Þetta ár hefur svo sannarlega flogið framhjá með helling af allskonar fyrir okkur fjölskylduna. Nýjar áskoranir, markmiðum náð og ný sett á “blað”, draumaferð var farin og sumir hafa hangið meira í klórvatninu en aðrir.
Janúar
Við hófum árið í S23 í góðu yfirlæti ásamt fjölskyldunni í S37. Lítið var um flugelda enda veðrið ekki að vinna með flugeldaglaðafólkinu. Sundmótin hófust þar sem Ása og Olli kepptu á Reykjavíkurmeistaramótinu með ágætis árangri en Ása og vinkonur hennar komust á pall í boðsundi og fannst það nú ekki leiðinlegt. Ása og skólafélagar hennar í leiklistarvali & tónlistarvali unnu alla síðustu önn í að setja saman leikrit eða réttara sagt söngleik og fengum við að sjá afraksturinn á sýningu um miðjan mánuðinn. Dagný og krakkarnir fengu bréf frá Credit info þar sem þeim var tilkynnt að þau væru nú komin á lista yfir fólk sem fylgst væri sérstaklega með vegna tengsla við fólk í háttsettum einstaklingum í opinberri þjónustu sem vakti mikla undrun en á sama tíma kátínu þar sem öllum fannst þetta svo fáránlegt bréf og það eingöngu þar sem Leifur var kominn í stjórn félags í X-D, þarna var m.a. verið að tala um mögulega fjármögnum á hriðjuverkastarfsemi – frekar fáránlegt mál allt saman sem var síðar dregið til baka.
Foreldrarnir skelltu sér í leikhús og út að borða með góðum vinum. Fermingarundirbúningur fyrir ferminguna hennar Ásu fór á fullaferð.
Febrúar
Febrúar einkenndist svolítið af læknisheimsóknum og því tengdu sem fór þó allt vel. Systurnar tóku þátt í Gullmóti KR með ágætis árangri. Kleinubakstur í Birtingaholti og afmælisveisla Jóns frænda. Ása og Olli fóru á árshátíð Seljaskóla – þá einu sem þau komast á saman 😉
Mars
Við byrjuðum marsmánuð á að Dagný og Leifur fylgdu mömmu Iðunnar vinkonu síðasta spölinn eftir stutt og erfið veikindi. Loksins fór að koma almennileg mynd á stóra baðherbergið okkar, hægt og rólega. Sigurborg Ásta fékk viðurkennilegar fyrir ástundun og framfarir á Uppskeruhátíð sundfélagsins sem og var hún önnur stigahæsta stelpan í sínum aldurshópi eftir stundmót síðustu annar. Stolt skotta þar á ferð <3
Fermingarundirbúningur fór á fullt og Dagný græjaði ýmsar veitingar sem biðu í frystinum eftir stóra deginum. Heilsugæslan bauð starfsfólkinu út að borða í tilefni stór afmælis stöðvarinnar og stuttu síðar var árshátíð HH haldin með pompi og prakt.
Hópferð með stórfjölskyldunni á Harry Potter og Sinfó í Hörpu var eftirminnileg.
Apríl
Fermingarmánuðurinn rann upp og Ása Júlía naut sín í botn. Skírdagur 6.apríl rann upp fallegur og bjartur dagur. Athöfnin var í Seljakirkju og sáu Ólafur Jóhann og Sigurður Már um athöfnina. Salurinn var standsettur með diggri aðstoð fjölskyldu og vina. Veislan var dasamleg og unga fermingarsnótin í skýjunum með daginn enda umvafin ættingjum og vinum. Páskarnir tóku svo við ósköp notalegir og rólegir eftir veislustandið á Skírdag.
Litli söngfuglinn okkar hún Sigurborg bauð okkur á 2 kórtónleika í mánuðinum, sá fyrri var í Víðistaðakirkju og söng hún þar ásamt fleiri kórum, þar á meðal kórnum hennar Ingibjargar frænku og var afskaplega gaman að sjá þær frænkur syngja saman. Sá seinni var svo í Seljakirkju í beinu framhaldi af gistipartýi kórsins í kirkjunni.
Leifur fylgdi Bjarna bróður Magga æskuvinar síns, ekki alveg sá sem við áttum von á að þurfa að kveðja svona fljótt.
