Við turtildúfurnar skelltum okkur til Sevilla síðastliðinn fimmtudag og komum aftur heim seint á sunnudagskvöld.
Ástæða ferðarinnar var Árshátíð í vinnunni hans Leifs og var hún á föstudagskvöldið.
Við skriðum á fætur rétt fyrir kl 4 aðfararnótt fimmtudagsins þar sem við áttum að vera mætt út á flugvöll rétt rúmlega 5, flugið sjálft var rúmlega 7. Allavegana þá fengum við vægast sagt HÖRMULEG sæti á leiðinni út… 33A og B eru semsagt vond sæti *dæs* okok 33C og D eru verri en samt að sitja í öftustu sætaröð og wc-ið beint fyrir aftan þig er ekki góð skemmtun. Allaveganaaa við vorum komin upp á hótelherbergi á Tryp Macarena með töskurnar og komin í léttari föt og á leiðinni út aftur um kl 4 að spænskum tíma. Í lobbyinu rákumst við á Halla, Jón Þór, Guðrúnu og Óla Ágúst og varð það upphafið af mjög svo samheldnum hóp sem gerði næstum því allt túristatengt saman í þessari ferð, sátum líka saman á borði á árshátíðinni sjálfri! bara gaman og vægast sagt mikið hlegið.
Við röltum saman út þarna upp úr 4 með enga ákveðna stefnu í huga aðra en að finna hraðbanka… fljótlega virtist mottóið verða að finna sem flestar þröngar götur og fara þær frekar en aðrar. Þegar strákarnir sáu LOKSINS hraðbanka handan götunnar hlupu þeir á undan okkur yfir og þegar þeir litu til baka sáu þeir okkur hin í hláturskrampa þar sem þeir höfðu hlaupið beint framhjá einum 🙂
Stuttu síðar tókum við eftir því að himinninn fór að hrækja á okkur já eða bara það fór að rigna, hitt var bara fyndnara hjá 6 manna hópi með svefngalsa! Þannig að planið var að finna okkur einhvern stað þar sem amk væri hægt að setjast niður og fá sér eitthvað að drekka… ekki verra ef eitthvða matarkyns fyndist þar líka. Eftir að hafa gengið þröngustu götu dagsins rákumst við á matseðil sem við gerðum heiðarlega tilraun til að átta okkur á.. ekkert okkar var með spænskuna á hreinu en Guðrún og Hallvarður kunnu eitthvað smá hrafl. Skýin juku á hrákasletturnar og veitingamaðurinn (strákur á aldur við okkur) kom út og “veiddi” okkur inn… þegar inn á staðinn var komið litum við hvert á annað og hugsuðum öll.. en hér er ekkert pláss fyrir 6 manna hóp!! en þá dró guttinn tjald frá á einum stað og þar á bakvið var hurðarop sem hann vísaði okkur inn í bakherbergi… og svo inn í annað virkilega dimmt bakherbergi! okkur var nú ekki alveg sama þegar þangað inn var komið og gerðum við MIKIÐ grín að því að nú yrðum við rænd og svo frv en það gerðist nú ekki… heldur kom kona sem við ákváðum að væri amma veitingamannsins og upphófst mikil upptalning á hinum ýmsu réttum á matseðlinum hjá þeim.. allt á spænsku auðvitað. Við fengum skrítinn kjötrétt í Salsa, franskar kartöflur með xtra sterku kryddi, salat og kartöfluommilettu – alveg hreint ágætis matur og við auglýstum þennan stað svo heilmikið það sem eftir var ferðarinnar sem litli heimilislegi veitingastaðurinn með ömmumatnum… því ver og miður var ekki séns á að við gætum bent á staðsetninguna á honum en hann var “einhverstaðar í Santa Cruiz” hverfinu!
Við gerðum reyndar StC hverfinu mjög góð skil þarna strax fyrsta daginn og vorum oggu ponsu aum í fótunum þegar við komum aftur heim á hótel um kvöldið með nokkra 1L evrubjóra í nesti.
Á föstudeginum var búið að leggja drög að semiskipulagðri gönguferð um miðbæ Sevilla en hvernig á það nú samt að ganga að vera með rúmlega 60 einstaklinga í gönguferð? auðvitað splittaðist hópurinn upp á stoppi #2 eða við Metropol Parasol, sem er mjög svo spes “listaverk” og “útsýnispallur”. Allavegana þá áttum við ekkert alltof auðvelt með að finna restina af hópnum þegar við komum niður aftur EN við létum það ekkert á okkur fá og fylgdum dagskránni svonaaa næstum því bara á okkar hátt og héldum áfram að þræða þessar skrítnu götur sem komust í uppáhald daginn áður. Fórum meðal annars í Dómkirkjuna og alla leið upp í kirkjuturninn sem var mjög gaman… misskildum eitthvað skiltið samt sem sagði til um hversu hátt væri upp ennnnn hvað um það bara gaman!
Mér tókst á fá einhverskonar sykurfall seinnipartinn sem var reyndar ekkert skrítið miðað við hvað ég hafði borðað/ekki borðað þennan daginn og stungum við Leifur krakkana af fyrr en við vorum búin að áætla og fórum beint upp á hótel þar sem við lögðum okkur til að vera fersk(ari) fyrir árshátíðina sem var haldin á frábærum stað við árbakkann í Triana hverfinu, Abades Triana heitir staðurinn og getum við algerlega mælt með matnum þarna! Við sátum úti og náðum við borði sem var alveg úti við handriðið næst ánni. Æðislegt útsýni og æðislegur matur!
