Hvar værum við ef við gætum ekki rifjað upp árið með ljósmyndum þegar við skrifum annál ársins? Sem betur fer erum við hjónin nokkuð dugleg að smella af myndum en mættum samt vera enn duglegri við það. Dagný hefur a.m.k. sett sér það áramótaheit aftur að taka mynd á dag. Hvar þær verða birtar er svo annað mál. Síðast var það á instagramreikninginum hennar.
Árið er búið að vera allskonar hjá fjölskyldunni og ætlum við að stikla á stóru hér 🙂
Janúar
Við buðum árið velkomið í sprengjuflóði heima í Kambaselinu. Vorum dugleg að skella okkur í göngutúra framan af og vorum með ákveðnar hugmyndir tengdum þeim sem því miður gengu ekki upp hjá okkur seinni hluta ársins en vonandi með nýju ári.
Sigurborg Ásta fór í sína fyrstu bólusetningu gegn vágesti undanfarinna ára sem hélt því miður áfram að rugla í okkur á árinu.
Baðherbergisframkvæmdir héldu áfram sem og hinar stórskemmtilegu sóttkvíarskipanir hjá krökkunum. Ása lenti líka í smá meiðslapakka í sundinu sem endaði á sjúkraþjálfun hjá Guðrúnu fyrrum samstarfsfélaga Dagnýjar hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur.
Árið byrjaði reyndar ekkert skemmtilega í vinnunni hennar Dagnýjar en á sjálfum þrettándanum bilaði vatnsleiðsla í vatnsvélinni á kaffistofunni og á móti þeim sem mætti fyrstur tók vænn pollur um allt gólf í starfsmannarýminu og var það byrjunin á ansi “skemmtilegum tíma” sem seint sá fyrir endann á.
Krakkarnir héldu öll áfram í sundi en Sigurborg Ásta færði sig upp um hóp og telst nú vera Lax. Olli tók þátt í RIG (Reykjavík International Games) og stóð sig þar með prýði í þeim greinum sem hann keppti í en Dagný endurtók leikinn frá í fyrra og vann á mótinu til þess að geta fylgst með drengnum “live”.
Leifur tók þátt í alþjóðlegu móti í Flames of War spilinu sem haldið er hér á landi og nefnist PolarBear.
Febrúar
Tilkynnt var hvert haldið yrði í æfingabúðir í ágúst í sundinu og plön lögð að fjölskyldufríi með aðeins eitt barn, frekar furðuleg tilhugsun það en Ása og Olli fara í æfingabúðir á meðan Sigurborg fær að njóta tímans með okkur gamla settinu.
Sigurborg Ásta fékk að hitta nýjasta fjölskyldumeðlim Unnar Hildar vinkonu sinnar hann Sigmar Inga en hann fæddist nú í janúar.
Við fjölskyldan skelltum okkur í smá svaðilför í sumarbústað í Borgarfirðinum – mikill snjór og mjög kalt á svæðinu en bústaðurinn flottur nutum við helgarinnar þar.
Ása og Olli kepptu svo á skemmtimóti SSR og gekk báðum ágætlega en umfram allt skemmtu sér vel. Oliver tók einnig þátt í framtíðarhópshelgi hjá sundsambandinu.
Oliver tók þátt í Pangea stærðfræðikeppninni og komst áfram í næstu
Leifur undirbjó og stýrði Reykjavíkurþingi og tók að sér að vera í yfirkjörstjórn í prófkjörinu fyrir komandi kosningar.
