Árið 2008 í hnotskurn eins og það kom okkur fjölskyldunni fyrir sjónir.
Janúar
Janúarmánuður var frekar tíðindalítill í kringum okkur. Við héldum svona eins og eitt spilakvöld með BoggiRobb og kláruðum nokkrar lagfæringar í íbúðinni sem höfðu staðið til frá því að við fluttum inn.
Febrúar
Fyrstu helgina í febrúar fórum við í sumarbústaðarferð með systkinum Leifs, mökum og stubbunum okkar. Ferðin var mjög notaleg og skemmtileg allt fram að þeim tíma að Leifur varð fárveikur – skemmtilegt borðhald – en góður matur.
Ég fór í ofnæmispróf vegna engifersins, þvílíkur kláði!
Ashley og Ásta staðfestu væntanlega heimsókn sína til Íslandsins.
Oliver fór til ofnæmislæknis og við fengum staðfest að stubburinn væri með mjólkurofnæmi. Upphófst mikill lestur á allar innihaldslýsingar á matvörum heimilisins.
Ég byrjaði “rifrildi” við ákveðið blað sem gefið er út hér á landi vegna myndbirtingar af síðunni minni.
Mars
Hélt áfram rifrildinu mínu við blaðið…
Kláruðum loksins að gera upp fínu smáhlutahilluna okkar sem við fengum í danaveldi. Þrifin, pússuð og bæsuð og lítur út eins og ný 🙂
Páskarnir mættu í öllu sínu veldi.
Hið árlega “Föstudagsins langa ríjúníon” var haldið heima hjá Lilju í þetta sinn, ekki alveg jafn fjörugt og það fyrsta enn mjög skemmtilegt þó og var Rapidough spilið spilað við mikinn hlátur.
Oliver fór að labba einn og óstuddur 🙂
Fór í áreytipróf vegna engifersins sem var allt annað en skemmtilegt!
Og í framhaldi af því fékk ég svona líka flotta kvefpest sem sendaði með því að ég missti röddina í dálítinn tíma og var skipað að þegja af læknunum 🙂
Apríl
Í aprílhittingi vinkvennana fengum við stelpu til að koma til okkar og lesa í spil fyrir okkur. Ýmislegt skemmtilegt kom út úr því og svo er bara spurningin hvað hefur ræst úr því sem hún sagði 🙂
Rifrildið hélt áfram en ég fór loksins að fá svör.
Ákváðum loksins að fara í draumaferðalagið okkar 🙂 Hringdum í Ástu frænku og pöntuðum gistingu hjá henni í sept/okt 🙂
Skelltum okkur í garðyrkjuskólann í heimsókn á sumardaginn fyrsta.
Maí
Héldum upp á 1 árs afmælið hans Olivers þann 1 maí. Fengum fullt af gestum og áttum frábæran dag með fjölskyldu og vinum.
Rifrildinu lauk! Loksins.
Pantaði myndabækur af blurb.com, vorum búin að raða myndum af fyrsta árinu í lífi Olivers og gáfum stoltu ömmunum sitthvora bókina í afmælisgjafir og héldum einni fyrir okkur.
Pöntuðum flugmiðana til USA 🙂
Ásta og Ashley komu til landsins.
Eurovisionpartý hjá Sirrý sem var alveg hreint brilliant!! Margar minningar frá því kvöldi og segja má að þetta hafi verið ógleymanlegt kvöld 🙂
Jarðskjálfti!!! Grjóthrun á þingvöllum og verulega óhrein peningagjá.
Júní
Um mánaðarmótin var för okkar heitið í Þórsmörk með Ashley, Óla, Evu & Frey. Ferlega skemmtileg helgarferð þar sem ýmislegt var brallað. Ég veit fyrir víst að þetta var ógleymanleg ferð fyrir Ashley frænku 🙂
Fyrri fjölskylduhittingur Ólsaranna var haldinn í byrjun júní m.a. í tilefni af því að Oliver afi hefði orðið 95 ára í ár.
