Jæja, ótrúlegt að það sé kominn tími á annál. Finnst einhvernvegin eins og ég hafi verið að klára að skrifa fyrir 2010 bara nýlega en það er víst að verða komið ár síðan það var. (Annáll 2010 var reyndar birtur 3.janúar)
Þá er samantektin um það bil circa bát svona:
Janúar:
Dagný skellti sér á fondant námskeið með nokkrum ágústmömmum og fann nokkur ný trix þar.
Ása Júlía dundaði sér við tanntöku á meðan Oliver skellti sér í fyrsta sinn í stólinn hjá Bjarna tannlækni.
Dagný heimsótti líka ofnæmislækninn sinn og komst að því sem hana hafði grunað.. Herzlihnetuofnæmi og gekk út með 1 stk uppáskrifað fyrir Medic Alert merki, lyfseðil fyrir EpiPenna og nýjan ofnæmisstimpil. Skv þessu þarf hún að passa sig á ýmsum fæðutegundum í framtíðinni þar sem þessi tegund ofnæmis er víst bein krosssvörun vegna Birkifrjókornaofnæmis *jibbí*
Oliver fékk að bjóða bestasta besta vininum í heimsókn, honum Vali Kára.
Við skelltum okkur á Þorrakvöld hjá vinnunni hans Leifs og héldum okkur í “barnadeildinni” og borðuðum bara Hreindýraragú ásamt dýrindis lambakjöti.
Skúli afi hélt upp á afmælið sitt 🙂
Febrúar:
Mánuðurinn hóst á því að Dagný lét af þrjósku sinni og keypti sér vinnugleraugu… eða gleraugu sem hún á að nota við lestur, tölvuvinnu og fínvinnu eða e-ð álíka.
Fuglafangari er víst orð mánaðarins þar sem ævintýrin á Heilsugæslunni voru þess eðlis að Dagný og GO læknir voru á kafi í að reyna að ná fugli sem villst hafði inn á heilsugæsluna… held samt að aumingja fuglinn hafi þurft á róandi eftir þetta ævintýri þannig að hann var kannski á réttum stað?
Við turtildúfurnar skelltum okkur í leikhús á Lér Konung og Dagný fór á 2 námskeið á vegum SFR, Kryddjurtir & Eiturefnaúrgangsruslaskrímsli
Snjórinn var grandskoðaður af fjölskyldumeðlimum af mismiklum áhuga og ekki öllum til mikillar ánægju 😉
Hrafn Ingi og Tobbi héldu upp á afmælin sín (ásamt fleirum alveg pottþétt) og lítill drengur bættist í vinahópinn (Iðunnar&Sverrissonur) sem fékk svo nafnið Hákon Þorri.
Mars:
Bollabollabolla með tilheyrandi bolluáti og meðfylgjandi sprengi- og öskudögum. Oliver fékk glæsilegt smíðavesti frá ömmu sinni og Maggi afi tálgaði glæsilegan hamar, Oliver hafði ákveðið að vera “smiður” á öskudag en það fór eitthvað fyrir ofan garð og neðan að nýta það sem búning á leikskólanum þar sem hann náði sér í hita og vesen og þurfti að vera heima.
Mæðginin settu niður nokkur fræ og Oliver fylgdist spenntur með spíruninni.
Fjölskyldan skellti sér í bústað í Húsafelli og naut dvalarinnar þar. Mikið svakalega var fallegt um að litast þarna og kvöldin voru vel nýtt af feðgunum í potta/stjörnuskoðunarferðir.
Hin árlega sviðalappaveisla var haldin í Borgarnesinu hjá Jónínu og Vífli. Alltaf gaman að mæta þangað og hitta fólkið sitt, Ása Júlía heillaði frænkur sínar alveg upp úr skónum.
Leifur tók þátt í Mottumars við mikinn fögnuð fjölskyldunnar *ehemm*.
Sigurborg og Tobbi fá loksins lyklavöld að L200!
Fréttum af væntanlegri fjölgun í vinahópnum í september!
Maggi afi fagnar afmæli & 2 nýjar vinkonur bætast í hópinn! (InguLáru&Jökulsdóttir & Magga&Elsudóttir) sem fengu nöfnin Sigurlaug og Rebekka Rún.
Apríl:
25 ára afmæli Sigurborgar er haldið með pompi og prakt í Álfheimunum.
L200 málað af miklum móð (m.a.s. Oliver tók virkan þátt í því).
Lúlli bangsi kom heim af leikskólanum með Oliver.
