Ég hef haft það fyrir reglu að taka saman hér á blogginu svona létt hvað hefur gengið á yfir árið hjá okkur 😀
Yfirleitt hefur bara verið skemmtilegt að lesa þetta yfir og svona. Þegar ég var að undirbúa annálinn í ár sá ég hversu margt hafði í raun og veru að gerst hjá okkur í ár sem maður áttar sig ekkert endilega á þegar maður lítur lauslega til baka. Þá er gott að vera eilítið myndaglaður og ekki skemmir að hafa sett hingað inn nokkrar línur eftir skemmtilega atburði eða ferðalög.
Svona fyrir utan þær staðreyndir að árið í ár var ár stórafmæla hjá okkur báðum, tengdó, langömmunnar og vinahópanna okkar þá gerðist nú ýmislegt eins og sjá má í yfirferðinni hér á eftir.
Góða skemmtun!
Janúar
Yfir hátíðarnar laumuðum við því að foreldrum okkar og systkinum Leifs að von væri á öðrum erfingja seinnihluta sumars. Ég reyndar eyddi megninu af jólahátíðinni og vel fram í janúar í að faðma klósettið… ekki byrjaði meðgangan skemmtilega.
Við skelltum okkur á Þrettándabrennu á Ægissíðunni ásamt Gunnari, Evu Mjöll og Hrafni Inga.
Stuttu eftir áramótin skelltu Inga og Skúli sér til Kanarí, m.a. í tilefni af sextugsafmælis Skúla – við buðum okkur svo öll í mat til þeirra þegar þau komu til landsins og „heimtuðum“ afmælismat + köku.
Góður vinur okkar missti pabba sinn og fylgdum við honum til grafar um miðjan mánuðinn.
Maggi og Elsa buðu til skírnar heima hjá foreldrum Elsu í Grafarholtinu. Þar fékk sonur þeirra nafnið Óskar Leó í fallegri athöfn.
Segja má að Oliver hafi í fyrsta sinn fengið að leika sér fyrir alvöru í snjó, þar sem þeir feðgar skelltu sér út í garð og bjuggu til m.a. snjókarl og snjóhús – mjög spennandi að mati Olivers sem naut sín alveg í botn.
Febrúar
Oliver byrjaði í aðlögun á leikskólanum Austurborg í byrjun mánaðarins og gekk það vonum framar. Hann eignaðist strax góðan vin í Gunnari Þór á Putalandi.
Við æskuvinkonurnar (+makar & börn) vorum með Þorrahitting heima hjá Lilju & Ómari þar sem við opinberuðum að von væri á litlu kríli í ágúst 😀
Hrafn Ingi hélt upp á fyrsta afmælið sitt (3ára) í Hólmvaðinu þar sem mikið var um gleði og góðan mat í allskonar formi (flottust var þó græna fína dreka kakan).
Mars
Jónína og Vífill héldu sína árlegu Sviðalappaveislu heima hjá sér í Borgarnesinu. Verð þó að viðurkenna að mér leist ekkert á þær frekar en fyrri daginn 😀 en alltaf gaman að hitta stórfjölskylduna í svona boði.
Pabbi fagnaði enn einu árinu í lok mars og varð loksins „löglegur“ elli-smellur.
…og bumban stækkaði.
Apríl
Sigurborg fagnaði sínu afmæli ca. viku á eftir pabba nema hún dálítið mikið yngri 😉
Páskarnir mættu á svæðið með sinni hefðbundnu fermingarveisluvertíð þótt við höfum kosið að halda okkur heima í ár, þar sem í ár var páskafermingin staðsett á Höfn í Hornafirði hjá Agnari frænda.
Síðan við Leifur bjuggum í Holte, Dk, höfum við haldið nokkurskonar „Reunion“ með Sirrý og Ásu. Einnig höfum við boðið Evu, Frey, Lilju og Ómari að vera með þótt þau hafi ekki verið í Holte páskana ‚06 😀 Í þetta sinn hittumst við heima hjá Sirrý á Föstudaginn langa og áttum saman frábært og eftirminnilegt kvöld, e.t.v. þar sem Freyr ákvað að borða nýja gæludýr hópsins, eða salat snigilinn!
Árleg páskaeggjaleit fór fram í Á72 og í ár fékk Oliver sitt eigið súkkulaðipáskaegg þar sem við keyptum Suðusúkkulaðiegg (Hrafn Ingi hafði víst haft heilmiklar áhyggjur af því að litli frændi fengi ekkert páskaegg þar sem hann vissi að Oliver mátti ekki fá súkkulaði…).
Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að bjóða öllum þeim sem vildu að heimsækja Húsdýragarðinn á einhverskonar fjölskyldudegi rétt fyrir kosningar. Svo var auðvitað farið og kosið í alþingiskosningunum *ehem*
Við fórum með Oliver til Sigurðar ofnæmislæknis og fengum þær æðislegu fréttir að mjólkurofnæmið væri FARIÐ!!! Gleði, gleði og við tók tilraunastarfsemi í mjólkurvörusmakki 😀
…og já, bumban stækkaði.
Maí
Þann 2. maí varð stubburinn okkar 2 ára. Héldum svaka fína afmælisveislu þar sem aðal kakan var í líki brunabíls sem vakti heilmikla lukku hjá afmælisstráknum.
Sigurborg langamma datt heima hjá sér og brotnaði illa.
Við Oliver fórum með leikskólanum í rútuferð í sveitina til að skoða dýrin.
Stuttu síðar kíkti fjölskyldan í heimsókn í Húsdýragarðinn með Hrafni Inga og rákumst þar á Lilju, Ómar & krakkana. Strákarnir skemmtu sér vel í galsaganginum þarna.
Inga tengdó fagnaði sextugsafmælinu sínu með því að bjóða hópnum sínum út að borða á Hereford.
Í ljósi þess að með stækkandi bumbu fór blóðþrýstingurinn minn að vera á flakki, ef ég „vogaði“ mér að gera eitthvað sem olli auknu álagi, skrifuðu Gígja ljósa og Guðmundur læknir upp á vottorð um skert starfshlutfall.
Leifur hefur oft rifjað upp eftirminnilegar fjöruferðir með fjölskyldunni sinni sem og Leifi afa sínum og Aase ömmu sinni þannig að við ákváðum ásamt Gunnari, Evu Mjöll og Hrafni Inga að skella okkur í fjöruferð í Eyrarbakkafjöru. Ýmislegt skoðað og pylsur grillaðar í fjöruborðinu. Strákalingarnir okkar voru bara ánægðir með framtak foreldranna.
Júní
Júní byrjar ávallt hjá mér á afmæli mömmu og áður fyrr auðvitað samtímis afmæli Helgu ömmu.
Við skelltum okkur í Ossabæ í boði tengdó í tilefni þrítugsafmælis Leifs og fengum nokkra gesti þangað í mat og smá kökuboð. Við reyndar skelltum okkur aftur í Ossabæ viku síðar og feðgunum líkaði svo vel í það skiptið að þeir ákváðu að vera aðeins lengur en ég. Þau skelltu sér í bíltúr aðeins uppá hálendið, að Sultartangalóni, og svo niður í Reynisfjöru þar sem þau hittu Gunnar, Evu Mjöll og Hrafn Inga og tíndu steina í skreytingar fyrir brúðkaupið.
Þarna á milli Ossabæjaferða var auðvitað þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga en þar sem Oliver hafði náð sér í myndarlega eyrnarbólgu fór lítið fyrir þeim degi hjá okkur.
Sigurborg langamma var flutt af spítalanum yfir á Hjúkrunarheimilið Eir og var þar í góðu yfirlæti þar til hún fékk grænt ljós á að fara heim.
Í lok mánaðarins skelltum við okkur í vikudvöl í bústað í Munaðarnesi. Bara nice tími sem við fjölskyldan áttum þar og var heiti potturinn vel nýttur. Mamma og pabbi kíktu á okkur í nokkra daga og var Oliver alveg í skýjunum að hafa einhverja á staðnum sem hann gat gjörsamlega snúið í kringum litla puttann. Jökull og Inga stoppuðu líka hjá okkur í mat í bústaðnum á leið sinni til Rvk.
Á þessum tíma fannst mér ég gjörsamlega blása út og vera orðin svakalega stór :-/
Júlí
Strax og við komum heim úr bústaðnum var förinni heitið hingað og þangað um höfuðborgina og austur fyrir fjall þar sem sumir voru látnir leysa ýmis verkefni og skelltu sér í Rafting en þar ég lét mér nægja að standa á bakkanum og mynda í bak og fyrir… Gæsun Evu Mjallar fór semsagt fram fyrstu helgina í júlí með pomp og pragt sem endaði í dinner og kósíkvöldi í sumarbústað í Grímsnesinu.
