Síðustu rúma vikuna hefur pabbi dvalið í góðu yfirlæti á Hjartadeild LSH á Hringbraut og verður þar eitthvað aðeins áfram.
Þannig er að hann fór í hjartastopp á gangi er hann var á leiðinni heim af Aflagrandanum. Fyrir utan F65 hnígur hann niður í hjartastoppi. Sem betur fer þá er Jón Ársæll að vinna inni á skrifstofu sem snýr út að Framnesveginum og sér þegar pabbi hnígur niður.
Hann hleypur út og byrjar ásamt 2 konum sem einnig komu að að veita pabba fyrstu hjálp á meðan Steinunn hringir í 112.
Mér skilst að það hafi liðið mjög stuttur tími (skv síma Steinunnar innan 5 mín) frá því að símtalið barst þar til sjúkrabíllinn kom. Snöggt viðbragð sjúkrabílsins og sú aðstoð sem Jón og þessar konur veittu pabba hafa líklegast bjargað honum.
Hann þurfti samt að vera stuðaður, skv Jóni og Steinunni, 2x á götunni og líklegast 1x til viðbótar í sjúkrabílnum.
Jón hafði samband við mig í vinnuna þar sem þau náðu ekki í mömmu en hún hafði skroppið frá. Mér skilst að ég hafi verið komin af stað frá Heilsugæslunni áður en sjúkrabíllinn lagði af stað en ég fann mömmu og við vorum mættar á LSH Hringbraut stuttu á eftir sjúkrabílnum.
Mér þótti það ósköp gott að á móti okkur mæðgum tóku afskaplega vinalegu augu hennar Bimbu (hjúkku, var að vinna með mér og var líka með mér í Hagaskóla). Hún gat strax veitt okkur upplýsingar um að pabbi væri kominn og að það væri verið að undirbúa hann í hjartaþræðingu.
Hún fylgdi okkur á biðstofu fyrir aðstandendur á gjörgæslunni. Þar kom til okkar gjörgæsluhjúkrunarfræðingur og ræddi við okkur um stöðuna og hverju búast mætti við. Einnig kom til okkar hjartalæknir sem hafði séð um þræðinguna og í ljós kom að æðarnar hans eru í ljómandi góðu standi, mv líkamsvöxt og aldur.
Ákveðið var að kæla hann niður og halda honum sofandi í sólarhring til þess að lágmarka skaða sem hjartastopp getur valdið. Honum var semsagt haldið í kælingu og sofandi frá miðvikudagskvöldi og byrjað var að hita hann upp á fimmtudagskvöldi og létta svæfinguna í framhaldi af því á föstudeginum. Hann sýndi okkur lítil viðbrögð þegar við vorum hjá honum á föstudegi en þó aðeins þegar ég sagði “pabbi þetta er grenjó, viltu opna augun fyrir mig?” – hann hrissti hausinn.
Hann var farinn að vera meira vakandi á laugardeginum og á sunnudegi var ákveðið að staðan væri orðin nægilega góð til þess að hægt væri að flytja hann af gjörgæslu yfir á hjartadeildina þar sem hann dvelur nú.
Við mæðgur fengum báðar að vera hjá honum á meðan hann lá inni á gjörgæslunni sem okkur þótti nú ekki sjálfgefið á þessum Covid tímum en erum afskaplega þakklátar fyrir það en þegar hann var kominn yfir á hjartadeildina breyttist það yfir í 1 gest á dag og höfum við mæðgur skipst á að fara til hans.
Hann er allur að koma til og líkist sjálfum sér meira og meira – þó stefnir í að hann verði innliggjandi yfir jólin en vonandi fáum við hann heim fyrir nýja árið <3
Það er alveg óhætt að segja að við eigum nágrönnum foreldra minna mikið að þakka sem og þeim sem vöktu yfir honum að hann skildi ekki fara í hjartastoppið aðeins seinna, t.d. þegar hann var að labba upp tröppurnar heima eða kominn inn því hann hefði þá verið einn heima þar sem mamma skrapp frá.
Engin orð eða gjörðir fá því þakklæti lýst að Jón og Steinunn skyldu vera heima, að Jón skyldi vera að vinna við tölvuna sína akkúrat þarna, líta upp og sjá pabba hníga niður.
Okkur mæðgum hefur verið sagt oftar en einusinni að það hafi verið pabba til lífs að Jón skyldi sjá þetta gerast og geta veitt fyrstu hjálp með aðstoð frá öðrum vegfarendum þar til sjúkrabíllinn kom.
Pabbi bað okkur mæðgur að koma með nokkra (slatta) jólasveina til þess að gefa yndislega starfsfólkinu sem sinnt hefur honum þennan tíma.
Þegar ég heimsótti hann áðan dró sjúkraliðinn í hans teymi í kvöld mig inn á kaffistofuna þeirra til að sýna mér hvað þau höfðu nýtt hluta af þeim í <3