Ég hef lítið verið að skrifa hingað inn síðustu mánuði… er í annsi mikilli lægð hvað þetta blogg varðar en ég tími hinsvegar alls ekki að loka því. Það er ofsalegt magn af upplýsingum hérna sem í raun og veru koma engum við nema mér 😉
Það hefur svosem lítið verið að gerast undanfarna mánuði fyrir utan þetta dásamlega litla líf sem vex innra með mér. Krakkarnir eru alveg í skýjunum með væntanlegt systkini og geta varla beðið. Það er svo gaman að fylgjast með þeim þar sem þau eru bæði komin með svo mikið vit á þessu öllu saman. T.d. spurði Oliver pabba sinn að því um daginn hvort það hefði ekki verið erfitt að setja barnið inn í mömmu *hmmmm*
Við erum enn að koma okkur fyrir hérna á “fjöllum” enda lítið hægt að gera þegar kallinn kemur aðeins heim í 4 daga í einu og ætlar að gera “allt” á þeim tíma. Þetta mjakast þó og herbergin eru svona að detta í það horf sem við myndum vilja hafa þau í fyrir utan loftið auðvitað en feðgarnir hafa verið duglegir þar undir harðri verkstjórn þess yngri.
Oliver byrjaði í Seljaskóla í haust og er voða kátur og áhugasamur þar. Ása Júlía hélt áfram á Austurborg og er ég búin að fá að heyra það annsi oft í haust hvort litla krílið komi nú ekki til þeirra lika… það sé ekki hægt að skilja útundan!
Leifur hætti loksins á Búðarhálsi núna um mánaðarmótin og er farinn að vinna aftur á skrifstofunni hérna í bænum, amk þar til þristurinn kemur 🙂 og svo aftur eitthvað síðar :-p
Undanfarið hef ég reynt að eiga smá gæðastund með krökkunum hvoru fyrir sig. Svo heppilega vildi til að þeim var boðið í afmæli í sitthvoru lagi með viku millibili þannig að þetta var auðvelt í framkvæmd þó Leifur hafi verið í fjallamennsku 😉 ekki það að það hefði verið lítið mál að plata ömmur og afa til að hafa ofanaf fyrir þeim 😉
Meðgangan hefur gengið að mestu leiti vel. Ég var sett í skert starfshlutfall fljótlega eftir að ég kom til baka úr sumarfríi í ágúst og svo í september var ég skikkuð í algert frí þar sem blóðþrýstingurinn var ekki neitt sérstaklega samvinnuþýður. Þannig að ég hef nú ekki mikið verið að gera annað en að fylgjast með umheiminum í gegnum fréttamiðla, facebook, ravelry, instagram og svo frv og jú auðvitað horfa á þónokkrar bíómyndir, þáttaraðir og njóta þess tíma sem ég hef orku í að gefa krökkunum. Eitthvað hefur jú dottið af prjónunum í leiðinni.
Eftir að Leifur kom heim þá drifum við í að setja rimlarúmið á sinn stað og sömuleiðis kom ég fyrir stuðkanntinum í rúmið. Sængin er nýkomin úr hreinsun og bíður þess að fá utanum sig sængurverið 🙂 það er í raun allt tilbúið fyrir komu þristsins okkar hérna heima 🙂