Ég er búin að vera að hugsa heilmikið út í það sem gengið hefur á síðasta rúma mánuðinn hjá mér… þá meina ég heilsufarslega. Ég er búin að fá að heyra endalaust um það hversu dugleg ég sé og að fólk sé stolt af mér fyrir að taka þessum pakka með svona miklu jafnaðargeði… ég veit samt ekki hvað er rétt í því, það er alltof auðvelt að setja upp grímu og fela frá umheiminum hvernig manni líður í raun og veru.
Ég er ekki sátt við þetta.
Ég er að sætta mig við þetta.
Þessum kafla er að ljúka sem betur fer, sá það eftir ómskoðuna í dag. Ég var ekki lítið nervus þegar ég keyrði inn á Krabb. Í morgun. Hún Anna Björg ómsérfræðingur útskýrði þetta allt svo vel fyrir mér sem sást á skjánum að ég gat ekki annað en farið kát út frá henni – pollarnir farnir og þetta sem sást getur allt eins verið eins “normalt” og hægt er miðað við þá sögu sem er tilstaðar í móðurættinni minni í tengslum við “blöðrur” í brjóstum þó svo að ég hafi aldrei fengið svoleiðis.
Sagan á bakvið þetta allt saman byrjar í rauninni mánudaginn fyrir hvítasunnu (21.maí) þegar Oliver er ca 3 vikna gamall. Það kvöld tek ég eftir rauðum bletti á brjóstinu á mér og undir honum er dálítill þroti, ég fer á hinn alfróða vef ljósmóðir.is og þar finn ég lýsingar á því hvernig stíflur í mjólkurgöngum lýsa sér – ég ákvað að það sakaði ekki að fara eftir lýsingunum þar um hvernig best væri að losa svona stíflur en allt kom fyrir ekki…
Á miðvikudeginum er þetta orðin greinileg stífla og í raun búin að afmynda brjóstið. Ég fór og hitti brjóstagjafaráðgjafa á LSH og hún hjálpar mér að nudda brjóstið á meðan Oliver drakk, setti mig í mjaltarvél og fylgdist með því hvernig Oliver tók brjóstið svo sendi hún mig heim með þau fyrirmæli að ég ætti að leggja hann10-11sinnum á brjóst og halda áfram að setja bakstra á brjóstið og nudda til þess að losa stífluna. Við erum að tala um að það var komið HUGE horn út úr brjóstinu á mér. Ég spurði hana þarna aðeins út í það hvort það gæti verið sniðugt fyrir mig að hafa samband við sjúkraþjálfara sem ég þekkti og ath hvort hún gæti ekki aðstoðað mig við að nudda þetta og etv nota laser eða hljóðbylgur á bólgusvæðið. Hún tekur vel í það og segjir að það gæti í raun ekki skaðað.
Á fimmtudeginum fylgi ég leiðbeiningunum og skrái á sérstakt blað sem ég fékk hjá brjóstagjafaráðgjafanum hvenær hann drakk, úr hvoru brjóstinu og hve lengi hann var að drekka í einu. Ég hafði samband við Guðrúnu sjúkraþjálfara og hún segjir mér að koma til sín þarna sama dag og við skyldum sjá hvort hún gæti hjálpað mér eitthvað. Guðrún prufar að nudda bólguna og setja hljóðbylgur á svæðið líka og segjir mér að koma aftur næsta dag. Um kvöldið tek ég eftir því að ég er komin með bullandi hita og líður vægast sagt hörmulega.
