Við kíktum í smá svona “sunnudagsbíltúr” á laugardaginn. Skelltum okkur í Fljótshlíðina eins og allir hinir!
Lögðum reyndar ekki af stað úr bænum fyrr en rúmlega 4 enda langaði okkur að sjá dýrðina í ljósaskiptunum og í rökkri. Þetta var svakalega falleg sjón, alveg óhætt að fullyrða það.
Við keyrðum inn Fljótshlíðina eftir svokallaðri “Emstruleið” sem leiddi okkur yfir nokkur vöð á fjallabíl tengdaforeldranna. Við stoppuðum svo í nokkurnvegin beinni línu við Húsadal … bara hinumegin við Markarfljótið 😉 Við vorum þarna í stúkusæti og nutum útsýnisins. Oliver var eiginlega hrifnari af því að hann gat fundið nóg af steinum til þess að henda út í vatn sem var þarna rétt hjá og Ása Júlía lét sér fátt um finnast enda bara sátt að vera inni í bíl. Það kom mér dálítið á óvart hversu mikið af “smá”bílum voru þarna… ég set “smá” innan gæsalappa þar sem þetta voru reyndar ekki bara litlir bílar heldur lika venjulegir fólksbílar… þótt Peugotinn sé kominn til ára sinna að þá verð ég að viðurkenna að ég hefði nú ekki tímt að dröslast á honum þarna inneftir…. enda sáum við á bakaleiðinni þónokkra í erfiðleikum með að komast sömu leið til baka.
Við fengum ekki aðeins að sjá glæsilegt sjónarspil náttúrunnar í formi eldgoss heldur var sólsetrið alveg magnað!
Myndirnar eru ekki komnar svo langt að komast í birtingu strax en það hefst… ætli þeim verði ekki bara dempt inn á sama tíma og göngumyndirnar hans Leifs komast inn…
Leifur & Gunnar ásamt nokkrum öðrum gaurum lögðu af stað í morgun upp á Fimmvörðuhálsinn til þess að komast nær herlegheitunum 😉 Mér skilst að þeir ætli ekki niður fyrr en myrkrið er skollið á!