- í forrétt fengum við aspas með reyktum túnfiski (sem var skorinn líkt og parmaskinka í 0fur þunnar sneiðar) og salat.
- í aðalrétt var nautasteik sem gjörsamlega bráðnaði í munninum og einhverskonar kartöflufansípans.
- og í desert var heit eplabaka með ís
fólk var alveg svakalega ánægt með matinn og kvöldið í heild – Reyndar náði Leifur að vera stór brandari þarna um kvöldið þar sem skyrtan hans var bara næstum því ALVEG EINS og skyrtur þjónanna! Í einhverju bjartsýnis kasti ákvað hópurinn svo ásamt 2 til viðbótar að labba heim á hótel… sem var reyndar ótrúlega gaman og erfitt í leiðinni þar sem fólk var orðið eilítið lúið til fótanna 😉
Þegar við skriðum á lappir á laugardeginum var stefnan tekin á H&M eftir morgunmat og vilja sumir meina að fólk hafi eytt allt að 90 mín þar inni… Leifur og Jón Þór treystu sér hreinlega ekki til að vera þarna inni og flúðu fljótlega út. Óli bauðst til að fara með innkaupapokana heim á hótel þar sem hann hafði nákvæmlega engan áhuga á að fara á næsta stopp sem var reyndar MJÖG vel þegið. Næsta stopp var eiginlega gert bara af “skyldu” en Alcázar höllin er samt flott 🙂
Eftir bjór/drykkjarstopp röltum við áfram að Plaza de Espania þar sem eina almennilega hópmyndin var tekin af okkur. Þaðan héldu Hallvarður og Jón Þór upp á hótel til að búa sig til að fara á Nautaat. Við hin komum okkur í rólegheitunum heim á hótel… ca 1/2 leiðina í leigubíl *haha* en ákváðum svo að fara bara upp á þak þar sem við gátum setið í sólinni, spjallað og hvílt okkur aðeins… já og tæmt 3 pakka af iberian ham og nokkrar flöskur af öli. Fórum svo aftur í bæinn og hittum strákana eftir Nautaatið. En fyrst var stefnan tekin að ánni Guadalquivir þar sem Leifur vildi fá að skoða 2 brýr sem eru efst? á ánni (sem betur fer tiltölulega nálægt hótelinu ;-)). Eftir að hafa skoðað og ljósmyndað efri brúnna sem heitir Puente del Alamillo í grófum dráttum ætluðum við að ganga meðfram ánni og að hinni brúnni sem heitir Puente de la Barqueta… þá vildi svo skemmtilega til að við vorum lent á einhverjum millipalli og óþarflega hátt stökk niður á þann neðsta þannig að við þurftum að labba smá spotta þar til við komum að þrepum niður sem var í sjálfu sér allt í lagi EN akkúrat þarna á þessu svæði voru tjaldbúðir… tjaldbúðir heimilislausra og vakti þetta ekkert alltof þægilegar tilfinningar hjá okkur 3 sem vorum þarna á ferð (Óli var með okkur).
Eftir að við fundum strákana var aðeins lagt á ráðin hvert skyldi fara… mjög misjafnar skoðanir sem áttu sér stað á torgi sem innihélt bæði McDonaldsútibú og BurgerKing. Á meðan á þeim stóð duttum við Óli inn í fansípansí súkkulaðibúð þar sem sölumennskan var alveg að gera sig og fengum við að smakka slatta af skrítnu nammi og kökum, enduðum bæði á því að kaupa nammi sem var þrælmerkt ólífum og súkkulaði… ég kýs að þýða að þetta séu súkkulaðihúðaðar ólífur en ég hef það á tilfinningunni að það sé ekki endilega rétt 😀 Eftir smá næringu hjá sumum (lesist bjórstopp) röltum við svo aftur heim á hótel.
Við vorum búin að skila af okkur lyklunum og fá að koma töskunum fyrir í læstu herbergi rétt fyrir 11 um morguninn og hélt hópurinn þá út og tókum leigubíl ásamt Atla og Valgerði að nautabanahringnum. Þar lentum við á stórum hópi af hestvögnum sem allir voru með 4 hesta spennta fyrir og aumingja hestarnir allir prúðbúnir með dúskum og bjöllum og allskonar. Í öllum vögnunum sátu prúðbúnar dömur í senjoritudressum, með kamba í hárinu og fínu blúnduslæðurnar yfir kambana og herðarnar. Allt mjög glæsilegt, komumst að því eftir að við fundum lögreglumann sem talaði brotabrot í ensku að þarna væri einhverskonar hátíð og keppni í gangi.
Það er víst vægt að segja að við gengum meira en var á planinu þennan daginn… Við enduðum líkt og daginn áður samt upp á hótelþakinu á sólbekkjum í afslöppun og biðum eftir að flugrútan kæmi að sækja okkur. Afrakstur þessa 2 sólbekkjadaga var rauð húð hjá flestum.
Við vorum færð fram um 23 sætaraðir! sluppum þar af leiðandi við öftustu sætaröðina *jeij*
Það var afskaplega gott að komast heim… SVIK höfðu komið hingað í H14 og svæft krakkana og mikið var gott að sjá kríli aftur þó þau hafi sofið vært.
Úr myndavélinni okkar komu yfir 800 myndir… linkur á myndaalbúmið kemur hingað þegar búið er að fara yfir þær og máske fá nokkrar lánaðar hjá Hallvarði líka 🙂