Á föstudagsmorgninum hef ég samband við Guðmund, heimilislækninn minn, lýsi ástandinu á mér og hann sendir sýklalyf í apótek fyrir mig og segjir mér að ef hitinn lækki ekki um helgina þá ætti ég að fara hiklaust upp á kvennadeild LSH og láta líta á mig. Kíki í smá tíma til Guðrúnar sjúkraþjálfara þar sem við endurtökum pakkann frá því deginum áður, það eina sem kom út úr þeim heimsóknum var að bólgan hjaðnaði í smá tíma en kom jafn skjótt aftur. Seinna þennan dag fer ég aftur að hitta brjóstagjafaráðgjafann og þar tekur sama sagan við, hún nuddar brjóstið, setur mig í mjaltarvél og fylgist með Oliver… OG tönglast á því þennan klukkutíma sem ég er þarna að ég líti nú alls ekki vel út (ég byrjaði viðtalið á því að láta hana vita að eg væri komin með háan hita og að heimilislæknirinn hafi sent sýklalyf í apótek fyrr um daginn). Það síðasta sem hún segjir við mig áður en viðtalinu lýkur er að hún hefði nú eiginlega viljað fá ómun af brjóstinu en það verði að hafa það og að ég liti nú virkilega illa út. Að lokum sagði hún að ef þetta skánaði ekkert yfir helgina þá ætti ég að hafa samband við Hreiðrið sem væri með brjóstagjafavaktina þennan mánuðinn. Ég fer heim með þessi skilaboð og einnig að ég ætti að leggja drenginn lágmark 13x á brjóst á sólarhring, fara vel með mig og ná að hvíla mig sem mest. Ég veit ekki alveg hvernig ég átti að ná að fylgja þessum fyrirmælum með drenginn hangandi á brjóstinu nánast allan sólarhringinn.
Á laugardeginum heldur hitinn bara áfram að hækka og ég ligg í hálfgerðu móki allan daginn. Mamma tók strákinn af mér og skipaði mér að leggjast upp í rúm og reyna að hvíla mig. Sem mér tekst með herkjum. Það þarf varla að taka það fram að Oliver fór ekki 13x á brjóst þennan sólarhringinn.
Á sunnudeginum var ég búin að gefast upp.
Hitinn var ekkert að lækka og brjóstið leit verr út ef eitthvað var. Hafði samband við þær á Hreiðrinu og mér er sagt að koma uppeftir fyrr en síðar. Þessa 2 daga sem ég var þá búin að vera á sýklalyfjum hafði brjóstið í raun og veru ekkert breyst, liturinn sá sami, fyrirferðin sú sama og ef eitthvað var þá hafði þetta bara stækkað. Um leið og ljósmóðirin sem tók á móti mér sá brjóstið þá sá ég strax að henni leist ekkert á þetta þrátt fyrir að hún hafi gert sitt besta til þess að leyna því. Eftir smá viðtal sagðist hún ætla að skreppa aðeins fram, stuttu síðar kemur hún aftur og er þá með lækni með sér (Karl Ó), hann lítur aðeins einu sinni á brjóstið á mér og segjir strax að það sé greinilegur gröftur í þessu og ég eigi að leggjast inn strax!
Hann vildi prufa að stinga á bólguna og reyna að draga gröftinn út þannig plús setja mig á sýklalyf í æð og halda mér inni amk til morguns. Hann stakk á bólgunni og út kom slatta af greftri. Hann stakk reyndar á 2 stöðum þar sem á þessum tíma hafði önnur bólga fundist sem var þó mun minni en hin.
Á mánudagsmorgni kemur annar læknir (Dögg) inn til þess að líta á mig og skoða stöðuna. Hún ákveður með það sama að þetta hafi ekki verið nóg sem Karl gerði daginn áður og vill fá að skera í báða sýktu mjólkurgangana. Þar sem ég hafði fengið morgunmat þarna þá dróst tímasetningin fram eftir degi og ég fór ekki í aðgerðina fyrr en seinnipartinn, það þurfa að líða 5-6 klst frá því að maður borðaði síðast þar til maður má fara í svæfingu.
Semsagt mánudaginn 28.maí fer ég í fyrstu aðgerðina. Þetta var annsi nett og í raun bara 2 x 1cm mjög penir skurðir á brjóstinu, eða þeir eru það í dag – þarna voru þeir með latex slöngum út sem kallast dren og áttu að koma í veg fyrir að sárið lokaðist of snemma.
Á þriðjudeginum kemur Dögg, skoðar brjóstið og talar um að aðgerðin virðist hafa heppnast vel. Sem hún gerði. Einnig segjir hún mér ca hversu mikið hún hafði tekið af greftri út úr stóru afmynduninni (um 50-60ml). Ég bendi henni þá á nýjan stað þar sem mikill þroti virtist vera kominn í og hún ákveður að halda mér inni eina nótt til viðbótar og enn með sýklalyf í æð.