Árbæjarsafnið var heimsótt.
Leifur hélt upp á afmælið sitt.
Rétt áður en þær frænkur mínar fóru aftur af landi brott reddaði Óli okkur ferð í sjóstöng! Brilliant dagur þar sem ótrúlegt magn af fiski datt um borð í dallinn 🙂
17 júní var yndislegur dagur sem við eyddum að mestu í miðbænum með systkinum Leifs og auðvitað pjökkunum þeim Oliver & Hrafni Inga.
Síðustu helgina í júní skelltum við okkur norður í Aðaldal ásamt tengdó. Keyrðum úr sólinni og yndislegu veðri beint í rigninguna. Áttum notalega stund í bústaðnum og á heimleiðinni er ekki annað hægt að segja en að okkur hafi brugðið enda SNJÓR á Öxnadalsheiðinni.
Júlí
Fyrstu helgina í júlí skelltum við okkur í útilegu í Húsafelli, var þetta fyrsta útilegan hans Olivers. Fengum æðislegt veður og komum öll í afmælið til Sóleyjar Svönu vel útitekin og sæt.
Tókum okkur til og gjörbreyttum kommóðu sem Leifur erfði eftir ömmu sína, hún var “fallega” blá eftir meðhöndlun Leifs fyrir einhverjum árum síðan en í dag er hún hvítlökkuð og fín.
Í lok mánaðarins var annað ættarmót haldið í Ólafsvíkinni, í þetta sinn voru það afkomendur systkina Olivers afa 🙂 heljarinnar hópur sem hittist í Ólafsvík og færði sig svo yfir á Stapa um kvöldið í grill, leiki og skemmtilegheit.
Ágúst
Vorum nú bara heima þessa verslunarmannahelgina og kíktum á tónleika í Laugardalnum. Oliver sofnaði á leiðinni á tónleikana, svaf þá af sér og glaðvaknaði svo á heimleiðinni 😉
Ég fagnaði mínu afmæli helgina þar á eftir. Við familían skelltum okkur í sund um morguninn og þegar heim var komið höfðu æskuvinkonurnar gert innrás og voru búnar að skreyta íbúðina með myndum, blöðrum og ricekrispies kökum 🙂 bara húmor.
Við fögnuðum því að hafa verið íbúðareigendur í 1 ár þann 13 ágúst.
Eyddi góðum tíma í að safna allskonar dóti fyrir VÍSA áritun til USA, þvílíka ruglið fyrir 1 lítið ferðalag.
Þvílíkur spenningur í kringum mann í tengslum við handboltalandsliðið okkar Íslendinga á ÓL. Á tímabili hélt ég að fólkið væri að ganga af göflunum 🙂
Leifur, Gunnar, Óli U, Andreas og vinur Gunnars fóru í Laugarvegsgöngu í viðbjóðslegu veðri en skv þeim var það bara til þess að gera ferðina eftirminnilegri.
September
Lögðum afstað í ferðalagið okkar, 5 vikna ferð um USA.
Byrjuðum í New York, vorum þar í 4 nætur og gengum manhattan fram og til baka. Flugum þvínæst til San Antonio eyddum viku þar í góðu yfirlæti ættingjanna. Næsta stopp var Los Angeles þar sem við skoðuðum margt og mikið. Keyrðum strandlengjuna upp til San Franciso sem var bara æði – þvílíka útsýnið!! Áttum notalegan tíma í S.F. og keyrðum svo áleiðis til Las Vegas með stoppi í Sequoia þar sem við litum á risafurur og skógarelda. Las Vegas var nattrúlega bara eitt stórt show 😉
Október
Strax 1 okt áttum við flug frá LA til San Antonio þar sem við eyddum 2vikum til viðbótar í góðu yfirlæti hjá frændfólkinu. Skruppum í dagsferð niður til Corpus Cristi.
Linda frænka reddaði Leifi í svokallaða “Ride along” með lögreglumanni í San Antonio og naut Leifur þess í botn!
