New York
9.- 13.september
Komudagur
Við lögðum af stað í ferðina okkar seinnipartinn þann 9.september. Oliver var hinn hressasti framanaf og lék á alls oddi þar til svefninn sigraði þegar flugið var um það bil hálfnað og svaf alveg þar til við lentum, þurftum m.a.s. að vekja hann þegar við fórum út úr vélinni.
Við komumst að því tiltölulega fljótt í New York hversu auðvelt það er að ferðast með barn og sömuleiðis hversu fljótir Bandaríkjamenn eru til að hjálpa manni. Þegar við vorum komin í röðina í “Immigration” vorum við allra síðust og sáum fram á um það bil klst. bið en þá allt í einu kemur kona gangandi til okkar og færir til bandið sem skermaði af röðina og benti okkur á að fara fremst í röðina! Og bara okkur, tók eftir því að náunginn sem var fyrir framan okkur ætlaði að fara á eftir okkur en konan stoppaði hann af og sagði eitthvað á þá leið að þetta væri vegna þess að við værum með barnið… NÆS!
Við fengum mjög fínt herbergi á B’n’B Lodges hjá þeim Jonathan og Clement, hefðum getað verið mun fleiri þarna enda svefnpláss fyrir 9 með ferðarúminu sem Oliver fékk! Gistingin var aðeins nær Harlem en við gerðum okkur grein fyrir eða bara hreinlega NÆSTU GÖTU við!
Dagur 1
Þarsem við sofnuðum svo snemma kvöldið áður þá vorum við glaðvöknuð um 4:30 á NYC tíma! Ákváðum að koma okkur út og byrja túristmann fyrst við vorum á annað borð vöknuð, náðum samt að draga það fram undir kl 8 enda þurftum við að setja saman kerruna hans Olivers og svona 😉
Eftir smá pælingar um hvernig greiðslur í lestarkerfið virkuðu og svona mættum við beint í vinnuösina!
Fyrsta stopp var Bhphoto, þessi búð er alveg hreint ótrúleg!!! Þvílíkt samansafn af myndavélum og aukahlutum tengdum myndavélum!!! (já ok og tölvur og þannig dót líka). Það fyndna við þessa búð er að flestir starfsmennirnir eru gyðingar, og þá svona ekta gyðingar með litlar kollhúfur og svo voru nokkrir þarna sem voru með svona slöngulokka við eyrun líka, alveg brilliant! Keyptum okkur nýja linsu á stóru vélina og nýja litla imbamyndavél 🙂
Þegar við vorum hætt að slefa í BH photo hófst maraþongangan okkar. Fórum fyrst að leita að búð sem heitir Kaufmann og er búð sem selur eintómt dót tengt hernum, ekta búð fyrir Leif. Þegar við loksins fundum hana þá var hún lokuð þannig að við röltum áfram upp á Times Square, eftir Broadway, að Rockafeller, að Herald Square, að Flat Iron byggingunni og stoppuðum svo í smá tíma í Madison Square Park þar sem Oliver greyjið fékk að hvíla sig aðeins á kerrunni.
Þvínæst gengum við Empire State byggingunni og ákváðum að kanna hvernig röðin upp væri og viti menn ENGIN RÖÐ þannig að við skelltum okkur upp. Fengum rosalega fallegt útsýni enda alveg heiðskýrt og fallegt veður.
Eftir turnferðina var kominn tími á að koma sér “heim” enda vorum við þá búin að vera úti í 12klst!!!
Dagur 2
Þar sem í dag var hinn eini sanni 9-11 þá vorum við löngubúin að ákveða að fara að Ground Zero og auðvitað stóðum við við það plan. Við vorum mætt þarna rétt eftir fyrstu “þagnarstundina” sem var haldin á sama tíma og þegar fyrri flugvélin skall á turnunum.
Það var ótrúlegt hvernig fyrirkomulagið var þarna á þessum tíma. Þeir höfðu lokað annsi mörgum götum fyrir bæði gangandi og akandi umferð þannig að maður var að fara allskonar krókaleiðir í kringum svæðið, eina umferðin sem var þarna var fyrir aðstandendur. Einhvernvegin tókst okkur að enda í Battery Park þar sem stóri gylti hnötturinn sem var við turnana er núna staðsettur, þar var búið að raða upp fullt af fánum þar sem nöfn þeirra sem fórust í árásinni voru prentuð á. Einnig var þarna stór stálbiti þar sem fólki gafst kostur á að skrifa kveðjur – þessi biti á svo að vera á nýja minnisvarðanum um 9-11.
