Leifur bað mig um að prjóna á sig grifflur úr lopa núna nokkru fyrir jól og gerði ég það eftir uppskrift frá Álafoss sem heitir “Vermir” nema að ég sleppti “belgnum” sem hægt var að fara í eða hafa lausan á handabakinu. Í kringum jólin gerði ég svo annað par á Leif og í þetta sinn alveg eftir uppskriftinni… Það er alveg fáránlega kalt þarna uppfrá og hanskarnir sem hann hefur verið með eru ekki alveg þeir hlýjustu þannig að grifflurnar voru kærkomin viðbót.
Ég var svo að ganga frá endunum og Oliver var að fylgjast með mér og tilkynnti stuttu síðar að hann vildi sko fá svona skrítna vettlinga eins og pabbi… og ég sem var búin að vera að prjóna venjulega lopavettlinga á þau systkinin og vinna upp afganga :-p
Allavegana ég ákvað að skella í einhverja útgáfu af “Vermir” eða e-ð… Leifs eru prjónaðir úr Álafosslopa en ég ákvað að prjóna Olivers frekar úr Smart garni og valdi lit í stíl við húfu sem ég prjónaði á Oliver fyrr í vetur. Hlakka til að sjá svipinn á drengnum þegar hann sér þá 🙂

