VIÐVÖRUN! Innihald þessarar færslu gæti flokkast sem pólitísk. Færsla þessi gæti einnig innihaldið móðgandi efni. Einnig var þessi færsla send út sem tölvupóstur á afkomendur Tangagötu 13 🙂
Hæ, Hér er Völvuspá LS fyrir árið 2011. Að þessu sinni er aðeins spáð fyrir um atburði á innlendum vetvangi svo þetta verði ekki of langt. Ég á ekki kristalskúlu svo ég þurfti að nota kristalsglas. Ég vona að það komi ekki að sök. Ef þetta hljómar eitthvað svartsýnt er það sennilega vegna þess að ég var nýbúinn að drekka kók úr krystalsglasinu.
Völvuspá LS 2011:
Meirihlutasamstarfið í borginni tekur á sig brotsjó en lifir þó hremmingarnar af í bili.
Fyrstu ákærur verða gefnar út á hendur útrásarvíkingum. Lítið kemur út úr málaferlunum, nema skilorðsbundnir dómar og málamyndasektir.
Stórt gamalgróið fyrirtæki fer á hausinn.
Margir helstu útrásarvíkingar ná aftur tökum á stórum fyrirtækjum og í lok ársins verður viðskiptalífið í heild komið í meirihlutaeigu fyrrum útrásarvíkinga.
Dorrit kemur Ólafi í klípu. Ólafur kemur sér í klípu í erlendum fjölmiðlum.
ICEsafe samningurinn verður samþykktur.
Deilur verða um fiskveiðistjórnunuarkerfið. Aðilar innan ríkisstjórnarflokkanna leggja fram tillögu að fyrningarleið kvótaheimilda sem veldur miklum deilum og á endanum verður dregið mjög úr. Fiskveiðistjórnunarkerfið verður áfram óbreytt að undanskildum nokkrum málamyndabreytingum, s.s. útdeilingu nýrra aflaheimilda og byggðakvóta, svo stjórnvöld geti haldið andlitinu. Frekari breytingar verða þó tilkynntar í framtíðinni og málið sett í nefnd.
Samninganefnd Íslands hjá Evrópusambandinu kemur með samning. Samkvæmt honum fær Ísland ekki sérlausn í sjávarútvegsmálum heldur aðlögunartíma sem samfylkingin túlkar sem sérlausn. Landbúnaður á Íslandi verður flokkaður sem heimskautalandbúnaður og honum lofað ríflegum styrkjum. Bændasamtökin munu þó leggjast gegn samningnum, þar sem hann mun opna fyrir frekari innflutning landbúnaðarafurða. Samningnum verður hafnað afdráttarlaust en það mun þó ekki nægja til þess að fylgjendur aðildar gefist upp.
Ríkisstjórnin hækkar skatta og álögur á árinu, sérstaklega óbeina umhverfis- og neysluskatta og skatta á fyrirtæki. Þjónustugjöld verða víða hækkuð. Tekjutengingar í bótakerfinu verða stórauknar.
Stjórnlagaþing skilar niðurstöðu sinni eftir nokkrar deilur þar sem Þorvaldur Gylfason verður áberandi. Ákvæði um þjóðareign auðlinda verður tekið upp og feminískar áherslur verða ríkjandi í nýrri stjórnarskrá. Alþyngi breytir niðurstöðu stjórnlagaþingsins nokkuð í meðferð sinni. Margir verða ósáttir við lokaniðurstöðuna þar sem of þeim þykir of litlu breytt. Aðrir verða ósáttir við hversu miklu er breytt. Alger óeining verður um nýja stjórnarskrá í þjóðfélaginu.
Gengishöft verða áfram við lýði. Skráð gengi krónu hækkar lítillega en raungengið stendur nokkurn vegin í stað. Samfylking mun ekki koma með aðra lausn í efnahagsmálum en upptöku Evru, en þeir munu ekki ná neinum árangri á því sviði þrátt fyrir fjögurra ára ríkisstjórnarsetu. Fjölmiðlar munu sætta sig við þessa “lausn” án mikilla spurninga. Í ljós kemur að efnahagsbatinn sem ríkisstjórnin taldi sig sjá á árinu 2010 var ekki raunverulegur en fjármálaráðherra tilkynnir við það tækifæri eð NÚ sé botninum náð og allt stefni upp á við.
Kennarar og flugumferðastjórar ásamt fleiri stéttum eiga í kjaradeilum á árinu. Mikið verður um verkföll.
Atvinnuleysi eykst. Atvinnuleysisbætur hækka.
