Fór vestur aftur í gær… í þetta sinn var það til þess að fylgja afa síðasta spölinn.
Athöfnin var yndisleg, sr Óskar er frábær prestur… komst svo yndislega vel að orði í minningarorðunum. þau höfðu valið 2 lög sem voru líka spiluð við jarðaförina hennar ömmu.. “undir bláhimni” og “snert hörpu mína”. Bæði lögin mjög falleg. Kirkjukórinn fór vel með þau.
Það fór svo að við afastelpurnar bárum afa frá líkbílnum að leiðinu, pabbi og frændur mínir voru líkmenn. Það var einhvernvegin allt öðruvísi en ég bjóst við…
Það var þvílíkur fjöldi í kirkjunni… hún var víst vægt til orða tekið full, fólk þurfti að sitja niðrí safnaðarheimili líka og fylgjast með athöfninni í sjónvarpi. Mér skilst að það hafi ekki allir fengið sæti niðri heldur. Félagsheimilið var líka fullt, heyrði á konunum sem sáu um kaffið að það hefðu verið e-ð um 240 diskar… Ég taldi í gærkveldi hve margir hefðu skrifað í gestabókina og það voru 220, það eru alltaf einhverjir sem skrifa ekki í bækurnar… eða mæta yfir höfuð í erfidrykkjuna.
Þetta var rosalega vel heppnað, yndislegur dagur og gott að hitta alla.
Við skötuhjúin kíktum aðeins upp í fjárhús áður en við lögðum af stað í bæjinn… sennilega var þetta í síðasta sinn sem ég kem þangað.. hver veit. Langaði bara í smá minningarbrot, bæði gömul og ný. Enda rifjuðust upp fullt af brotum hjá mér um leið og ég steig inn í kofann… bara gaman að því.
Ég fékk að eiga mynd sem ég gaf afa í jóla eða afmælisgjöf fyrir nokkrum árum.. mynd af okkur tveim þegar ég er ca 4 ára. Afi er að hjálpa mér að halda á lambi. Mér þykir myndin æðisleg. Merkilegt hvað litlir hlutir skipta mann rosalega miklu máli þegar fólk er farið… stutt minningabrot og litlir hlutir, ómetanlegt.