Við hjónin fórum á uppistand með Sóla Hólm í bæjarbíói ásamt góðum vinum – mikið hlegið og lá við harðsperrum í magavöðvum næstu daga 🙂
Mars
Framtíðarhópshelgin dró aldeilis dilk á eftir sér en þegar Olli kom heim af sundæfingu þriðjudaginn 1.mars óskaði hann eftir því að við tækjum úr honum heimapróf fyrir Covid og viti menn það var jákvætt þótt það hefði ekki greinst jákvætt fyrr en í fjórðu sýnatöku á Suðurlandsbrautinni! Þá höfðu þónokkrir krakkar smitast þessa helgi og var Olli einn af þeim. Stelpurnar fylgdu svo bróður sínum fast á eftir og eyddum við marsmánuði að mestu í Covidveikindi – þó bara börnin. Covid var ansi lengi að yfirgefa Olla en þrátt fyrir að hafa verið nokkuð hress á meðan á veikindunum stóð var hann lengi með hitavellu sem hélt honum frá skóla og æfingum.
Ása og Olli náðu þó bæði að uppskera vel eftir alla vinnuna á síðasta sundári og voru bæði verðlaunuð á uppskeruhátíð sundfélagsins. Ása Júlía fékk viðurkenningu fyrir framfarir og ástundun á tímabilinu. Oliver með heiðursverðlaunum sem nefnast Guðrúnarbikarinn :
Guðrúnarbikarinn er viðurkenning, sem Sundfélagið Ægir veitir þeim
sundmanni úr drengjaflokki sínum og þeirri sundkonu úr telpnaflokki sem best hafa
staðið sig á nýliðnu keppnistímabili. Viðurkenning þessi er veitt í minningu Guðrúnar
Einarsdóttur, fyrrum formanns Foreldra- og styrktarfélags Sundfélagsins Ægis.
Marsmánuður var reyndar ótrúlega viðburðarríkur fyrir Ásu en fyrstu gleraugun voru valin og smellt á nefið um miðjan mánuðinn sem henni fannst merkilega spennandi. Hún tók einnig þátt í forkeppni Seljaskóla fyrir Stóru Upplestrarkeppnina og stóð sig mjög vel þar þrátt fyrir að hafa ekki komist í lokakeppnina fyrir hönd skólans.
Fjölskyldan fór út að borða með Magga afa og Jóhönnu ömmu í tilefni stórafmælis ættföðursins en hann fagnaði 80 árum í lok mánaðarins.
Apríl
Sigurborg Ásta tók þátt í sínu fyrsta sundmóti í byrjun mánaðarins og stóð sig virkilega vel, ekkert lítið mál að synda í nýrri laug og það með einhverjum reglum sem ekki eru tilstaðar á æfingum í Breiðholtslauginni hjá Írisi.
Við skelltum okkur líka í leikhús, fjölskyldan að sjá Kardimommobæinn en sú sýning átti reyndar að vera í byrjun árs þegar henni var frestað vegna Covid.
Oliver fór í 3 fermingarveislur hjá vinum sínum í sundinu.
Dagný féll í Covidvalinn í byrjun mánaðarins en fór sem betur fer nokkuð auðveldlega í gegnum þann tíma. Leifur harðneitaði að smitast.
Oliver keppti á Íslandsmeistaramótinu í 50m laug og rúllaði hann þar upp gömlum tímum og átti í heild mjög flott mót. Hann hafði líka tekið þátt í stærðfræðikeppni grunnskólanna í Borgarholtsskóla og fékk þar viðurkenningu fyrir góðan árangur, lenti í 4. sæti 9. bekkinga. Aprílmánuður var mánuður prufa hjá Oliver en hann tók einnig þátt í Skólahreysti fyrir hönd Seljaskóla og sá þar um upphífingar og dýfum – hefði getað gert betur en þetta var ákveðin upplifun 🙂
Reykjavíkurmeistaramótið í Sundi var loksins haldið í lok mánaðar og stóðu Ægiringarnir uppi sem sigurvegarar annað árið í röð!
Leifur tók við sem varaformaður Varðar fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Systkinin voru öflug í undirbúningi páskaeggjaleitar Sjálfstæðisflokksins og aðstoðuðu pabba sinn í að sjóða og mála yfir 1000 hænuegg. Oliver brá sér svo í hlutverk páskakanínunnar í Elliðárdalnum og faldi egg þar ásamt fleiri sjálfboðaliðum. Við fórum svo í “alvöru” páskaeggjaleit í Sólheimana ásamt fjölskyldunni í Mýrarásnum og áttum þar notalega tíma.
