Jæja er ekki kominn tími til að skrásetja frí okkar turtildúfnanna til NYC? held það barasta 🙂
Við lögðum af stað þann 30.nóvember og vorum mætt vel tímanlega upp á flugvöll en það var samt frekar tæpt þarna á tímabili vegna ljótrar magapestar sem Leifur var að rembast við að losa sig við.
Þegar við lentum loksins í NYC eftir rúmlega 6 ½ klst flug tók við klukkutíma bið í „immigration“ *úff* get ekki annað sagt en að ég hafi öfundað Árna hennar Brynju að vera með US ríkisborgararétt þannig að hann beið í heilar 5 mín eftir að komast í gegn.
Við vorum komin upp á hótel og inn í frekar þröngt en snyrtilegt herbergi á 10 hæð á Chelsea Comfort Inn á 25. stræti við Madison Garden nærri Flatiron rúmlega 9 og gjörsamlega rotuð fyrir 10. Það á eftir að vera erfitt fyrir okkur að gleyma herbergisnúmerinu okkar þar sem það var 1008.
Alla morgna beið okkar gott úrval af morgunmat á hótelinu, maður var nokkuð fljótur að læra inn á hvað var best og sniðugast fyrir svona kraftgöngudaga eins og við virðumst alltaf enda í þegar við förum til útlanda 🙂
1.des
Við byrjuðum daginn á heimsókn í BH photo og versluðum aðeins þar, okkur fannst reyndar endalaust fyndið að þegar við vorum að skoða canon myndavélar þá var þar sami gaur að afgreiða og þegar við vorum þarna fyrir rétt rúmum 3 árum síðan! Nákvæmlega sami gæji að kynna Canon vélarnar 😀
Tókum svo lestina upp á 99str þar sem við ákváðum að leita að Michael‘s verslun og skoða okkur þar um og þvínæst var maraþonganga niður Central Park, í þetta sinn fórum við um vesturhluta garðsins, þ.e. þeim megin sem við fórum ekki fyrir 3 árum síðan. Garðurinn er ekki síðri þar og fengum við tækifæri til að leika okkur aðeins með nýju myndavélina og nýju linsuna þar sem við rákumst á nokkra krúttlega íkorna að leika sér. Okkur tókst á frekar furðulegan hátt að ganga framhjá Strawberry fields og þ.a.l. Image hellulagningunni þannig að við fórum í smá hring til að skoða það. Þessi friðargarður hennar Yoko Ono var miklu minni en við áttum von á. Við vorum auðvitað ekki eina fólkið á því svæði og það sem var reyndar sniðugast var að þarna var ungur strákur að spila á gítarinn sinn og syngja Bítla- og Lennonlög, m.a. Imagine.
Þegar við vorum komin langleiðina niður garðinn gengum við inn á stórt tún (Sheep meadow) þar sem hægt var að ná góðum myndum af byggingunum fyrir neðan garðinn án þess að tréin skyggðu á. Þegar við vorum búin að smella nokkrum myndum af, bæði af byggingunum og svo okkur sjálfum ákvað Leifur að koma Dagnýju sinni svolítið á óvart og fór á hnéin og bað hennar 😉 og eftir nokkrar kjánatilkynningar fékk hann auðvitað já 😉
Hönd í hönd gengum við svo niður að 6th stræti og yfir á 5th þar sem við ákváðum að kíkja á risa jólatréið sem Dagnýju langaði svo mikið að sjá hjá Rocafeller byggingunni. Einnig kíktum við inn í Lego verslunina sem er staðsett í Rocafeller. Verðum þó að viðurkenna að hún er þónokkuð minni og ekki alveg eins „sérstök“ og við áttum von á.
2.des
Við vorum búin að ákveða að fara í Target í dag og næsta Target er staðsett í Brooklyn þannig að við fórum í smá lestarferð. Þar gátum við dressað krakkana ágætlega upp og einnig græddi Ása Júlía sinn fyrsta pony hest.
Á bakaleiðinni stoppuðum við á stórum jólamarkaði á Union Square þar sem var ótrúlegt magn af allskonar dóti, grænmeti, kjöti, ýmiskonar kryddbásum, allskyns föndri og hrikalega ljótum húfum (sem reyndar virðast vera til sölu út um alllt hérna, húfan sjálf er dýrahaus og svo eru „eyrun“ hangandi niður eftir öllu eins og loppur&fætur).