Maí
Að vanda fögnuðum við afmæli Olivers í upphafi mánaðar <3 16 ár mætt á svæðið. Við fengum frændsystkinin í S37 í heimsókn og gistingu 2x í mánuðinum og í seinna skiptið var það á afmælisdag Ingu ömmu og fannst okkur því tilvalið að hóa í mannskapinn í M7 og ömmu og afa í mat í tilefni dagsins. Olli dró fram spil sem hann og bekkjarfélagar höfðu hannað í skólanum og tókst þeim frændum að klóra sig fram úr amk 1 hring við mikla kátrínu. Sigurborg Ásta skellti sér í hljóðver ásamt kórnum sínum og barnakór Grindavíkur til þess að taka upp lag með hljómsveitinni Storð – ekkert lítið spennandi verkefni hjá ungum söngfuglum. Oliver skellti sér svo norður í land í útskriftarferð 10.bekkjar en þar skelltu þau sér m.a. í rafting, paintball og 1238 safnið á Sauðárkróki.
Loksins skelltum við okkur að sjá Emil í Kattholti – en við fórum á síðustu sýninguna og fannst krökkunum mjög gaman að sjá fagnaðarlætin hjá leikurunum í lokin. Sundmót á öllum stigum og heimsókn mæðgnanna í Skessuhelli á milli keppnishluta á sundmóti í Keflavík. Við fórum í fjörugt matarboð hjá góðum vinum enda langt síðan við höfum öll hisst. Systurnar ásamt frændsystkinum sínum í M7 og S37 tóku svo módelstörfin alvarlega en Eva frænka og vinkonur eru að klára vinnu við sína fjórðu prjónabók og nú eru það stórukrakkarnir og peysur fyrir skólann og hentuðu því frændsystkinin afskaplega vel í módelhlutverkin ásamt fleiri hressum krökkum, deginum var svo slúttað í afmælismat með Ingu ömmu og Skúla afa.
Júní
Við hófum mánuðinn á Akranesleikum með stelpunum okkar en þar náði Ása Júlía langþráðu markmiði að ná inn á Aldursflokkameistaramót Íslands í sundi en það fór fram í lok mánaðarins á Akureyri. Ása Júlía gisti í Brekkuskóla með hinum sundkrökkunum og skemmti sér konunglega á mótinu. Sigurborg Ásta var plötuð til þess að taka þátt í boðsundi síðasta daginn en félaginu vantaði 1 stelpu í hennar aldusflokki til þess að fylla upp í blandað lið, það var því óvænt ánægja þegar þau náðu 1 sæti í sínum aldursflokki! – Fyrsta AMÍ dömunnar og fyrsta gullmedalían. Dagný fór í vorferð með heilsugæslunni en þau kíktu á Hellana við Hellu og í mat á Stokkseyri – frábært kvöld.
Útskrift Olivers úr Seljaskóla var annar toppur mánaðarins en athöfnin fór fram í Seljakirkju og tók foreldrafélagið sig saman og pantaði grillvagninn þannig að allir nutu smá aukatíma saman í mat eftir athöfnina. Stuttu áður fékk Oliver einnig viðurkenningu frá Reykjavíkurborg eða Nemendaverðlaun skóla- og frístundaráðs sem kennarateymið hafði tilnefnt hann til. Hin árlega 17 júní keyrsla með Garðari frænda og Magga afa var að sjálfsögðu farin og spurning hver verður bílstjórinn að ári.
Í lok mánaðar, rétt áður en við héldum Norður á AMÍ barst svo svarið sem Oliver hafði beðið eftir allan mánuðinn en það var hvort hann kæmist inn í draumaframhaldsskólann sinn og jú auðvitað komst drengurinn í það nám sem hann vildi mest – MR í haust!
Oliver hóf störf í leikskólanum Steinahlíð i gegnum Reykjavíkurborg, ekki leiðinlegt að vinna með frændsystkinum sínum en Steinahlíð er einmitt leikskólinn þeirra Grétu og Jóns og blómstraði Oliver þar. Ása Júlía reitti arfa í kringum Seljaskóla með vinkonum sínum í unglingavinnunni og Sigurborg Ásta skoðaði umhverfið á íþróttanámskeiðum.
Júlí – ÍTALÍA
Draumaferð til Ítaliu var farin í júlí – Algjörlega dásamlegar vikur sem við áttum saman og við nutum okkar í botn að skoða okkur um í kringum Garda vatn, heimsóttum Bologna, Feneyjar, Pisa, Verona, Lucca, Sirmione, Rimini, Flórens, San Marino og svo margt margt fleira sem er efni í langalanga færslu en við erum enn að vinna okkur í gegnum allar myndirnar og færslurnar sem tilheyra þessari ferð. En það er alveg á kristal tæru að við munum lifa á þessari ferð í langan tíma.