Viku síðar var Gunnar tekinn fyrir, skotinn í spað í paintball, látinn syngja á Ingólfstorgi og dreginn um Þingvallarvatn á slöngu. Þeir bræður ásamt öðrum steggjurum enduðu svo í mat og söng við varðeld á Miklatúni.
Sigurborg langamma fékk loksins að fara heim í Krummahólana.
Tveimur dögum fyrir brúðkaup Gunnars og Evu Mjallar ákváðu Gígja ljósmóðir og Guðmundur læknir að nú væri nóg komið af vinnu og sendu mig heim í hvíld fram að fæðingu. Blóðþrýstingurinn hélt áfram að flakka án þess að vera beint á einhverjum „hættumörkum“ bara of mikið flakk. Nýtti þá tímann í að föndra „gæsunarbók“ fyrir Evu Mjöll með minningum frá gæsunardeginum.
Brúðkaupsdagur Gunnars og Evu Mjallar 18. júlí rann upp bjartur og fagur. Þau fengu alveg yndislegan dag þar sem veðrið sýndi sínar bestu hliðar. Athöfnin sjálf fór fram í Lágafellskirkju en veislan var svo haldin í Orkugarði (salur í vinnunni hjá Tengdó). Þar var sungið, dansað, borðað, fíflast og svo frv. fram á rauðanótt, yndislegur dagur/kvöld/nótt alveg hreint!
Áður en mánuðurinn var alveg yfirstaðinn skelltum við okkur í heimsókn í sumarbústað Eddu og Rögnvaldar í Grímsnesinu og eyddum góðri kvöldstund með Gísla og Stine (ásamt fleirum) áður en þau flugu aftur heim til Sviss.
Ég skellti mér líka í mónitor á meðgöngudeild LSH til að tékka á stöðunni hjá krílinu (svaka gaman). Í ljós komu nefnilega aukaslög hjá krílinu sem enduðu með því að við fengum að fara í heimsókn til barnahjartasérfræðings sem sýndi okkur svakalega fallegt og heilbrigt hjarta í sónar og sagði aukaslögin „bara eðlileg“.
Ágúst
Verslunarmannahelgin kom og fór án teljandi afreka fyrir utan jú að við kusum að sprella aðeins í Sigurborgu og taldi hún alveg víst að litla krílið hefði mætt á svæðið á sjálfum frídegi verslunarmanna þar sem hún vogaði sér út úr bænum. Hún reyndar var ekki í bænum heldur þegar að stóru stundinni kom.
Ég skellti mér enn og aftur í mónitor niðrá Meðgöngudeil, svaka gaman.
Feðgarnir ásamt Gunnari, Evu Mjöll og Hrafni Inga skelltu sér niður í bæ á sjálfan dag Gaypride til að skoða svaka flotta rússneska skútu sem var niðrá Miðbakka. Kíktu líka á endann á dagskránni á GP.
Ég fagnaði þrítugsafmælinu mínu og áætluðum komudegi litla krílisins og sá dagur kom og fór án þess að ég fengi „stóra“ afmælisgjöf.
Sigurborg langamma fagnað níræðisafmælinu sínu daginn eftir og mættu allir afkomendurnir auk nokkurra annarra ættingja í kaffiboði hjá Guðrúnu.
Að morgni 16.ágúst vaknaði ég upp með voða „skemmtilega“ verki sem þýddu bara eitt… Fæðingin var komin af stað og um 9 leytið vorum við mætt upp í Hreiður. Ekki svo löngu síðar komumst við að því að Halldór vinnufélagi Leifs og Erla konan hans væru líka á staðnum (Erla átti von á sér degi á eftir mér) en þau höfðu eignast dóttur (Rakel Rún) rétt eftir miðnætti. Dóttir okkar, Ása Júlía, mætti á svæðið rétt rúmlega 3, heilir 52cm og 3835gr.
Daginn eftir lögðu þær Ásta og Linda af stað til Íslands og mættu á klakann þann 18. ágúst.
Restin af ágústmánuði leið auðvitað í ansi mikilli móðu á milli bleyjuskiptinga, brjóstagjafar og svoleiðis dúlleríi.
September
Oliver stækkaði annsi hratt á þessum tíma því ekki aðeins varð hann stóri bróðir heldur var hann líka færður upp um deild á leikskólanum og er því nú á bangsalandi.
Í byrjun september var ákveðið að halda Gleðistund þar sem við barnabörn (og nokkur barnabarnabörn) Þuru ömmu og Steina afa hittust. Gaman að hitta hópinn svona og sjá alla án „afskipta“ foreldranna.