Fórum í fermingarveislu til Margrétar Ingu í Perlukórnum – lentum samt í smá bíltúr þar sem við ætluðum aldrei að finna Perlukórinn þar sem það sást varla út um bílrúðurnar vegna slagveðursrigningu!
Feðgarnir skoðuðu herskipið Berlin í Sundahöfninni og fannst Oliver það alveg stórmerkilegt skip.
Páskar! með tilheyrandi súkkulaðiáti og öðru ofáti. Þeir voru samt með aðeins öðru sniði en venjulega þar sem engin eggjaleit var í Álfheimunum þetta árið þar sem SVIK stungu af til San Torrini.
Sukk á Föstudeginum langa með æskuvinkonunum.
Kaldalssystkinadinner var einstaklega ljúffengur í Hólmvaðinu á annan dag páska.
Maí:
Að vanda hefst mánuðurinn á kökugerð í tilefni afmæli frumburðarins sem varð 4 ára í ár og í tilefni þess fékk hann ruslabílaköku með fondant ruslaköllum og rusli 🙂 slepptum okkur aðeins þarna *ehemm* Veislan var líkt og oft áður haldin 1 maí en Oliver á afmæli þann 2. Mikið stuð og mikil gleði hjá afmælisbarninu.
Við fengum þær fréttir að Hnit hefði fengið samning við Landsvirkjun um eftirlit á Búðarhálsi og olli það smá vangaveltum um hvernig sumarið og næstu ár yrðu. Leifur bjóst allt eins við því að vera settur á svipaðar vaktir og á Kárahnjúkum eða 10/4 en hvenær það myndi verða var með öllu óljóst.
Legomaraþon fór í gang þar sem drengurinn fékk ótrúlegt magn af Legoi í afmælisgjöf!
Oliver lærði vísuna: Rómverskur riddari og masteraði hana á notime (enda með eindæmum mikill R-hljóðamaður).
Opið hús var á leikskólanum og Oliver fékk fullt hús af gestum, Inga amma, Skúli afi, Jóhanna amma, Maggi afi, Gunnar, Eva, Sigurborg, Tobbi og svo auðvitað Hrafn Ingi & Sigmar Kári að ógleymdum foreldrum og litlu systur. Ástæða þess að Oliver bauð öllum að koma var að hann hafði verið í leiklistarhópi í vetur og afrakstur vetrarins var stórmyndin “Grísirnir 3” 🙂
Við tókum þátt í Mission Reykjavík á vegum vinnunar hans Leifs. Svaka ratleikur um miðborgina og flottur dinner í Turninum á eftir.
Frjóofnæmið tók nýja stefnu og hefur Dagný aldrei upplifað annað eins ofnæmisvor, þetta var hrikalegt enda endaði hún á að fá væna sterasprautu í bossann!
Vorferð heilsugæslunnar var farin innanbæjar í ár og var með fjölskylduívafi. Gengið var um Öskjuhlíðina með leiðsögn og svo farið heim til Magneu hjúkku og grillað, trallað og spjallað aðeins frameftir.
Skelltum okkur líka í sveitaheimsókn með Austurborg og buðum Jóhönnu ömmu með.
Inga amma átti líka afmæli!
Júní:
Fengum Ossabæ lánaðan í heila viku og nutum þess að vera þarna í sumarbyrjun. Kíktum í bíltúra, í Reynisfjöru, Geysi og Slakka. Fengum Sigurborgu, Tobba og ferfætlingana þær Glóu og Kolu, bæði ömmu og afa settin kíktu líka í heimsókn og potturinn var vel nýttur en stöðug bið eftir sandi í nýja fína sandkassann.
Skelltum okkur til Húsavíkur til að vera viðstödd skírn Sigurlaugar Jökulsdóttur og fékk Leifur hlutverk skírnarvottar. Fengum að gista í tjaldvagni Kalla og Ásgerðar sem vakti heilmikla lukku hjá stubbunum okkar.
Gunnar & Eva fengu svo Ossabæ lánaðan og kíktum við þangað í heimsókn & mat í smá tíma.
Fræin sem mæðginin settu niður tóku óðum á sig mynd hina ýmsu plantna við mikla gleði Olivers.
Leifur smíðaði sandkassa út í garð og stuttu síðar byrjuðu framkvæmdir á blokkinni sem hertóku garðinn okkar og stóðu yfir í allt sumar!
og langþráð bréf um leikskólapláss fyrir Ásu Júliu á Austurborg barst.
Jóhanna amma & Leifur afmæli héldu upp á afmælin sín.
Júlí:
Oliver byrjaði í sumarfrí á leikskólanum, sem var þó slatta nýttur í góða veðrinu.