Við kíktum í Magnolia bakery í Rockafeller Center. Höfum aldrei áður upplifað það að fara í biðröð fyrir utan bakarí til að komast inn í það og það áður en hægt var að skoða einusinni úrvalið sem var í boði *hahaha*. Við enduðum á að kaupa „red velvet cheesecake“, súkkulaði cupcake með snjókarlsskrauti og red velvet cupcake með súkkulaðiplötu sem er með áprentaðri mynd af „rokkette“ og auðvitað sitthvort málið af heitu súkkulaði með rjóma. Við fundum okkur bekk þarna í nágrenninu og borðuðum súkkulaðicupcakeið og ostakökuna og drukkum kakóið okkar en red velvet cupcake fékk að koma með upp á hótel og hvarf ofaní okkur síðar. Næsta heimsókn var þá langþráð heimsókn Leifs í LEGO búðina þar sem við meðal annars dunduðum okkur við að raða allskonar kubbum í 2 ca 1 L glös, auðvitað fylgdu nokkrir legokassar með okkur þaðan líka.
Um kvöldið kíktum við svo á Times Square með öllu sínu ljósashowi og mannmergð. Í klósettstoppi á McDonalds lenti Leifur í ævintýri þar sem reiður svertingi var að leita að vandræðum í klósettröðinni Mikið var reynt að selja Dagnýju Rapp. Leifur skoðaði og myndaði einhvern Occupy Broadway hóp sem var að mótmæla því að þurfa að borga skuldir sínar. Þetta er einhver tískubylgja sem hefur verið að ganga í haust, sérstaklega í NY (Occupy Wallstreet).
3.des
Við ákváðum að taka lestina niður á Canal str. og skoða okkur um í Little Italy og Chinatown. Við skoðuðum einnig Soho lauslega.
Alltaf virðist það vera þannig hjá okkur að þegar okkur dettur í hug að fara á Starbucks þá hreinlega finnum við engan slíkan stað! En þegar við erum ekkert að hugsa út í það þá er varla þverfótað fyrir þeim.
Í Chinatown eða á mörkum Ct og Little Italy fann Leifur fyrirmyndina að LEGO modular slökkvistöðinni sem hann keypti í gær í LEGO búðinni og smellti auðvitað nokkrum myndum af henni. Við gengum um göturnar í Chinatown fram og til baka og tókum Soho nokkurnvegin eftir bókinni (sem SVIK lánuðu okkur).
Eftir smá hvíld uppá hótelherbergi ákváðum við að labba upp á Herald Square þar sem m.a. Macy‘s er. Í Macy‘s var þúsundum manns pakkað þétt saman eins og síld í tunnu. Þar fórum við í rúllustigaævintýri upp á 7. Hæð og aftur til baka án þess að sjá neitt til að kaupa, enda hefði það sennilega ekki verið hægt í þessari þvögu. Þetta var í raun í eina skiptið þar sem við upplifðum það sem ég kalla „jólaælu“ sem var bara ágætt. Að vísu var virkilega fallega jólaskreytt í Macy‘s 🙂
Eftir smá googl fundum við veitingastað í nágrenni hótelsins sem okkur langaði að kíkja á. Ekkert skyndibitadæmi þar. Veitingastaðurinn heitir Outback og er víst ástralskur og ber fram svaka flottar steikur. Við skelltum okkur á sitthvora steikina með grilluðum rækjum í forrétt og hrikalega góðu dökku brauði. Auðvitað var aðal umræðuefnið hjá okkur yfir matnum væntanlegt brúðkaup… hvað vilt þú? Hvað vilt þú ekki? …þar til Leifur gat ekki meir.
4. des
Gengum upp 5th street að Bryant Park þar sem við skoðuðum jólamarkað. Þar var einnig skautasvell, reyndar eina skautasvellið sem var með almennilegu „áhorfendasvæði“, það er jú gott við Rockefeller en það er svo svakalega vinsælt að maður kemst varla að. Leifur dró mig út til að geta komist í Barnes & Noble á 5th avenue við 46th street. Við komum þangað kl. 11:40 og vorum í tæpa tvo klukkutíma. Leifur fór í gegnum alla 7 History rekkana og 5 Military History rekkana. Hann endaði líka með að kaupa 7 Osprey bækur og nokkrar aðrar military history bækur.