Við hjónin skelltum okkur til Prag með vinnunni hans Leifs í árshátíðarferð. Áttum þar notalegan tíma þar sem mikið var rölt og ýmsilegt skoðað. Árshátíðin sjálf var um borð í bátnum Agnes de Bohemia sem silgdi með okkur um Moldá á meðan á borðhaldi stóð.
Við hjónin náðum líka að fara á tónleika með Marc Martel – Ultimate Queen Celebration ásamt góðum vinum.
Maí
Afmælismánuður frumburðarins rann upp og hafði hann ákveðnar skoðanir á mat að vanda. Hann hafði verið að stúdera Créme brulé í vor og að sjálfsögðu var það desert dagsins.
Vorferð Heilsugæslunnnar á Seltjarnarnesi var farin í byrjun mánaðarins og var haldið austur fyrir fjall upp og niður Búrfell í Grímsnesi áður en við fórum í bústaðinn til Brynju og Árna þar sem allir sameinuðust á ný.
Haldin var “barnasturta” (e. Babyshower) fyrir Sirrý vinkonu Dagnýjar sem heppnaðist mjög vel – litli drengurinn er væntanlegur í júlí en Ásta systir Sirrýja vildi ekki taka neina áhættu og hélt gleðina vel fyrir settan dag enda var stóri bróðirinn að flýta sér og mætti rúmlega mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.
Leifur var í fullri vinnu á Kjördag og tók að sér hlutverk fulltrúa umboðsmanns og var á fullri ferð á milli kjörstaða borgarinnar allan daginn og var langt fram á nótt í eftirliti með talningu atkvæða í Laugardalshöllinni.
Sigurborg Ásta bauð okkur í “leikhús” í Bláberinu en bekkurinn hennar setti upp leikritið Ronja ræningjadóttir og var Sigurborg Ásta í hópi rassálfana.
Ása Júlía keppti á sundmóti í Keflavík og skemmti sér stórvel.
Heilsugæslan bauð starfsfólkinu á einskonar uppskeruhátíð eftir stórverkefni síðustu 2 ára þar sem Páll Óskar hélt uppi fjörinu í Gullhömrum – stórskemmtilegt kvöld!
Kartöflugarðurinn í Birtingaholtinu var tekinn í nefið og fyrstu kartöflurnar settar niður ásamt nokkrum forræktuðum plöntum.
Við tókum líka fysta skammt af rabarbara úr garðinum sem breyttist fljótt í “Barbapabbasafa” – ljúffengt það!
Við hittumst svo og grilluðum í fallegum lundi, Furulundi, í Heiðmörkinni foreldrar Leifs og systkini ásamt mökum og krakkahópnum okkar og fögnuðum afmælisdegi Ingu. Fengum virkilega fallegan dagspart og nutum samverunnar.
Júní
Ása Júlía fór í skólaferðalag austur fyrir fjall og nutu þau sín í ísklifri í Sólheimajökli, heimsókn í Lava Center, sundferð og margt fleira enda komu vinkonurnar alsælar heim úr ferðinni. Næsta ferð var ekki langt undan enda Akranesleikar á dagskrá hjá báðum systrunum og gistu þær frá föstudegi til laugardags og Ása áfram frá laugardegi til sunnudags. Þær stóðu sig báðar vel og náði Sigurborg Ásta að yfirstíga það að synda í splunkunýrri laug þar sem hún þekkti ekki aðstæður með hjálp stóru systur. Náði hún einnig þeim árangri að klára fyrst sundið í sínum riðli og uppskar svokölluð riðlaverðlaun – ekkert lítið ánægð daman þar.