Á miðvikudagsmorgun kemur Dögg inn til mín aftur og ákveður að fá annað álit á þessari “nýju” bólgu, hún fékk kvk lækni sem heitir Þóra ásamt “brjóstaspesíalista” sem heitir Höskuldur til þess að meta brjóstið. Allir eru sammála um að skera aftur. Höskuldur sá um aðgerðina í þetta sinn og Dögg aðstoðaði. Í þessari aðgerð var gerður ca 5 cm langur skurður og að mér skilst um 100ml af greftri hreinsaðir út. Enn ligg ég yfir nótt með sýklalyf í æð.
Á fimmtudeginum fæ ég loksins að fara heim. Ég fæ tíma daglega næstu 4 daga í umbúðaskipti og mat á því hvort að drenin ættu að vera áfram eða hvort það mætti taka þau. Dögg mælir með því að ég íhugi það alvarlega að þurrka mig upp og hætta með strákinn á brjósti. Hún bætir því við að ef að þetta myndi gerast 1x til viðbótar þá myndi hún fara fram á að ég myndi hætta með hann á brjósti þar sem þetta væri þá orðinn of mikill vítahringur og myndi að öllum líkindum ekki enda þar.
Samviskusamlega mæti ég daglega í umbúðaskipti á kvennadeildina og hvert drenið er fjarlægt á fætur öðru.
Á mánudeginum þegar ég mæti í umbúðaskipti hitti ég ljósmóður sem er einnig menntuð sem brjóstagjafaráðgjafi en starfar ekki sem slíkur. Þegar hún er að skoða brjóstið finnur hún nýjan stað þar sem hún telur að sýking sé búinn að myndast og fer fram á að ég verði send í ómskoðun sem fyrst. Þarna er ég búin að losna við drenin 3 sem sett voru upp í þessum 2 aðgerðum sem ég fór í vikunni áður.
Á þriðjudagsmorgni fer ég í ómskoðun og kemur í ljós að hún hafði haft rétt fyrir sér með nýja staðinn, einnig sést að hluti af stóra sýkta svæðinu úr aðgerð no 2 hafði lokast af og þar væri vottur af greftri. Þennan dag er Dögg ekki á vakt þannig að ég hitti nýjan lækni sem heitir Valur. Valur og ljósmóðirin sem fann nýja sýkingarsvæðið sögðu “að nú þætti þeim komið nóg og að þau vildu að ég hætti með strákinn á brjósti” Einnig fékk ég að heyra þetta frá Höskuldi sem sá líka um þessa aðgerð, semsagt aðgerð númer 3 komin á blað og 3 læknar auk brjóstagjafaráðgjafa búnir að mæla með þurrkun.
Þetta var í fyrsta skipti sem ég brotnaði niður, ég gerði það reyndar ekki fyrr en rétt áður en ég fór í aðgerðina… akkúrat á meðan ég var að bíða eftir því að komast inn á skurðstofuna. Á þeim tímapunkti ákvað ég líka að þetta væri eitthvað sem ég gæti ekki þrjóskast með lengur… ég gæti ekki gengið í gegnum næstu mánuði með Oliver á brjósti og endalaust á sýklalyfjum eða með aðgerðir yfirvofandi – það var nóg að ég væri komin með 4 ör á brjóstið eftir 3 aðgerðir.
Eftir þriðju aðgerðina hefur allt gengið ágætlega, Oliver er á soja þurrmjólk þar sem hann þoldi ekki venjulega SMA þurrmjólk og sárin mín eru svotil orðin alveg gróin í dag. Örin eru auðvitað mis falleg en hvað um það. Sálartetrið mitt er það sem skiptir öllu máli og að samskipti okkar mæðginana geti orðið almennileg þrátt fyrir að hann sé ekki á brjósti.
Ég er búin að fara 2x í ómun eftir aðgerð númer 3 og í bæði skiptin hafa fundist svæði þar sem einhver vökvi (ekki gröftur) er tilstaðar ánþess að eitthvað hafi verið gert í því. Ég á að fara í ómun nr 4 í haust. Þau sem hafa séð um mitt mál á LSH vilja meina að ég sé “tilfelli”, einnig að þetta vesen sé langt frá því að vera eðlilegt. Þau vilja meina að ein, kannski mögulega tvær sýkingar séu eðlilegar en 5 eru langt þaðan. Ástæðan fyrir næstu ómun er sú að það á að kanna hvort það hafi eitthvað verið tilstaðar í brjóstinu sem olli því að ég var móttækilegri fyrir þessum sýkingum en ella. Eitthvað sem ekki er hægt að greina núna fyrir bólgum í brjóstinu sem eru eftirstöðvar aðgerðanna.