Eftir dásamlegt frí á Ítalíu tók alvaran við aftur og við foreldrarnir fórum aftur að vinna, Oliver leysti aðeins af í sundskóla Ægis og skellti sér á sinn fyrsta Busahitting MRinga.
Ágúst
Í byrjun ágúst skelltu systurnar sér á reiðnámskeið hjá Faxabóli. Ása Júlía fagnaði 14 ára afmælinu sínu með keilupartýi með vinum sínum í sundi og skóla. Við fengum part af sænska hluta fjölskyldunnar (Mats og fjölsk) í heimsókn og fóru Leifur og krakkarnir ásamt systkinum Leifs í göngu með þeim í Reykjadal.
Við heimsóttum Iðunni & Sverri + krakkana í Geðbót um Verzló og áttum þar notalega tíma.
Við foreldrarnir fengum smá veruleikaskell en Oliver hóf ökunám í byrjun mánaðarins, *jæks* Dagný missti röddina um miðjan mánuðinn en röddin hafði áður verið til vandræða í júní en kom aftur þegar við vorum komin til Ítalíu en nú var þetta aðeins lengri törn en röddin mætti ekki aftur á svæðið fyrr en í des þrátt fyrir allskonar pælingar og tilraunir, tími hjá HNE lækni í nóvember!
Mæðgurnar kíktu á Skólavörðustíginn og fylgdust með Gaypride göngunni í dásamlegu veðri.
Rútínan hófst á ný en Oliver byrjaði í MR um miðjan mánuðinn og stelpurnar héldu áfram í Seljaskóla. Sundæfingarnar héldu auðvitað áfram og nú varð sú breyting á að Sigurborg færðist upp í Brons hóp en það þýðir að nú eru öll systkinin á æfingum niðrí Laugardal og eru æfingarnar á sama tíma þannig að þau fylgjast að – aðeins auðveldara fyrir okkur foreldrana! Dagný og Sigurborg Ásta kíktu á Leikhópinn Lottu í Mosfellsbænum og hittu þar Sirrý og strákana sem Sigurborgu Ástu fannst nú ekki leiðinlegt enda elskar hún að vera í kringum litla krakka og hljóp fúslega á eftir Hilmi Hrafni þegar hann gerði tilraunir til þess að stinga af.
Við fórum loksins í fermingarmyndatöku með Ásu Júlíu og fengum gullfallegar myndir frá Thelmu Gunnarsdóttur ljósmyndara, svo skemmtilega vildi til að dagsetningin sem varð fyrirvalinu var einmitt á 11 ára brúðkaupsafmælisdegi foreldranna.
September
Rútínan að komast í réttan farveg. Oliver skellti sér í nýnemaferð með skólanum og kom heim algjörlega snoðaður en hann hafði verið með vænan lubba við brottför – drengurinn byrjaður að blómstra í nýjum skóla og það hélt bara áfram eftir því sem leið á mánuðinn. Endalausar sögur og gleði sem er áberandi þessar fyrstu vikur i nýjum skóla.
Sigurborg Ásta fór til augnlæknis í upphafi mánaðar en við höfðum fengið ábendingu eftir rútínu heimsókn hjá skólahjúkrunarfræðingi í vor að Sigurborg Ásta ætti líklegast að kíkja til augnlæknis þar sem hún kom ekki nógu vel út úr sjónprófinu. Við höfðum farið með hana til augnlæknis rétt áður en hún byrjaði í 1.bekk og sá augnlæknirinn þá ekkert athugavert en nú var sagan önnur, daman búin að þróa með sér svokallað latt auga og fyrirskipanir um að vera með augnlepp alltaf þegar færi væri á utan skóla og gleraugu á nebbann með þónokkuð miklum styrk en ekki fullum þó. Nýtt verkefni komið á borð fjölskyldunnar.
Foreldrarnir skelltu sér í helgarferð til Vestmanneyja með starfsmannafélaginu á HNIT þar sem við kíktum meðal annars á Mjaldrana, í heimsókn á Brothers Brewery og fengum dýrindis mat í Agoges salnum á vegum Einsa Kalda.
Stelpurnar fóru báðar í hópefli með sundhópunum sínum, sú yngri í keilu og þá með nýju fínu gleraugun en sú eldri í LazerTag utandyra í Skemmtigarðinum.