Við fórum í útilegu á Þingvelli í 2 nætur. Skoðuðum Almannagjá, Öxarárfoss og skelltum okkur í sund í Úthlíð.
Ásta frænka og Linda frænka koma í mánaðarheimsókn á klakann.
Feðgarnir fóru ásamt föðurættinni í árlega ferð í Hólminn í lok júlí. En mæðgurnar nýttu tímann í rúmlega vikulöng veikindi hjá Ásu Júlíu þar sem ekki var á hreinu til að byrja með hvort daman væri með Kossageit eða eitthvað allt annað… sýklalyf höfðu ekkert að segja þannig að önnur læknisheimsókn var framkvæmd og úrskurðurinn þar var frumsmit af frunsu – aumingja barnið með um 40°C í lengri tíma, grét í hvert sinn sem hún setti eitthvað í munninn og var ósköp aumingjaleg greyjið.
Leifur byrjaði á þessum tíma að fara upp á Búðarháls og dvelja þar í hálfgerði aðlögun þar sem fyrst var hann 1 nótt og svo 2 og svo lengdist þetta bara og lengdist.
Oliver, mamma & pabbi skelltu sér svo á Cars 3D í bíó á meðan Ása Júlía passaði ömmu og afa í Birtingaholtinu.
Oliver skellti sér líka í langa heimsókn til Vals Kára vinar síns, ekki lítil gleði þar á bæ.
Ágúst:
Verslunarmannahelgin var tekin róleg í Reykjavíkinni en aðeins síðar skelltum við okkur hinsvegar í útilegu í Húsafell. Þar var sprellað, farið í bíltúra og á brennu.
Mæðgurnar áttu báðar afmæli og fékk Ása Júlía svaka veislu þar sem risa Cupcake var afmæliskakan og voru flestar aðrar veitingar í formi cupcakes.
Fréttum af væntanlegri fjölgun um mánaðarmótin feb/mars hjá Sigurborgu & Tobba!
Arnbjörg og Víkingur létu pússa sig saman í Lágafellskirkju og buðu svo í svaka partý í félagsheimilinu Drengur í Kjósinni… bílinn okkar endaði sem hálfgerður brúðarbíll þar sem við skutluðum turtildúfunum í bústaðinn þar sem þau eyddu brúðkaupsnóttinni. Kom sér líka vel að vera í cupcake “formi” þar sem Dagný aðstoðaði brúðhjónin með brúðartertuna sem var hlaðborð af allskonar cupcakes sem vinkonur Arnbjargar bökuðu.
Ása Júlía byrjar á Putalandi og fór í svokallaða Þátttökuaðlögun þannig að segja má að Dagný hafi LOKSINS fengið að byrja á leikskóla… þó hún hafi bara fengið að vera 1 heilan dag.
Fengum góða vini í mat 🙂
Leifur byrjar á föstum vöktum á Búðarhálsi, 10/4 eins og giskað hafði verið á.
September:
Gunnar og Eva héldu partý á Glaumbar í tilefni þess að þau eru bæði að verða þrítug, Eva núna í sept og Gunnar í nóvember.
Leifur og krakkarnir skelltu sér í heimsókn á Flúðir þar sem Maggi, Elsa & krakkarnir voru í bústað.
Oliver heimsækir Orra barnalækni sem ákveður að lagfæra þurfi naflaherniuna (naflakviðslit) sem ekki hefur gengið til baka eins og við vorum að vonast eftir.
Lítil vinkona bætist í hópinn (Óla&GuðrúnarHelgudóttir) sem fljótlega fékk nafnið Jóhanna Lovísa.
Dagný og krakkarnir skella sér í bíltúr upp á Búðarháls og heimsækja Leif.
Stella frænka veikist frekar snögglega og kveður okkur í lok mánaðar.
Skelltum okkur ásamt starfsmannafélaginu hjá Hnit upp í Landmannalaugar og njótum okkar þar alveg upp í topp. Ása Júlía sjarmerar fólkið með krúttleika og Oliver með dugnaði (gekk fyrstu km yfir hraunið í byrjunarhluta “Laugarvegarins”). Ævintýri að fylgjast með bíl dregnum upp úr á og að ferðast með rútu.
Sara vinkona og Gíslinn hennar pússa sig saman og bjóða í partý viku síðar.
Dagný slysast til að bjóða sig fram í foreldrafélagið á leikskólanum.
Ásta & Linda koma aftur til Íslands.
Október:
Jarðaför Stellu frænku í Gufuneskirkjugarði.