Ég er ekki sátt við að hafa lent í þessu, enda væri það ekki eðlilegt. Ég er ekki heldur sátt við að það hafi ekki verið gripið inn í fyrr… sérstaklega þar sem það hefði verið hægt 5 dögum fyrr!
Ég veit að ég má brotna, ég má vera ósátt, það er allt partur í því ferli að komast yfir svona áfall. Þetta er jú áfall að þurfa að fara í 3 aðgerðir á 10 dögum, 3 svæfingar eru ekki auðveldar fyrir líkamann.
Ég elska son minn meira en allt, vil honum allt það besta sem ég get veitt honum, ég geri mér grein fyrir því að samkvæmt öllu hefði það verið brjóstamjólkin en til þess að geta veitt honum hana þá hefði ég þurft að vera heil heilsu og það var ekki að fara að gerast. Brjóstagjafafasistar hafa haldið því fram að ég hefði getað verið “einbrjósta” en hvað ef sagan hefði einfaldlega tekið sig upp þar? Átti ég að ganga í gegnum sama pakkann með hitt brjóstið? Nei takk, hef ekki áhuga.
Ég hef reynt mitt besta að horfa á björtu hliðarnar í sambandi við þetta allt saman. Leifur getur tengst Oliver á nýjan máta með því að gefa honum pela. Oliver er ekki eingöngu upp á það kominn að ég sé á staðnum til þess að gefa honum að drekka. Ég hef meiri möguleika á að gera hluti sem mig langar til, er frjálsari. Ég fékk þó 5 vikur.
Björtu hliðarnar eru bara ekki alltaf nóg… þetta er erfitt á svo margan hátt og það eru ekki margir sem geta sagt að þeir skilji mig og virkilega geta það. Mér finnst ég á vissan hátt vera svo ein án þess að vera það. Ég á góða að sem styðja fast við bakið á mér. Leifur er þar fremstur í flokki.
Ég er ekki að falla niður í þunglyndi út af þessu, það eru bara margar tilfinningar sem eru að brjótast um og það hjálpar ekki þegar hormónaflæðið er ekki komið í jafnvægi eftir meðgönguna og fæðinguna. Ég hef talað við fagaðila á spítalanum og hef fullan aðgang að þeim þegar og ef mér finnst ég þurfa á þeirra aðstoð að halda. Í dag er ég mjög sátt við það teymi sem sér um mig og mín mál þótt ég hafi verið hálf súr út í brjóstagjafaráðgjafann fyrstu vikurnar, hinsvegar hafa læknarnir allir verið yndislegir og virkilega látið mig finna að ég skipti máli og mín líðan skiptir máli, engin færibandavinna þar á bæ.
Það er ótrúlegt hvað svona pistill getur létt á manni og gert manni gott.
úff já… þetta er ekkert smá sem hefur gengið á.
Ég vil líka segja að þú sért sterk að taka á þessu svona en ég veit líka manna best að það er bara ekkert nóg að fólki finnist það og segi það við mann. Manni líður bara ekkert betur þrátt fyrir það og maður er bara ekkert sáttur þegar líkaminn “klikkar” svona hjá manni og maður getur ekkert gert og heilbrigðiskerfið er bara enganveginn að standa sig.
En það sem ég hef tuggið í sjálfa mig er að það sem drepur mann ekki styrkir mann og þegar maður er búinn að ganga í gegnum svona þá erum við mun sterkari og tilbúnari til að takast á við lífið og það sem getur komið uppá seinna meir.
En þú hefur teymi upp á landsa sem þú getur leitað til, sem er meira en ég fæ með mína erfiðleika þó svo ég gjarnan vildi, svo ég kvet þig eindregið til að nýta þér það ef þér finnst minnsta þörf á því – það getur aldrei skemmt.