Oliver fékk æfingaakstur og við tók stresstímabil hjá foreldrunum að hafa frumburðinn undir stýri.
Fyrsta fjáröflun vetrarins – Gulrótasala lenti annsi vel og mikið á Dagnýju en hún tók á móti yfir 200kg af gulrótum og sá um að dreifa á alla þá sem tóku þátt að þessu sinni í Sundhópnum.
Í lok mánaðarins skelltu Dagný og Ása Júlía sér til Edinborgar en við höfðum gefið Ásu Júlíu í fermingargjöf helgarferð til borgar að eigin vali innan Evrópu með ferðafélaga (innan fjölsk) að eigin vali, hvort sem það væri 1 eða 4. Þar nutu mæðgunar sín í rölti um borgina, skoðandi áhugaverða staði sem tengdir voru uppáhalds bókum Ásu Júliu – Harry Potter.
Október
Mæðgurnar skelltu sér á Draumaþjófinn í Þjóðleikhúsinu en Sigurborg Ásta var búin að bíða annsi lengi eftir að komast á þá sýningu og kunni nánast öll lögin utanað. Loksins kom lagið sem Sigurborg Ásta söng með kórvinkonunum ásamt hljómsveitinni STORÐ út á Spotify en mikill spenningur var búinn að vera í loftinu hjá dömunum yfir því., lagið heitir Deep Black Waters og er af disknum “Black Waters” og syngja stelpurnar erindi í miðju laginu á Latínu.
Nýr fataskápur var settur upp i herberginu hennar Ásu Júlíu við mikla gleði Dagnýjar en hún hafði átt í ástar/hatursambandi við gamla innbyggðaskápinn sem var þar fyrir. Dæmið gekk þó ekki upp án smá árekstra sem Leifi tókst að pússa niður í annarri tilraun!
Við fylgdum mömmu Sverris hinsta spölinn um miðjan mánuð <3
Stelpurnar í fjölskyldunni skunduðu niður í bæ á Kvennaverkfallsdeginum ásamt mörgþúsund öðrum konum og kvárum – það var mögnuð upplifun.
Sigurborg Ásta var valin af bekkjarfélögum sínum í verkefnið Leiðtogi í leik en þar skiptast krakkarnir á að standa fyrir leikjum í skólanum og þykir þetta vera ákveðinn heiður.
Vetrarfríið var nýtt í kleinubakstur þann fyrsta án Jóhönnu ömmu og þó, hún var í símanum 😉 Oliver var fljótur að leggja fram kvörtun enda átti í hans huga enginn að sjá um þetta nema Jóhanna amma! Mæðgurnar fóru líka í heimsókn í Noztra studio og máluðu þar á keramik – pottþétt eitthvað sem þarf að gera aftur.
Ása Júlía náði takmarki inn á AMÍ nú um miðjan mánuðinn en í upphafi sundársins var tilkynnt að breyta ætti aldursmörkunum og verður þetta því hennar síðasta AMÍ – vonandi kemst Sigurborg Ásta líka inn.
í lok mánaðar var svo Hrekkjavakan að vanda með tilheyrandi graskerjaútskurði og búningalátum, Sigurborg Ásta og Leifur föndruðu “blýant” á einnota lepp og þannig gekk Sigurborg Ásta um heilan dag, líkt og hún hefði fengið blýant í augað! óhætt að segja að sumum hafi brugðið að sjá barnið svona… Oliver hafði pantað “Pork pie” hatt og svört sólgleraugu frá mæðgunum í Edinborgarferðinni og Ása Júlía stal fermingarskyrtunni hans Olivers í Harry Potterbúning, þeir sem ekki kveikja þá var Oliver Walter White aka Heisenberg úr sjónvarpsþáttunum Breaking Bad en það er einn af hans uppáhalds þáttum og að hans sögn ein af ástæðunum fyrir því að hann ákvað að fara í spænsku í MR.
Nóvember
Sundmótamánuðurinn mikli en allir krakkarnir voru að keppa, hvert í sínu lagi eða að hluta. Nóg að gera í sundskuttli. Oliver tók þátt í ÍM25 (íslandsmeistaramót í 25m laug) og náði ágætis árangri þar, bestum þó í boðsundi í 100m skriðsundi (þar syndir hver liðsmaður 100m skriðsund þannig að heildar vegalengdin er 400m) með félögum sínum en þeir náðu að krækja í bronsið og fögnuðu líkt og þeir hefðu unnið gullið – verðskuldaður sigur þar.
