengdin orðin 40vikur og 2 dagar.
Við fórum með bæði börnin til Sigríðar augnlæknis fyrri hluta mánaðarins, Oliver fékk 10 hjá henni með flotta sjón og ekkert til að hafa áhyggjur af. Ása Júlía stóð sig betur hjá augnlækninum en í 4 ára skoðuninni fyrir mánuði síðan en hún sér ekki alveg nógu vel neðstu línurnar á stafaspjaldinu, spurning er hvort það vanti ekki bara smá þroska þarna upp á… við eigum að mæta aftur næsta haust til að endurmeta sjónina hennar.
Þar sem litla daman sýndi ekkert fararsnið fyrir 41 viku meðgöngu var ákveðið að segja henni upp leigusamningi og var Dagný því gangsett föstudaginn 15. nóvember – glæsileg dama sem mætti á svæðið rétt rúmum 3 klst eftir að verkir hófust – 3930gr og 50 cm! Ekkert svo langt yfir meðal lagi og alveg í takt við systkini sín.
Oliver gisti hjá Magga afa og Jóhönnu ömmu á meðan foreldrarnir gistu á Hreiðrinu með litlu systur, enda átti hann að mæta á fótboltamót í Keflavík næsta morgun. Magga afa fannst nú ekki leiðinlegt að fara með drengnum á fótboltamót 😉
Ása Júlía var hinsvegar í dekri hjá Skúla afa og Ingu ömmu á sama tíma.
Í fyrri vaxtarsónarnum hafði komið í ljós að annað nýrað virtist vera með tvöfallt safnkerfi og þurfti að kanna það eftir að daman fæddist, það var gert þegar hún var viku gömul og samkvæmt nýrnalækni er allt innan eðlilegra marka og engar áhyggjur sem við þurfum að hafa af þessu.
Desember:
Aðventan hefst og jólaundirbúningur þar fast á eftir.
Sigurborg og Ingibjörg komu heim frá danaveldi. Fengum við þær mæðgur í heimsókn í piparkökuhúsagerð og fannst krökkunum það alveg frábært! (og okkur auðvitað líka!)
Ása Júlía lauk sundnámskeiðinu hjá Símoni með sundsýningu í byrjun mánaðarins og Oliver fór á enn eitt fótboltamótið , nú í uppblásnu bólunni í Hveragerði á svokallað Kjörísmót – 4 þátttökumedalíur komnar í safnið á þessu ári og ekki þykir honum það leiðinlegt.
Laufabrauð var skorið eftir kúnstarinnar reglum í Álfheimunum í ár. Í framhaldi var slatta af myndum smellt af systkinabörnunum m.a. fyrir jólakort SVIK – fullt af skemmtilegum myndum sem komu úr því.
Við skírðum litlu skottuna þann 16. Desember og fékk hún nafnið Sigurborg Ásta – Sigurborg eins og langamma sín og föðursystir og Ásta eins og Maggaafasystir og mamma sín. Yndislegt síðdegi í faðmi nánustu fjölskyldu (þökk sé skype! Þar sem Skúli afi og Sigurborg frænka lágu bæði heima með ógeðspest og komust ekki til okkar).
Við skemmtum okkur á ýmsan máta nú í desember með aðstoð frá jóladagatalinu okkar.
Leifur fór með afgang af skírnartertunni í vinnuna sína og fékk fljótt kvartanir um að ekki hafi verið nóg af köku fyrir alla… því var snarlega kippt í liðinn enda áttum við auka botna og afgang af fondant! Úr varð frekar skondin kaka með HNIT logoinu 😉
Jólaboð afkomenda Tangagötuhjónanna var haldið hjá Guðrúnu og Viðari í ár og var stórglæsileg mæting, ALLIR komu! Að vanda var samskotamatarborð þannig að enginn fór svangur heim 😉 skemmtilegt boð eins og þessum hópi er einum lagið.
Dagnýju tókst að ná sér í sýkingu í vinstra brjóstið með tilheyrandi sársauka og veikindum. Sem betur fer er hún velvakandi fyrir þessu og setti sig fljótt í samband við Gígju ljósu og Guðmund lækni sem sköffuðu henni lyf. Tobbi var okkur svo innan handar með áframhaldandi meðhöndlun þar sem lyfin slóu frekar hægt á. Jólin voru því haldin í sýklalyfjaheimi hjá mæðgunum.
Í ár héldum við jólin í fyrsta sinn á okkar heimili, Maggi afi og Jóhanna amma komu og voru hjá okkur og reyndar sá Jóhanna að stæðstum hluta um aðalrétt kvöldsins. Við fengum öll yndislegar gjafir og krakkarnir í skýjunum með þetta allt saman.
Jóladagur var svo hjá SVIK í Álfheimunum en sýkló mæðgurnar héldu sig undir sæng heima alveg fram á annan í jólum þegar Dagný fór loksins að hressast. Fengum við þá dýrindis purusteik í boði Tobba og Sigurborgar í Álfheimunum.
Leifur fór með Oliver og Ásu Júliu á árlegt jólaball í vinnunni hjá SVIK og seinna sama kvöld fór hann á árlegt matar og spilakvöld hjá vinahópi SVIK – HRESSI.
Næst síðasta degi ársins eyddi Leifur svo í leiðindarveðri á Búðarhálsi ásamt Óla vinnufélaga sínum og dóttur hans, bara tékka hvort stíflan væri nokkuð að bresta *haha*
Í kvöld munum við svo kveðja árið í Álfheimunum með SVIK og systkinum Leifs ásamt fjölskyldum þeirra.
Gleðilegt ár allir og bestu þakkir fyrir það gamla!
Ótrúlega gaman að lesa þetta 🙂
Flottur annáll og viðburðaríkt ár.