Fórum fljótlega aftur út eftir að hafa skilað bókapokunum af okkur og gengum upp 6th avenue til tilbreytingar, upp á Times Square. Gengum um torgið og settumst svo í stóru rauðu sætatröppurnar á torginu. Röltum um torgið og gengum svo heim eftir Broadway.
5. des
Við skriðum á fætur rétt fyrir kl 9 til að koma okkur í morgunmat en skriðum svo bara beint aftur upp í rúm eftir sturtuferð. Smá slökun áður en restinni af dótinu var skuttlað í töskurnar okkar og við þyrftum að yfirgefa herbergið. Skrítin tilhugsun að litla helgarfríið okkar sé að verða búið.
Við ákváðum að rölta bara um hverfið eftir að hafa fengið geymslupláss fyrir töskurnar okkar. Gengum niður að 19. str. og skoðuðum götumyndina þar sem er svolítið frábrugðain því sem við vorum búin að sjá, aðalega vegna þess að þarna voru fín svona millistéttarhús og allt mjög snyrtilegt. Við sum húsanna var búið að koma fyrir listaverkum sem voru misfalleg eins og t.d. ljónastyttur við einn innganginn.
Þaðan fórum við að Union Sq. og skoðuðum jólamarkaðinn aðeins aftur, aðeins meira labb og við enduðum í verslun sem ég hafði googlað en ekki alveg áttað mig á að væri staðsett Í NÆSTU GÖTU við hótelið eða allt að því (22str. en hótelið á 25th str). Þar var MJÖG erfitt að hemja sig en samt hægt.
Flugvallarrútan kom kl. 1530. Okkur fannst ferðin á flugvöllin ótrúlega löng eitthvað. Hvort bílstjórinn hafi þurft að fara einhverja krókaleið eða ekki en við vorum síðasta hótelið í hringnum þannig að ekki var það afsökunin. Búið var að opna fyrir bókanir þannig að við fórum beint í frekar stutta röð með allar 5 töskurnar okkar. Engin þeirra yfir mörkum (þó var lego taskan alveg á mörkunum… 22.2kg!)
6.des
Flugið var mun styttra og þægilegra en flugið út, eða 4½ klst í stað 6 ½. Sessunautur Leifs, stelpa sennilega í 10. bekk eða svo, ákvað að nota hann sem kodda og sofa á öxlinni á honum hálft flugið.
Við vorum svo auðvitað stoppuð í tollinum þegar við fórum í gegnum hliðið, enda tvö með 5 töskur. Það fyndna var samt að eftir að töskurnar okkar voru gegnumlýstar þá vildu þeir aðeins fá að sjá EOS myndavélina og svo litlu fartölvuna. Ég sýndi tollaranum strax kvittunina fyrir fartölvunni þar sem við höfðum verið svo útséð að taka hana með og svo var þeim auðvitað tilkynnt að myndavélin hefði verið keypt sumarið 2007 og þá komu engar fleiri spurningar. Þeir virtust ekki einusinni hafa tekið eftir hinu myndavéladótinu í töskunni.
Það var annsi kalt að fara út í bíl og Leifur tók það á sig að hlaupa á undan til að skafa af bílnum og koma honum nær þannig að við þyrftum ekki að dröslast með töskurnar í gegnum allan þennan snjó sem er búinn að gera sig heimakominn hérna.
Eftir rúmlega 4klst svefn fórum við svo í heimsókn til stelpnanna í Jón og Óskar á Laugarveginum og fjárfestum í 2 hálfkúptum, 14kt gullhringum, D 4.5mm og L 5mm 😉
Eftir stutt stopp í Ljósinu þar sem við fengum bílstólinn hans Olla sóttum við krakkana. Olli var hæst ánægður að fá LEGO ruslabíl sem hann kubbaði strax alveg sjálfur. Ása hrópaði upp „pony“ þegar hún sá sína gjöf.
Eins og það var gaman úti þá var voðalega gott að komast heim og knúsa gormana okkar 🙂
Myndirnar eru svo komnar inn á Fotki síðuna okkar, lykilorðið ætti ekki að vefjast fyrir fólki sem veit við hvaða götu við búum 😉
Innilega til hamingju ! Það er ekkert verið að segja manni fréttir ! 🙂
takk takk 🙂
er þetta e-ð sem þarf að tilkynna? fólk er svosem búið að vera að bíða eftir þessu 😉