Það er búið að vera nóg að gerast hjá okkur undanfarna viku… það liggur við að það hafi alltaf verið eitthvað. Enda fór það líka svo að helgin er búin að vera nýtt í að láta Oliver pósa fyrir framan myndavélina og nokkurn vegin ekkert annað 😉
Jökull & Inga Lára buðu okkur í mat um daginn, ekki bara okkur neinei þetta var stórt matarboð eða réttara sagt raklettuboð. Þau voru að vígja raklettuna sem þau fengu í brúðargjöf og fengu Iðunnar raklettu lánaða líka þannig að það var nóg “pláss” fyrir alla 😉 Nammi gott, ekta svona borða yfir sig kvöld. Oliver fékk að smakka í fyrsta skipti vínber þetta kvöld 🙂
Kvöldið eftir var svaka afmæli hjá Óla Rafns. Sömuleiðis mjög gaman þar – ekkert nema Kárahnjúkalið, hehe, Kárahnjúkamannskapurinn var það fjölmennur að vinir hans og fjölskylda voru í miklum minnihluta. Óli byrjaði á því að bjóða upp á þvílíkt góðan mat og hvað sem þú vildir drekka með, án gríns maðurinn var með opinn bar. Ferlega skemmtilegt kvöld innanum mjög svo ólíkan hóp.
Síðasta miðvikudagskvöld tókum við Leifur upp á því að fara að kokka lasagna fyrir frændsystkina hópinn sem mætti til okkar á fimmtudagskvöldið – 10 manns í mat! Við vorum ekki með neinn pakkamat ónei, tókum upp á því að mixa allt frá grunni, m.a.s. hvítusósuna 🙂 þetta er eiginlega mun einfaldara heldur en ég bjóst við – sérstaklega hvíta sósan – komumst reyndar að því að það er algert möst fyrir okkur að eignast stærri pönnu! Eða allavegana pönnu með hærri börmum 🙂 Við reyndar gerðum bara lasagnað, deildum svo hlutverkum á hina, meðlæti, desert og drykkir 😉
Eftir ungbarnasundið á fimmtudeginum tókum við svo á móti frændsystkinum Leifs. Stórskemmtilegt kvöld þar sem var mikið hlegið og mikið borðað, ég er ekki frá því að ef ég hefði getað lagst í sófann þá hefði ég steinsofnað!
Víkingur og Arnbjörg komu með spil með sér sem er ekta svona “partýspil” þar sem engin þarf að kunna neitt nema ensku *haha* það heitir Apples to Apples og vakti það oft á tíðum mikla kátínu. Alveg spurning um að smella sér á eitt eintak við tækifæri. Takk fyrir snilldar kvöld krakkar! Ég er að fara í gegnum myndirnar, set etv eitthvað af þeim inn á netið við tækifæri.
Jæja ég ætla að fara að sinna syninum sem er orðinn lítill skriðdreki.