Skólaslit og sumarfrí hjá krökkunum tók við. Sigurborg Ásta fór á skátanámskeið með Unni Hildi hjá Árbúum sem og sumargamannámskeið hjá ÍR. Systurnar fóru svo báðar ásamt Ingibjörgu frænku sinni á Reiðnámskeið hjá Faxabóli og nutu þær allar sín alveg í botn þar og ekki skemmdi fyrir að þær eyddu í flestum tilfellum öllum deginum saman í framhaldi námskeiðisins.
Krakkarnir fóru í hina árlegu bílferð með Krúserunum um miðbæ Reykjavíkur á 17. júní og nutu sín í botn með Magga afa og Garðari frænda.
Oliver keppti á AMÍ í Keflavík og var það hans síðasta AMÍ, var hann yfirpeppari stráka á meðan á mótinu stóð ásamt Huldu Björgu sem var fyrir hönd stelpnanna. Ása Júlía var ansi öflug á bakkanum og hvatti alla Ægiringa óspart áfram.
Júlí
Oliver ákvað að taka annað ár sem leiðbeinandi hjá Sundskóla Ægis í Breiðholtslaug og naut sín í botn þar.
Stefán Einars frændi frá USA og fjölskylda komu aftur til landsins í byrjun júlí en í þetta sinn var systir hans og hennar fjölskylda með í för. Blásið var til hittings á kaffihúsi á Kjarvalsstöðum og mættu mun fleiri en búist var við – Dásamlegur dagspartur þar.
Ævintýraleg útilega í Húsafell sem breyttist í sumarbústað í Munaðarnesi eftir ansi troðna bílferð þar sem dekk á felgu tók mest allt plássið í fanginu á Oliver í aftursætinu á Rav-inum. Planið var að fara í útilegu með Sigurborgu og Tobba í Húsafell en við fengum símtal rétt áður en við héldum af stað úr borginni með MAYDAY frá þeim breyttist sú útilega í að við foreldrarnir og elsta og yngsta barnið gistum í Bústað sem foreldrar Tobba eiga í Munaðarnesi en hin börnin öll gistu í tjaldi úti á túni – Hvellsprungið dekk annað árið í röð þar sem systkinin ætla í útilegu, þetta er eiginlega hálfgerð lygasaga.
Við náðum að eiga dásamlegan dagspart með afkomendum SVIK í Skeiðarvoginum þegar Hanne og Moibe komu til landsins frá Svíþjóð í lok júlí.
Ágúst
Sumarfrí á alla! já takk!
Tenerife var áfangastaðurinn og plan foreldranna og Sigurborgar Ástu var að hangsa við sundlaugina, rölta um nágrennið og gera nokkurnvegin það sem okkur sýndist!
Ása og Olli mættu á æfingu 2x á dag og héldu sig í skugga og ró á milli æfinga.
Við fengum þó nokkra dagsparta með sundgörpunum þar sem farið var m.a. á ströndina, í tivolí, í verslunarferð og síðast en ekki síst Siam Park.
Við heimkomu beið okkar baðherbergisinnrétting *loksins* og var hún sett upp í framhaldinu eftir að Leifur eyddi nóttinni eftir flugið í að fúga flísarnar.
Ása Júlía fagnaði afmælinu sínu með pylsupartýi fyrir fjölskylduna.
Okkur tókst að kíkja í berjamó og ná okkur í vænan skammt af krækiberjum áður en skólinn hófst á ný hjá krökkunum.
September
Velkominn september með allri sinni rútínu! Krakkarnir byrjaðir í skólanum aftur og núna alllir komnir af stað í sundinu á ný. Ása og Olli byrjuðu aftur stuttu eftir heimkomu frá Tenerife en nú sem Silfur og Gull sundmenn og Sigurborg Ásta áfram í Löxunum í Breiðholtslaug.
Leifur var á hafnaráðstefnu á Akureyri í byrjun mánaðar og ákvað Dagný að skella sér norður til hans fyrstu helgina í sept og áttum við virkilega notanlegan tíma á Akureyri bara tvö.