Oliver fór í aðgerðina sína, mikið svakalega var það skrítin upplifun.
Leifur hélt sig við að fara reglulega upp á Búðarháls og dvelja þar í 10 daga í einu og koma heim í heila 4.
Við skelltum okkur í haustferð heilsugæslunnar þar sem farið var með rútu að fjörunni milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka þar sem við gegnum eftir fjörunni að veitingastaðnum Hafið Bláa og fengum þar dýrindis humarsúpur. eftir það var trallað, skroppið í Ölvisholt Brugghús og ýmsir bjórar smakkaðir og kraftganga í kringum Kerið í Grímsnesi með reglulegu “hressingarstoppi”. Kvöldinu lauk svo í bústað í nágrenni Kersins þar sem grillað var ofaní mannskapinn og brugðið aðeins á leik áður en brunað var aftur í borgina.
Dagný bakaði eitt stk. typpi fyrir gæsun en hún ásamt góðum hópi vinkvenna Iðunnar tóku sig til og gæsuðu Iðunni stuttu fyrir brúðkaup hennar og Sverris. Viku síðar voru gerðar brjóstacupcakes fyrir steggjun Sverris sem Leifur tók þátt í.
Við enduðum svo mánuðinn ÖLL á pensilíni þar sem streptókokkar höfðu gert sig heimakomna hjá fjölskyldumeðlimunum.
Nóvember:
Mættum í brúðkaupsveislu til Iðunnar & Sverris ásamt vinahópnum og skemmtum okkur fram eftir kvöldi.
Dagný skellti sér á jólaskreytingarnámskeið hjá SFR með Brynju og Ásu úr vinnunni, Dagný gerði kertaskreytingu en þær jólaseríuskreytingu.
Hún skellti sér einnig á námskeið í gjafapokagerð á vegum Skrapp og gaman.is sem var afskaplega vel heppnað og gaman að sjá hvað hægt er að gera með smá pappír, lími og skærum (já og göturum, skerum, borðum og, og og og *heheh*).
Gunnar og Sigmar Kári buðu í kaffi á þrítugsafmælisdag Gunnars en veirupúkar herjuðu á okkur hér og á suma enn þá þegar þetta er skrifað rúmum mánuði síðar…
Við turtildúfurnar flugum út til NYC á síðasta degi mánaðarins, tvísýnt var þó hvort það myndi hafast vegna áðurnefndra veikinda.
Desember:
Í New York var mikið labbað, MIKIÐ, sem virðist vera svona trademark fyrir ferðalög okkar turtildúfnanna. Þann 1.des vorum við stödd á Sheep Meadow í Central Park þegar Leifur kemur Dagnýju sinni á óvart, krýpur á kné og biður hana að giftast sér.
Daginn sem við komum heim (6.des) skelltum við okkur niður á Laugarveg til þeirra Jóns & Óskars og völdum okkur einfalt en fallegt par af hringum sem settir voru upp að kvöldi 9.desember – þann 10 tilkynntum við svo fjölskyldunum okkar frá væntanlegum plönum.
Hrafn Ingi sagði okkur frá því að mamma hans væri með barn í maganum og að það ætti að koma í júní.
Laufabrauð var skorið hjá Guðrúnu og Viðari í ár, mikið spjallað, etið og skorið í ár… engvir puttar þó!
Okkur (og öðrum starfsmönnum + mökum eftirlitsins á Búðarhálsi) var svo boðið á Jólahlaðborð á Hótel Rangá af engum öðrum en Ridley Scott – hef aldrei áður séð eins mikið úrval af graflaxi, hrikalega gott!
Að vanda kíktum við á röltið niður Laugarveginn á Þorláksmessu, heitt kakó og piparkökur við heimkomu.
Við vorum í Birtingaholtinu þegar bjöllurnar hringdu inn jólin og lukum kvöldinu svo í Álfheimunum. Þvílík pakkasúpa! Notalegheit, hitavella og súkkulaði einkenndu jóladagana.
Við skelltum okkur á spilakvöld með meðlimum, afkomendum og mökum HRESSI og gekk Dagný þaðan út með vinning fyrir flest stig kvk 🙂
Fengum góða vini í heimsókn á milli hátíðanna og nutum þess að vera saman.
Kvöldinu munum við svo eyða líkt og venjulega í bland í poka!
Sigmar Kári og Garðar frændi heldu upp á afmælin sín.
Við óskum öllum lesendum gleðilegs árs og kærar þakkir fyrir allt gamalt og gott á liðnum árum.
– Dagný Ásta, Leifur, Oliver & Ása Júlía
Flottur annáll !