Dagurinn rann upp 🙂
Við tókum morgninum annsi rólega og nutum þess að kúra aðeins með krökkunum og kíkja á barnatímann í sjónvarpinu. Rúmlega 11 var kominn tími til að nálgast brúðarvöndinn, barmblómin og kransinn hennar Ásu Júlíu. Ég hafði pantað þetta í Blómaval nokkru áður og var rosalega ánægð með útkomuna, en brot af vendinum má sjá á myndinni hérna að neðan.
Ég fór svo í hádeginu að hitta hárgreiðslu og förðurnar skvísurnar mínar. Jökull kíkti aðeins á okkur þar og smellti nokkrum myndum af framvindunni.
Sigurborg kom svo heim og hjálpaði mér í kjólinn og krökkunum í sín föt. Garðar frændi var mættur rétt fyrir kl 16 til að keyra okkur niður í Laugardal í myndatöku. Himininn var nú ekkert voðalega spennandi á litinn og Lárus hafði hringt í Leif í hádeginu til að tékka hvort við vildum frekar færa okkur kannski inn í stúdíó en við létum það ekki á okkur fá og drifum okkur út.
Þetta varð pínu stress út af smá misskilningi með gormana okkar en ekkert sem ekki reddaðist. Tengdó komu og náðu í krakkana og Leif og fóru með þau öll niður í Dómkirkju en við Garðar fórum á rúnt vestur í bæ til að ná í pabba. Þeir bræður voru hinsvegar svo spenntir að við vorum mætt í kirkjuna rétt fyrir 18 þannig að ég stakk mér bara inn í skrúðhúsið og beið þar eftir að bjöllurnar hringdu 🙂
Athöfnin var dásamleg, sr Jón Ómar var með létta og fallega ræðu, Halldóra söng fyrir okkur “Ó, lífsins faðir, láni krín“, Halldóra, Arnbjörg og Sigurborg sungu svo “Can’t help falling in love” og Gunnar kom okkur á óvart og spilaði undir á gítarinn sinn og svo sungu stelpurnar aftur “Ég vil örmum þínum vera í” sem er íslenskur texti við lag Sarah Mclachlan “in the arms of an angel” 🙂 Sigurborg kom okkur svo öllum á óvart og tók að sér að syngja stóran part ein 🙂
Oliver og Ása Júlía voru ótrúlega góð í kirkjunni og eru margir búnir að nefna það við okkur hvað þau tóku hlutverk sín alvarlega og voru flott 🙂
Eftir athöfnina fórum við yfir í alþingisgarðinn ásamt krökkunum, foreldrum okkar, systkinum Leifs og mökum þeirra og auðvitað Lárusi ljósmyndara og smelltum þar af nokkrum myndum.
Garðar frændi rúntaði svo aðeins um með okkur áður en við mættum niður á Grensásveg þar sem veislan var haldin.
Mikið var gaman að sjá alla og yndislegt alveg hreint hversu mikil gleði var til staðar.
Við fengum mömmu til að útbúa fiskisúpu fyrir okkur, þá sömu eða mjög svipaða (ekki alveg eins sterk) og við vorum með í skírnarveislunni hennar Ásu Júlíu og buðum við upp á hana sem forrétt. Aðalrétturinn var grillað lambalæri og kalkúnabringa frá Grillvagninum – alveg svakalega gott!!! Við Sigurborg sáum svo um brúðartertuna! Inga hafði bakað sörur og kransakökubita, bætti svo við smá konfekti líka og þetta lukkaðist alveg ofsalega vel!
Gunnar sá um að alltaf væri tónlist í salnum, Vífill frændi sá um veislustjórnina (og gerði það óaðfinnanlega, margir búnir að segja okkur frá því hversu þægileg og afslappað allt var í kringum það), Mamma mælti fyrir skál, SVIK (tengdó) tóku sig til og sömdu smá texta til okkar sem Sigurborg, Halldóra og Arnbjörg tóku að sér að syngja svona í forsöng þar sem salurinn tók undir :-), æskuvinkonurnar voru með smá blöðruleik – þar sem fólk átti að skrifa greiða/heimboð/pössunartilboð/ofl til okkar og setja í blöðrur sem við áttum svo að sprengja, allir þeir miðar sem við náðum hafa svo 1 árs gildi. Stelpurnar (Sigurborg, Halldóra og Arnbjörg) sungu svo 3 lög til viðbótar fyrir okkur, Dagný, Ó Leifur, Leifur og Chapel of love. Auðvitað voru líka sýnd myndbönd/myndir úr steggjuninni og gæsuninni 🙂
Þetta var alveg yndislegt kvöld og langar okkur að þakka öllum sem komu, sendu okkur kveðjur og knús fyrir. Yndislegt alveg hreint!!!
Okkur langar að biðja þá vini og ættingja okkar sem voru með myndavélarnar uppi við um að gera okkur þann greiða að senda okkur myndirnar. Tildæmis er mjög sniðugt að nota Dropbox og ekki skemmir að þetta er ókeypis!!
Annars þá höfum við ekki fengið myndirnar frá Lárusi enþá en ég læt vita þegar það gerist og ég búin að setja eitthvað úrval inn á albúmið okkar 🙂