Bankamálin á klakanum settu smá strik í reikninginn hjá okkur en ekkert alltof stórt 🙂
Þegar heim var komið tók alvaran við, haldinn var stór fundur í vinnunni minni þar sem sálfræðingur talaði við alla og bauð upp á áfallahjálp! Jahá! Við rétt nýlent 🙂
Restin af mánuðinum fór aðalega í að reyna að átta sig aðeins á því hvað var eiginlega að gerast í þjóðfélaginu og þegar þetta er skrifað hefur það nú varla tekist enþá.
Nóvember
Mánuðurinn byrjaði á því að ég skellti mér í helgarferð í sumó með æskuvinkonunum, við kusum að kalla þetta sálgæsluferð þar sem ekki var heimild til að tala um þjóðfélagsmálin 😉 Áttum notalegan tíma í Grímsnesinu við kjaftagang, föndur og spilerí.
Skellti mér á konfektnámskeið húsasmiðjunnar og upphófst í framhaldi af því smá framleiðsla á konfekti hjá okkur skötuhjúunum 🙂
Síðasta helgi mánaðarins var frekar annasöm, fyrst var það laufabrauð hjá fjölskyldunni hans Leifs, mikið spjallað, skorið og borðað 🙂 daginn eftir skelltum við okkur á basar hjá Ljósinu þar sem pabbi átti mikið af dóti til sölu. Mér skilst að basarinn hafi gengið fram úr björtustu vonum enda var fullt út úr dyrum!
Desember
Jólamánuðurinn mættur á svæðið.
Jólahlaðborð einkenndu byrjun mánaðarins, byrjaði á því að fara ásamt Evu Mjöll á jólafund Zontaklúbbsins hennar tengdó á hótel Loftleiðum. Næsta hlaðborð var með vinnunni hans Leifs á Óðinsvé og að lokum veisluhlaðborð frá Veislunni í heimahúsi hjá vinnunni minni. Nóg að eta 😉
Veikindin virðast vera yfirgnæfandi þennan mánuðinn, Leifur byrjaði á því að fá tak í bakið, fljótlega eftir að Leifur jafnaði sig á því náði ég mér í kvefpest og hélt fast í hana yfir jólin. Oliver byrjaði að hósta á 2 í jólum og endaði á því í morgun að fara til læknis sem setti hann beint á pensilín enda pjakkurinn með eyrnabólgu og byrjandi hálsbólgu þrátt fyrir hitaleysi.
Jólin okkar voru ferlega notaleg. Vorum í mat hjá mömmu og pabba á F59 og færðum okkur svo síðar um kvöldið yfir í Á72 til tengdó. Oliver var ótrúlega duglegur og hjálpaði Sigurborgu við útdeilingu pakkanna og gott ef ekki hann hafi átt einhvern þátt í að opna þá flesta.
Að öðru leiti liðu jólin okkar hjá í mestu rólegheitum og þægindum.
Í kvöld er það svo matur með stórfjölskyldunni hans Leifs hjá Guðrúnu & fjölsk í Grafarvoginum. Geri fastlega ráð fyrir því að við færum okkur yfir á F59 fyrir skaupið og svo áleiðis heim fljótlega eftir miðnætti enda pjakkurinn ekkert alltof sprækur.
Gleðilegt ár allir!
Vonandi á árið 2009 bara eftir að færa okkur fleiri ný og spennandi ævintýri – þetta ár verður allavegana ár stórafmælanna í kringum okkur 🙂
Gleðilegt árið gott fólk. Ertu ekki að gleyma bústaðaferðinni á Hellu í Maí 😉 með okkur Óla og Elsu…
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla ! 🙂
Flottur annáll!
Gleðilegt ár til ykkar allra
Gleðilegt ár og þakka allt liðið!
Svo þarftu bara að setja inn á dagatalið a.m.k. þrjú partý
1. Föstudagurinn langi heima hjá mér
2. Júróvísíon og singstar aftur hjá mér
3. 30 ára ammæli – Þá Dagný mín hrynjum við í það og Leifur má koma með sjampóið!