Á þriðjudaginn s.l. gengum við (Leifur) Gunnar bróðir Fimmvörðuháls ásamt Hallvarði á Hnit, Arngrími vini Gunnars, Elíasi bróður Evu og Þóri Steinari frænda Dagnýjar.
Við lögðum af stað frá Skógum uppúr kl. 11. Okkur leist ekkert allt of vel á hitastigið því það var skítkalt við Skóga. Veðrið var samt mjög fallegt og okkur hlýnaði fljótt á göngunni og varð í raun ekki kalt eftir það. Við tókum tvö einfara inn í hópinn sem ég man því miður ekki nöfnin á. Við borðuðum í Baldvinsskála en sumir treystu sér ekki inn vegna myglunnar í veggjunum. Við hittum hollenskan hóp sem svaf í skálanum, sem getur ekki hafa verið skemmtilegt en þeir voru hæst ánægðir. Þeir komu sérstaklega hingað til að skoða gosið.
Við vorum komnir að gosstöðvunum rétt fyrir kl. 18. Gangan sjálf hefur því verið um 5.5 klst. Það er ótrúlega flott að sjá eldgos svona nálægt. Gengum að hraunjaðrinum þar sem Hallvarður grillaði sér samloku og við tókum nokkrar myndir. Við gættum þó að því að standa ekki upp við hraunjaðarinn þar sem hann var brattur eða þar sem mikið var um gufu. Við gengum niður að brún Hrunagils þar sem við sáum hraunið renna niður í gilið. Hraunfossinn sjálfur er þó ekki lengur til þar sem gilið er orðið fullt við brúnina. Næst gengum við upp á nálæga hæð þar sem gott útsýni er yfir eldfjallið. Gunnar var með alvöru vél en ég var bara með litlu vélina. Það var líka ekkert auðvelt að taka myndir því lofthitinn var -17 °C. Við biðum fram í myrkur því þá er miklu flottara að sjá eldgosið. Lögðum af stað til baka kl. 21. Þá tók við mjög strembin ganga í niðamyrkri án stoppa niður að Skógum. Við vorumvel búnir en aðal vandamálið var að erfitt var að halda vatninu ófrosnu. Þegar við vorum hálfnaðir niður keyrði Hjálparsveit Hafnarfjarðar fram á okkur og buðu okkur ófrosið vatn sem var vel þegið í stað krapans í brúsunum. Við vorum komnir niður um kl. 1.
Sjá fleiri myndir á Flickr.
Takk fyrir myndasýninguna og ferðasöguna. Litlu myndavélarnar standa sig bara glettilega vel, sérstaklega ef maður setur þær á fót og sjálftakara.