Sigurborg Ásta fagnaði fyrsta tugnum með keiluferð og pizzaveislu. Við kíktum á Jólaþorpið í Hafnarfirði og nældum okkur þar í dýrindis graflax ala Fiskás.
Við hittumst í Mýrarásnum og skárum út laufabrauð með stórfjölskyldunni og enduðum í pizzaveislu þegar búið var að klára steikinguna – 140 kökur takk fyrir pent.
Desember
Síðasti og annasamasti mánuður ársins – allir að bæta við auka hittingum og gleði. Við fórum með Hnit á jólahlaðborð á Fjörukránni og hittumst heima hjá Ásthildi lækni í jólamat með Heilsugæslunni. Sigurborg Ásta söng á aðventukvöldi í Seljakirkju með kórnum og í barnamessu á Aðfangadag.
Oliver tók jólaprófin í MR – fyrstu alvöru prófin hans þar sem hann stóð sig prýðilega og var mjög sáttur við útkomuna, sérstaklega þar sem hann gaf lítið sem ekkert eftir á sundæfingum í haust. Stelpurnar fengu einnig flottar umsagnir í skólanum.
Sigurborg Ásta var ásamt bekkjarfélögum búin að vera að æfa leikritið Blái Hnötturinn ásamt bekkjarfélögum í haust og fengum við að sjá afrakstur æfinganna rétt áður en jólafríið hófst, ekkert smá flott og metnaðarfult hjá krökkunum og kennurunum þeirra.
Dagný og stelpurnar fóru ásamt Magga afa og félögum í Lionsklúbbnum Ægi austur á Sólheima í Grímsnesi til að vera viðstödd Litlu jólin með íbúunum þar. Alltaf jafn notalegt og ákveðin hefð að byrja aðventuna þar. Verst að Jóhanna amma náði sér í einhverja kvefpest ofaní brot í bringubeini þannig að hún treysti ser enganvegin austur en allur desember og reyndar megnið af nóvember litaðist af veikindum ömmu, hún hitti lækni á innkirtladeild LSH í lok desember sem vildi setja hana aftur á beinþéttnilyf þó svo að beinþéttnimæling í sumar hefði komið vel út en undarlegt brot var grunsamlegt.
Eftirminnilegt var að í vikunni fyrir jól byrjaði að gjósa í nágrenni Grindavíkur og var það svo öflugt að við sáum bjarmann vel hérna uppi i risi.
Jólin voru haldin heima í K48 ásamt Magga afa og Jóhönnu ömmu, ósköp notalegt kvöld sem við áttum saman. Jóladagur var sannkallaður náttfatadagur þar sem jólapúslið var aðalmálið enda lágum við öll 5 yfir því og kláruðum á nokkrum klst eða rétt í tæka tíð svo hægt var að loka púslmottunni og leggja á borð fyrir jóladagsmatinn.
Jólaboð Álfanna var á annan í jólum heima hjá Sigurborgu og Tobba þetta árið og þar var Önd ala Tobbi í aðalrétt en seinkun varð á að bera matinn á borð vegna snjóhúsabyggingar yngri kynslóðarinnar en systkinabörnin fóru öll 9 saman út og undir verkstjórn Olivers og Hrafns Inga var ríflega 2m hátt snjóhús byggt á rétt um 3klst og skilst mér að það standi enn viku síðar þó búið að fíkta eitthvað í því. En þessi minning mun svo sannarlega lifa í huga barnanna það sem eftir er. Hrafn Ingi og Oliver voru einmitt í því að rifja upp síðast þegar þeir verkstýrðu yngri krökkunum í álíka smíði en með aðstoð google photos komumst við að því að það var rétt rúmlega 6 árum áður eða í nóvember 2017 hérna í Kambaselinu – voru þeir frændur nokkuð vissir um að það hús hefði verið stærra… ekki var alveg tekið inn í reikninginn þar að þeir sjálfir voru örfáum cm lægri í loftinu.
Við nutum þess að vera saman í fríii dagana á milli jóla og nýárs og gerðum mest lítið annað en að vera saman.
Fjölskyldan kvaddi árið 2023 í góðum félagsskap íbúa S23 og S37 hjá þeim fyrrnefndu. Dásamlegt kvöld þar sem við kvöddum eftirminnilegt ár og hlökkum svo sannarlega til þess að skapa minningar á því nýja <3