Rétt hjá Battery Park fundum við róló, þar fékk Oliver að leika lausum hala. Honum fannst alveg æðislegt að hafa um 3 mismunandi rennibrautir að velja á sama blettinum!
Fjármálahverfið var skoðað og Oliver var mjög starsýnt á mennina með stóru leikföngin og hjálmana 😉
Brooklynbrúin var tækluð næst – gengum alveg yfir frá Manhattan og yfir til Brooklyn, dálítið spes hversu langt er að fara af brúnni og út á næstu gangstétt þegar maður er kominn yfir. Við fundum lítinn diner við endann þar sem við fengum æðislega þjónustu og ágætis mat, Celeste Diner (www.celestediner.com). Lögðum ekki alveg í að labba til baka þannig að við tókum lestina yfir á Manhattan 😛 Okkur tókst reyndar að labba eftir Madison Avenue frá 53str og alla leið heim á 96str! Aðeins 41 stræti 😉 frekar langur göngutúr!
Dagur 3
Kláruðum túristmann ! eða þannig séð, pottþétt alltaf hægt að finna eitthvað nýtt í hvert sinn sem maður heimsækir NY. Tókum lestina niður á Grand Central og skoðuðum okkur um þar. Þaðan fórum við að byggingu Sameinuðu þjóðanna. Í göngutúrnum rákumst við á fólk sem var að gera svona slowmotion leikfimi, dálítið skrítið að fylgjast með þessu en jafnframt flott.
Ákváðum að kíkja aftur í búðina sem Leif langaði að kíkja í, Kaufmann, og viti menn hún var opin! Þessi búð var ótrúleg! Ekki séns á að skoða sig þarna um því að búðin var FULL af kössum og dóti, frekar óaðlaðandi.
Næsta leit var að síðustu “frægu” byggingunni sem var á listanum okkar. FRIENDSbyggingin 🙂 þetta var jafnframt í eina skiptið þar sem við löbbuðum um í HELLIrigningu! Fórum líka beinustu leiðina heim eftir að hafa litið augum á bygginguna sem er btw í einu fallegasta hverfi sem við komum í á Manhattan, þetta var bara eins og að vera í allt annarri borg!
Þegar við vorum búin að koma okkur í þurr föt fórum við aftur út, okkur langaði að sjá Times Square og EmpireState bygginguna að kvöldi til. Þvílíkt ljósashow í gangi… Empirestate byggingin var rosalega töff í þeirri birtu sem var þarna um kvöldið, enn smá rigning og vel skýjað (það var lokað upp vegna þess að það var ekkert skyggni).
Dagur 4
Síðasti dagurinn okkar…
Þegar við vorum búin að ganga frá og setja allt niður í töskurnar okkar skelltum við okkur í síðustu NY kraftgönguna 😉 Í þetta sinn var það Central Park. Þar lentum við í miðju maraþoni sem var frekar fyndið. Á meðan við löbbuðum þarna um flugu fullt af myndbrotum í gegnum hausinn – allar þessar bíómyndir og þættir sem hafa verið teknar þarna upp bara gaman að því.
Vorum komin upp á flugvöll um 1 leytið en flugið okkar var ekki fyrr en um 4 leytið. Millilentum i Atlanta og vorum svo komin til San Antonio um miðnætti á staðartíma.
Þar var móttökunefnd sem beið við rúllustigann !!! Ásta frænka, Linda frænka, Ashley, Andrew, Samantha & Bumbubúinn 🙂
Æði að fá svona ferðasögu í mörgum “bindum” en hvernig munið þið þetta svona vel aftur í tímann ? Skrifarðu dagbók til að halda utan um þetta ? Ég man varla það sem ég gerði síðustu helgi og hvað þá að það sé í tímaröð enda fór ég á nýjan tug í minni síðustu utanlandsferð 🙂
Takk og hlakka til framhaldsins
Hehe já. Við skrifuðum dagbók samviskusamlega að kvöldi dags. Þetta er bara útdráttur!
En gaman að lesa 🙂 Hlakka svo til að fá almennilegt myndashow 😉
Hlakka til að sjá myndirnar ykkar! Þið hafið náð heilmiklu á svona stuttum tíma.