Fjárlagagatinu verður ekki lokað. Efnahagsáætlanir ríkisstjórnarinnar munu ekki standast, skatttekjur verða rýrari en gert var ráð fyrir og efnahagsbatinn lætur standa á sér. Auk þess munu fjölmargar stofnanir fara fram úr fjárheimildum.
Öryrkjar munu gagnrýna aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem þeim mun þykja koma sérstaklega niðri á sér.
Kaupmáttur launþega á almennum vinnumarkaði mun dragast mjög saman.
Mikil óeining verður innan ríkisstjórnarinnar. Jóhanna og Steingrímur herða agann og “ráðherraræðið”. Úrsagnir verða úr VG og ríkisstjórnin mun missa þingmeirihluta sinn. Ríkisstjórnin verður styrkt en síðar verður boðað til kosninga þegar það nægir ekki til að róa ófriðinn. Jóhanna leggst í helgan stein og Guðbjartur Hannesson tekur við Samfylkingunni eftir bræðravíg þar innan búðar. Sjálstæðsiflokkurinn klofnar. Hópur sem kennir sig við einhverskonar bestan flokk, sennilega langbesti flokkurinn mun bjóða fram og verður Bubbi Mortens orðaður við það framboð. Alls munu sjö framboð bjóða fram í Alþingiskosningum og verður mikill meðbyr með nýjum framboðum. Mikil óánægja verður þó með niðurstöður kosninganna og mun mörgum þykja breytingarnar heldur litlar og uppskera nýju framboðanna rýr. Framsóknarflokkurinn vinnur óvæntan varnarsigur eftir að skoðanakannanir höfðu sýnt að hann þurrkaðist nánast út.
Mannbjörg verður eftir sjóslys.
Skandall verður vegna stjórnunar eins af stóru lífeyrissjóðunum.
Þekktur sjórnmálamaður deyr á árinu.
Geir verður sýknaður af því að hafa gerst sekur um refsivert athæfi en í dómsorðum hlýtur hann ákúrur fyrir athafnaleysi sitt sem þó telst ekki saknæmt.
Níumenningarnir verða sýknaðir eða hljóta skilorðsbundinn dóm fyrir árás sína á Alþingi.
Mikil afbrotahrina ríður yfir landið. Sérstaklega verða innbrot og líkamsárásir tíðar. Skotvopnum verður beitt. Afbrotafræðingar og verjendur munu lýsa þeirri skoðun sinni að ekki beri að herða refsingar heldur ráðast að rótum vandans. Rætt verður um byggingu nýs fangelsis en lítið verður úr efndum.
Framkvæmdir hefjast við Búðarháls á árinu. Engar nýjar virkjanir verða samþykktar. Álver í Helguvík verður ekki gangsett.
Landeyjahöfn verður til mikilla vandræða og mun Herjólfur aftur hefja reglubundnar siglingar frá Þorlákshöfn. Eyjamenn fara fram á göng til Eyja. Enginn verður dreginn til ábyrgðar fyrir Landeyjarhafnarævintýrið.
Vegagerðin mun hefja framkvæmdir við nokkra smærri vegkafla, einkum á landsbyggðinni. Ekki verður farið í neinar meiriháttar framkvæmdir utan breikkunar Suðurlandsvegar sem þegar er í framkvæmd.
Frosthörkur verða með vorinu. Hiti verður yfir meðaltali en sumarið verður ekki mjög sólríkt. Óveður veldur nokkrum skemmdum.
Jarðskjálftahrina verður sunnanlands og munu jarðeðlisfræðingar vara við hugsanlegu eldgosi en lítið verður úr því.
Íslenska karlalandliðið í knattspyrnu veldur vonbrigðum á árinu.
Íslenskir íþróttamenn, á erlendum vetvangi, ná ekki markverðum árangri á árinu. Mikið verður þó fjallað um þá í fréttum.
Ómar Ragnarsson kemst í fréttirnar á árinu.
Takk fyrir og njótið vel…. verð næst í sambandi við bloggið að ári liðunu…
Aha!! spennandi! Veit samt ekki hvort ég hefði þorað að lesa áfram ef þú hefðir verið með eitthvað sterkara en kók í kristalsglasinu þínu! 🙂
Þetta er snilld. Hljómar eins og Leifur hafi eitthvað komið nálagt þessu.
heheh já þetta er alfarið ritsmíð Leifs – eina sem ég gerði var að senda þetta hingað inn 🙂
Hann er nefnilega oft búinn að gera grín að þvi hve gaman mér þykir að lesa völvurnar og að ég kaupi alltaf Vikuna þegar Völvan er þar.
hvað kemur til að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mun valda vonbrigðum???
haha, Ása mín góður punktur! hvenær hefur annars þetta blessaða KKlandslið okkar í fótbolta gert einhver stórafrek ?