Ása Júlía byrjaði í fermingarfræðslu og var ákveðinn fermingardagurinn 6.apríl 2023 sem er skírdagur.
Dagný fékk loksins að hitta nýja vin sinn Sirrýjarson en hann fæddist í lok júlí sl.
Leifur var búinn að vera í smá “fríi” frá flokknum en nú fór allt á fullt aftur fyrir komandi Landsfund.
Október
Við byrjuðum mánuðinn á að fara í haustferð Hnit þar sem rúntað var um á fjórhjólum í nágrenni Hafravatns. Þegar við komum til baka biðu okkar kennarar frá Kokteilskólanum sem kenndu okkur að blanda 2 tegundir af kokteilum. Við létum svo líða úr okkur í Sky Lagoon og nutum hverrar mínútu í góðum félagsskap.
Hið ótrúlega gerðist en Dagný fékk að flytja aftur á sinn stað í vinnunni en viðgerðum lauk eftir 10 mánaða rugl á vinnusvæðinu hennar. Þeim er þó ekki alveg lokið þar sem svo margt kom í ljós sem ekki er í lagi en það var hægt að setja starfsstöðvarnar aftur á rétta staði og koma hlutum ca á rétta staði – LOKSINS.
Leifur skellti sér ásamt Sverri í Churchill ferð til London. Þar eyddu þeir langri helgi í að fræðast um og skoða staði sem tengjast Winston Churchill. Eftir ferðina fór allt á fullt í starfsemi “Hulduhersins” og var mikið planað, fundað og ótal símtöl bárust honum.
Á meðan þeir félagar voru í London skelltu Dagný og Iðunn sér á tónleika með SSSól og út að borða í framhaldinu og sungu með öllum “gömlu góðu” lögunum.
Við hjónin skelltum okkur svo á 60 ára afmælistónleika Gumma Jóns stuttu síðar sem voru hreint út sagt dásamlegir – þótt tónlistin hafi verið að mörgu leiti frá sama tímabili og tónleikarnir með SSSól þá voru þessir tónleikar bara svo allt allt öðruvísi.
Sigurborg Ásta byrjaði í kór Seljakirkju með Unni Hildi, Sölku og Berglindi vinkonum sínum úr skólanum og nýtur sín þar í botn.
Dagný og stelpurnar drifu sig í Birtingaholtið og hjálpuðu Jóhönnu ömmu í sláturgerð. Ása Júlía er náttúrutalent í öllum þessum gömlu handbrögðum og fann fljótt réttu tökin í þessu rétt eins og í kleinugerðinni!
Tæknin kom sér e.t.v. ágætlega líka þegar krakkarnir skáru út graskerin fyrir hrekkjavökuna 😉
Við enduðum svo mánuðinn á þriðju tónleikum mánaðarins! Þessir voru reyndar bókaðir í byrjun desember í fyrra. Skálmöld á afmælisdegi Iðunnar vinkonu með henni og fleiri góðum vinum.
Nóvember
Landsfundurinn – Leifur hafði verið á fullu alla vikuna og það róaðist ekkert fyrr en nokkrum dögum eftir fundinn. Þetta var mikil keyrsla þar sem hann vann mikið fyrir Gulla og framboð hans til formanns flokksins. Við hin sáum hann varla þessa vikuna.
ÍM í 25 metra laug og Oliver keppti þar í sínum greinum. Honum gekk mjög vel en einhverra hluta vegna þá líður honum sjaldnast vel í þessari laug (Ásvallalaug) og á ekki sína bestu daga þar.
Sigurborg Ásta bauð í afmæli á milli greina á ÍM hjá Olla og gekk það allt saman eins og í lygasögu.
Stelpurnar kepptu svo á aðventumóti Fjölnis í lok mánaðar og stóðu sig með prýði þar. Ása Júlía keppti loksins í grein sem hún á möguleika á að ná lágmarki fyrir á AMÍ en hún er búin að vera að kljást við verki í hnjám í haust og ekki treyst sér í lengri greinar, en hún rúllaði þessari grein upp og er svo grátlega nálægt því að komast inn á næsta ári – krossum fingur og vonum hið besta. Sigurborg Ásta rúllaði sínum greinum upp eins og ekkert væri sjálfsagaðara.