Sömu helgi var búið að boða til ættarmóts Kaldal fjölskyldunnar og þar sá maður hversu myndarlegur hópurinn er orðinn.
Á afmælisdegi Evu Mjallar og Stellu frænku fékk Ása Júlía svo nafnið sitt í messu í Dómkirkjunni hjá Sr. Hjálmari. Náðum við að koma flestum á óvart með nafnavalinu. Við vorum svo með súpu og meðþví heima í Hvassaleitinu og buðum svo upp á kökur í desert sem Inga tengdó og Eva Mjöll snöruðu fram úr ermunum. Yndislegur dagur í alla staði.
Ásta og Linda flugu svo heim á ný daginn eftir skírnina :-/
Blásið var til Íslandsmeistaramóts í Gaur í Viðarásnum hjá Víkingi og Arnbjörgu. Eftir mikla baráttu stóð Tobbi, nýgræðlingurinn sjálfur, uppi sem Íslandsmeistarinn. Keppendur voru auðvitað Sigurborg Skúladóttir eldri og afkomendur hennar ásamt mökum. Eftir mótið var svo glæsilegur kvöldmatur fyrir hópinn.
Október
Kíktum upp í Borgarnes í úrhellis rigningu ásamt mömmu og pabba, ástæða bíltúrsins var árleg Sauðamessa. Oliver skemmti sér konunglega innan um rollurnar í „réttinni“.
Gunnar, Eva Mjöll og Hrafn Ingi buðu Oliver með sér á Kardimommubæinn og var það í fyrsta sinn sem Oliver fer í leikhús. Síðan þá hefur geisladiskurinn með Kardimommubænum verið spilaður óteljandi sinnum fyrir svefninn.
Oliver var ekki einn um að fara í leikhús þennan mánuðinn þar sem ég skellti mér á Söngvaseið ásamt foreldrum mínum og rakst þar á þær systur Ástu Lóu og Settu enda sátu þær næstum því beint fyrir aftan okkur 😉
Leikhúsferðin var ekki eina nýjungin sem Oliver fékk að kynnast í mánuðinum þar sem við ákváðum að kíkja í bíó líka. Algjör Sveppi og leitin að Villa varð fyrir valinu og fórum við auðvitað á hana með Gunnari og fjölsk. Á sama tíma fór Ása Júlía í fyrsta skipti í pössun.
Við æskuvinkonurnar tókum Dirty Dancing kvöld í minningu Patriks Sw. Og toppuðum kvöldið með Bíópoppi hér í H14.
Ég skellti mér svo á námskeið á vegum SFR sem kallaðist „lærðu að prjóna lopapeysu“ sem gekk mjög vel (á reyndar enn eftir að klára að setja rennilásinn í, að öðru leyti er peysan LÖNGU tilbúin).
Nóvember
Í byrjun mánaðarins byrjuðum við með Ásu Júlíu í ungbarnasundi á sama stað og við fórum með Oliver, hjá Mínervu í sundlaug Styrktarfélagsins á Háaleitisbrautinni. Ása Júlía er greinilega sami sundfiskurinn og stóri bróðir því að hún naut þess virkilega að vera í sundinu.
Um miðjan mánuðinn skelltum við okkur ásamt Gunnari, Evu Mjöll, Hrafni Inga, Sigurborgu og Tobba í sumarbústað í Vaðnesi. Áttum þar notalega helgi sem einkenndist af spjalli, áti, nammiáti, prjónaskap, spileríi og svo áttu sér stað nokkur morð ásamt því að við vorum ofsótt af hákörlum og krókudílum sem léku lausum hala um öll gólf!
Daginn eftir að við komum heim úr sumarbústaðnum átti ég pantaðan tíma í myndatöku með börnin hjá Tomz. Við áttum þarna frábæran tíma í stúdiói og fengum við frábærar myndir út úr þessu sem ég nýtti til að útbúa bók í jólagjöf til Leifs ásamt auka jólagjafa til nánustu ættingja. Verð að viðurkenna að ég er ferlega stolt af mér að hafa náð að mestu að þegja yfir þessari ferð í meira en mánuð!
Í lok mánaðarins fórum við Oliver svo saman á Kardimommubæinn. Ég trúi því enn varla hversu duglegur Oliver var að sitja kyrr og fylgjast með af svona miklum áhuga. Gaman að því!.
Við mæðginin skelltum okkur á sitthvora svínaflensusprautuna fljótlega eftir að almúganum var hleypt að. Oliver virtist ekkert kippa sér upp við þetta en ég var vel aum í handleggnum í 2-3 daga.