En það sem er kanski mikilvægast í þessu er að maður finnur hvernig fólkið manns stendur við bakið á manni og það er það besta. Það er bara svo ótrúlega gott að geta talað um þetta við fólkið í kringum mann til að létta smá á sálinni. Það er besti plásturinn 🙂
Kv. Eva
Og já ég gleymdi auðvitað að setja þarna inn í textann (sem kom allur í belg og biðu þrátt fyrir greinaskilin sem ég gerið hehe) að ég held að það sé bara óeðlilegt að vera sáttur við svona. Maður reynir að sætta sig við hlutina og lifa með þeim því maður getur engu breytt en maður getur ekki verið “sáttur”.
Jæja nóg komið í bili hehe 😉
Kv. Eva
Ég viðurkenni það fúslega Eva mín að mér finnst þú ótrúlega sterk og líka að það er svo auðvelt að segja það við þig – ég veit að það sem þú ert búin að vera að berjast við sl ár er búið að taka rosalega á hjá þér og mér finnst það helv skítt að TR skuli ekki taka þátt í meiru sem stuðlar að aðstoð fyrir fólk í þínum sporum.
Takk fyrir að nenna að lesa þetta hjá mér 🙂 átti nú enganvegin von á þvi að einhver nennti því 🙂
elsku dagný mín, þetta hefur verið skelfilegt … sendi þér risa knús
takk snúlls 🙂
Hræðilegt að heyra þetta, gott að þú sért að jafna þig eftir þetta *risaknús*.
Dagný mín þrátt fyrir það finnst mér þú búin að vera rosalega dugleg … og það er allt í lagi að vera eki sátt við þetta en þú ert dugleg samt. Því þú harkar þér í gegnum það og heldur áfram.
Dagný mín. Þrátt fyrir mikla og stundum ofsafengna fréttamennsku í minni fjölsk. út af engu, þá vissi ég varla af þessu. Vissi að þú hefðir fengið einhvern graftarpoll í brjóstið og að það hefði verið lagað með uppskurði og þú hefðir þurft að fara að gefa Oliver pela, thats it. Ég hlýt að vera í kuldanum núna, vá.
Mér finnst þú taka þessu vel og ef drengurinn braggast vel á sojamjólk þá á allt að vera í lagi. Við vitum að það eru brjóstagjafafasistar ( skemmtilegt nýyrði hjá þér ) sem bara hreinlega skilja ekki hvað er að lenda í áföllum því það hefur sennilega bara gengið vel hjá þeim. Við hinar sem höfum verið grátandi með grátandi börn á stífluðum brjóstum af því við viljum ekki gefast upp eigum fullan rétt á því að vera ósáttar við einhverjar kellingar sem segja gerðu svona og hinsegin og prófaðu þetta og hitt þá verður allt í lagi meðan það er ekki í lagi. Það gengur bara ekki alltaf vel og snurðulaust að hafa barn á brjósti og þau eiga til að léttast og við erum ekki verri foreldrar. Ef allt er að fara í rétta átt þá er það gott og þið Leifur eruð bara heppin að geta gefið Oliver bæði og svo fá afar og ömmur líka að njóta nálægðar sem mömmur venjulega fá bara með brjóstagjöf. Gangi þér vel.
Gaman að sjá myndirnar úr sumarbústaðnum og Kim ætlar að senda slóð á sínar myndir. Kv.
Setta: jah, sko 3 aðgerðir og þetta voru mun meira en stíflur þar sem brjóstið á mér var ca 2fallt á tímabili af greftri… þar sem þau tóku yfir 200ml af drullu í burtu.
En já fréttaveitan í familíunni er mjög misjöfn og nei þú ert svo innilega ekki úti í kuldanum 😉
ég lærði þetta nýyrði upp á spítala af doxunum – fannst það alveg hreint frábært og kýs að nota það óspart þegar verið er að predika um að börn EIGI að vera eingöngu á brjósti og þær sem “gefast upp” séu e-ð verri foreldrar fyrir vikið – sem er auðvitað ekkert annað en BULL.