Sigurborg Ásta söng með samsettum kór Seljakirkju, Seljaskóla og Grindavíkur á aðventukvöld í Seljakirkju á fyrsta í Aðventu – þær stóðu sig mjög vel og sungu eins og englar.
Leifur kláraði loksins sturtuna og við fengum Kjartan til að hjálpa við að tengja hana. Það var langþráð að komast í alvöru sturtu í fyrsta skipti í tæpt ár.
Við lukum mánuðinum á jólahlaðborði með vinnunni hans Leifs í Skíðaskálanum í Hveradölum. Dásamlegt kvöld og góður matur að ónefndum félagsskapnum.
Desember
Næsta jólahlaðborð var í vinnunni hennar Dagnýjar og var mikið um gleði og galsa þar ásamt góðum mat.
Leifur skellti sér í strákaferð í bústað í Geðbót þar sem þeir nutu sín í botn í rétt rúman sólarhring.
Dagný og krakkarnir fóru sömu helgi ásamt Magga afa og Jóhönnu ömmu í ferð austur í Sólheima í hin árlegu “litlu jól” í Sólheimum. Dásamlegur tími og markar klárlega upphaf aðventunnar hjá okkur öllum.
Við hýstum laufabrauðið í ár en því miður urðu smá afföll vegna veikinda en bæði Skúli og Gunnar urðu frá að hverfa í þetta sinn. Kertasníkir síkáti jólasveinninn mætti í heimsókn, yngstu kynslóðinni til mikillar ánægju.
Oliver keppti á Bikarkeppni Sundsambandsins í ár þar sem sundfélögin keppa hvert gegn öðru. Dagný fór til Keflavíkur í fagurgulri viðvörun ásamt Ásu til þess að styðja við bakið á Ægiringum. Mikið ævintýri varð sú ferð en það snjóaði svo mikið á meðan á mótinu stóð að skóflan sem Dagný skellti í skottið kvöldið fyrir brottför kom sér mjög vel þó svo að ekki hafi þurft að moka Rav-inn lausann. Ægiskrakkarnir stóðu sig vel en því miður þá féllu strákarnir um deild sem var eiginlega bara vegna þess að því miður þá höfum við ekki nægilega marga stráka í liðinu. Leifur og Sigurborg voru heima að baka piparkökur með góðri hjálp frá Unni Hildi vinkonu Sigurborgar.
Dagný og stelpurnar skelltu sér á jólaball Heilsugæslunnar í Laugardalshöllinni og var það hin fínasta skemmtun, eitthvað var þó um afföll vegna færðar. Sigurborgu var boðið í skautapartý til Berglindar vinkonu sinnar en pabbi hennar hafði útbúið skautasvell í garðinum við mikla gleði krakkanna – nóg er nú frostið!
Við áttum dásamleg jól heima í Kambaselinu með foreldrum Dagnýjar og Hjördísi móðursystur hennar. Krakkarnir nutu sín í botn og fengu fullt af fallegum gjöfum. Dagný náði sér þó í einhverja pest og er rétt að ná sleninu úr sér þegar þetta er skrifað. Leifur og krakkarnir fóru í jólaboð í Mýrarásinn á annan dag jóla og áttu þar frábært kvöld með Álfunum og viðhengjum.
Við kvöddum árið í Sólheimunum í ár með Ingu, Skúla, Sigurborgu, Tobba og börnum …og Kviku – dásmlegur matur og enn betri félagsskapur. Við keyptum engar sprengjur í ár enda var spáin hræðileg fyrir flugelda, við nutum hinsvegar útsýnisins í botn í Sólheimunum og þá fegurð sem flugeldarnir mynda á himninum.