Síðasta helgin í nóv var jafnframt fyrsta helgin í aðventunni þar sem fyrsti í aðventu var á sunnudeginum. Við jóluðumst svolítið þessa helgi þar sem hún var nýtt í að fara á jólahlaðborð með vinnunni hans Leifs (sem var aldrei þessu vant arfaslakt :-/) og á sunnudeginum fórum við svo í árlegt jólaboð til Hauks yfirmanns Leifs og fjölsk. hans. Kvöldið fór svo í að dunda okkur við að vefja hinn árlega aðventukrans fjölskyldunnar.
Desember
Desember leið í jólastússi eins og fyrri ár. Ég bakaði nokkrar sortir af smákökum og Oliver fékk að mála piparkökur sem hann vandaði sig mikið við.
Æskuvinkonurnar héldu litlu jól heima hjá Sirrý, smákökur, jólatónar, heitt kakó og pakkar – bara gaman!
Í ár var skórinn settur út í glugga í fyrsta sinn og var það mjög spennandi tími að mati Olivers.
Leifur og Oliver skelltu sér niður á Laugarveg einn laugardaginn til að kíkja á kóklestina sem rúllaði þar niður. Ekki skemmdi fyrir að henni fylgdi slatti af löggubílum og mótorhjólum.
Þann 13. des skáru Leifur og Oliver út laufabrauð með fjölskyldunni hans Leifs. Oliver sýndi laufabrauðinu reyndar ekki mikinn áhuga því honum þótti skemmtilegra að leika sér með brunabíla ásamt Hrafni Inga. Eva Mjöll fékk þá þó til að mála piparkökur.
Við fórum í árlegt kaffiboð hjá Sigurborgu langömmu á Þorláksmessu og hittum þar stórfjölskylduna. Héldum svo niður á Laugaveg til að skoða mannlífið þar og upplifa smá jólastemningu. Þegar við komum heim sá Oliver jólasvein á bílastæðinu við H14. Oliver gaf sig á tal við hann og kom í ljós að þar var Pottasleikir á ferð. Hann gaf Oliver mandarínu og uppskar knús að launum.
Við vorum hjá foreldrum mínum í mat á aðfangadagskvöld. Svo tókum við upp pakkana undir tréinu. Oliver var spenntur og vildi helst opna alla pakkana án þess að skeyta um til hvers þeir væru. Þegar búið var að opna pakkana á F59 var haldið inní Á72 þar sem enn fleiri pakkar biðu. Oliver var orðinn ansi þreyttur en þegar hann opnaði pakkan frá Ásu Júlíu sem innihélt RUSLABÍL hvarf öll þreyta og hann lék sér með hann án þess að líta upp fram yfir miðnætti. Eftir það hafði hann takmarkaðan áhuga á að opna fleiri pakka enda fékk hann ekkert fáa. Á jóladag fórum við inní Á72 í hangikjöt og laufabrauð, einnig voru nokkrar umferðir teknar af Apples to Apples og Gaur. Á Annan í jólum var okkur ásamt foreldrum mínum svo boðið í ekta purusteik í Á72 og áttum við þar saman notalega kvöldstund.
Á milli hátíðanna var svo spilakvöld vinahóps tengdó þar sem um 18 manns voru saman komin til að spila félagsvist og borða saman dýrindis mat. Ása Júlía var eina barnabarnið sem fékk að koma með og vakti hún mikla lukku. Einnig skelltum við okkur ásamt Gunnari og Hrafni Inga á jólaball ÍSOR. Þar vöktu þeir Gluggagæjir og Stúfur heilmikla lukku hjá yngri kynslóðinni.
Áramótunum ætlum við svo að eyða hjá tengdó í Á72, fá okkur góðan mat, brenna nokkur stjörnuljós, sprengja nokkra flugelda og vonandi skemmta okkur vel yfir skaupinu í ár.
Semsagt fullt af yndislegum minningum komnar hér á „blað“ og árið 2010 heldur áfram að bæta í það safn en þær birtast auðvitað bara í annálnum fyrir árið 2010 😀
Gaman að lesa 🙂 ætla alltaf að gera svona annál, aldrei að vita nema maður láti verða að því í ár!
Takk fyrir skemmtilega upprifjun á góðu ári!
Alltaf jafn gaman að lesa annálinn þinn. Greinilega búið að vera viðburðaríkt ár.
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla. Stórt knús á alla fjölskylduna.