Takk fyrir kommentin stelpur, ég átti svo innilega ekki von á því að svona margir nenntu að lesa yfir þetta allt saman 😉
Dagný mín…. úff ég á ekki orð…. Já þrátt fyrir þessa æsifréttamennku í ættinni þá vissi Setta greinilega meira enn ég. Svo ég hlít að vera í frystikistunni :$ Það sem ég vissi var að þú hefðir lennt í þessari aðgerð útaf graftarpolli og það væri búið að laga þetta “og nú gegni allt vel og Oliver fengi pela MEД . Halló ….. ég hreinlega hélt að þú værir með hann “einbrjósta” tímabundið.
En ég verð að taka undir það að þetta er ekki auðvelt og mér finnst þú taka þessu vel þrátt fyrir allt. Að vera með barnið sitt grátandi á brjósti við hverja gjöf er hreint helvíti. Þessir brjóstagjafafaststar ættu sjálfir að fá að ganga í gegnum það sem við hinar fáum að upplifa. Reyndu þetta reyndu hitt, gerðu þetta gerðu hitt, þú ert ekki nógu ákveðinn, þú ert ekki nógu laginn, þú ert einhvað svo kvuminn við barnið, hættu að hlífa sjáfri þér og láttu barnið finna að það fær ekkert annað þangað til hún tekur brjóst….. (sem sé sveltu barnið) , allt eru þetta setningar sem ég þekki. Grátinn yfir að geta ekki gefið barninu brjóst og að barnið vilji ekki taka við. Stelast til að gefa pela svo barnið fá næringu…… já, brjóstagjafafaststar er sérvalið lið sem ekki hefur þekkingu á því sem raunverulega getur gerst. Maður er jafnvel “gleymdur ” meðan barnið var á vökudeild og engin skildi neitt, hvar var mjólkinn..? af hverju eru með hita ? afhverju afhverju afhverju ????
En í ég er líka þakklát í dag að hafa fengið að gefa pela… ég sé ekki betur enn að frænka þín hafi vaxið og dafnað þrátt fyrir það. Indisleg dóttir, …..
Oliver á ekki eftir að missa af neinu sambandi við þig þrátt fyrir þetta, því skaltu njóta stndanna með honum við pelagjöfina. Hann dafnar vel af þessu og það er það sem gildir. Ég skil þig vel að vera ósátta og þú mátt það og átt fullan rétt á því. ÞÚ ERT ALLS EKKI VERRI FORELDRI FYRIR VIKIÐ. Jafnvel betri…. Njóttu þess líka að leifa Leif að gefa honum og finna þig “frjálsa” þó þú sitjir vil hlið hans.
Þú ert dugleg, stendur þig vel og átt bara það besta skilið…..
Gangi ykkur vel í þessu öllu sem og öðru sem þið takið ykkur á hendur.
Takk fyrir góðar stundir í bústaðnum um helgina….
kv. Ásta Lóa
Alls alls ekki vera með samviskubit eða eitthvað þannig yfir þvi að vera ekki með hann á brjósti! Þú gerðir þitt besta og ert búin að ganga í gegnum mjög erfiða lífsreynslu, og það er mjög skiljanlegt að þú sért ósátt við þetta allt.
Ekki hlusta á fólk sem þekkir ekki aðstæðurnar (og jafnvel ekki fólk sem þekkir til heldur ;-)) og hefur eitthvað neikvætt að segja, það var rétt fyrir þig og Oliver að hætta þegar þið gerðuð það, ég veit ekki betur en Oliver dafni vel og hafi það rosalega gott 🙂
Ég veit það sjálf að sumt fólk hefur miklar skoðanir á brjóstagjöf, ég fékk oft að heyra það að fólki þætti ég hafa verið lengi með kútinn á brjósti (til 11 mánaða) meðan sumum fannst fáránlegt að ég væri að hætta með hann á brjósti ef ég gæti haldið þessu áfram lengur! Mér fannst þetta bara vera tíminn til að hætta þessu – fyrir okkur bæði. Það kemur engum öðrum við.
Sú mjólk sem kemur í staðin fyrir brjóstamjólkina er líka orðin svo lík henni svo það er alls ekki eins og þau börn sem eru ekki á brjósti séu að fá eitthvað “verri” mjólk (eins og þú veist) og plúsarnir við pelagjöf eru líka mjööööög margir 🙂 (t.d. næturgjafirnar eins og þú bentir mér á um daginn – þvílíkur lúxus að geta sofið heila nótt við og við ;-))