Jæja… árið er senn á enda og kominn tími til að gera árið upp á minn hátt <3
Ég er búin að vera að velta því fyrir mér hvort ég ætti að gera þetta mánuð fyrir mánuð líkt og ég hef gert svo oft áður en ég er eiginlega á báðum áttum hvað það varðar… reyndar líka á báðum áttum hvort ég ætti að gera árið upp á þennan máta þar sem ég hef sett inn nær daglega færslu í ár tengt mynd á dag verkefninu mínu 🙂
Það er samt eitthvað við það að eiga árið tekið saman í einni færslu 🙂 Held samt að ég geri það á aðeins styttri máta en undanfarið.
Fjölskyldan
Við hjúin nutum þess að vera til og fylgjast með erfingjunum vaxa og dafna. Héldum okkar striki í vinnu og í byrjun árs tók Leifur upp á að sinna einu af áhugamálunum með meiri reglu en áður og mætir nú vikulega í WOF spilamennsku, fyrst í húsnæði sem spilahópurinn hafði til umráða en svo í spilasal Nexus. Þessu áhugamáli fylgir heilmikið föndur sem Leifur sinnir að mikilli natni á milli funda um 3ja Orkupakkann og annarra starfa í pólitíkinni.
Dagný hélt uppteknum hætti að elta krakkana út um allt í þeirra áhugamálum en tók svo áskorun frá yfirmönnum sínum í vinnunni og skráði sig í nýtt diplomanám í HÍ. Heilmikil vinna sem varð til þess að annsi margt var sett á bið.
Við fögnuðum bæði 40 árum í sumar 🙂
Oliver hélt áfram að synda og elta fótbolta eins og honum einum er lagið. Hann náði því takmarki að komast inn á AMÍ í sundinu sem haldið var í Keflavík í þetta sinn og keppti með ÍR á N1 mótinu á Akureyri. Hann stóð sig með prýði í skólanum og er alveg með það á tæru að best sé að ljúka heimavinnunni af á skólatíma til þess að geta nýtt frítíma milli æfinga í að spila við félagana og horfa á youtubemyndbönd. Hann fagnaði 12 ára afmælinu sínu í maí 🙂
Ása Júlía syngur áfram í skólakórnum og syndir í Breiðholtslauginni ásamt vinkonum sínum. Hún skellti sér í kórbúðir á Akranesi ásamt fullt af öðrum börnum og sömuleiðis á Akranesleikana í sundi. Hún er algjör félagsvera og má stundum ekkert vera að því að eiga í samskiptum við foreldrana því það er alltaf góður vinkonu hópur með henni. Hún fagnaði fyrsta tugnum í ágúst 🙂
Sigurborg Ásta byrjaði í sundi með dansinum í byrjun árs og nýtur sín alveg í botn þar. Svo mikið að hún ákvað að hvíla dansinn í haust og busla bara með hinum gullfiskunum í Breiðholtslaug.
Sigurborg Ásta tók líka þátt í Barnamenningarhátíð í Hörpu og söng með stórum hópi annarra leikskólabarna í Eldborg
Óhætt er að segja að þetta hafi verið stórt ár hjá Sigurborgu og okkur foreldrunum þar sem hún sagði skilið við leikskólalífið í sumar og útskrifaðist af Austurborg og byrjaði í haust í 1.bekk Seljaskóla og eru þá systkinin öll orðin skólabörn – fékk Dagný náðasamlegast að taka mynd af þeim saman við það tilefni í haust.
Hún er nú komin með stóran vinkonuhóp í bekknum og nýtur sín í botn sem skólastelpa. 6 áraafmælið kom loksins í nóvember og voru mánuðirnir frá ágúst fram í nóvember afskaplega lengi að líða því hún var sko bara 5 ára en samt í skóla!
Frí og ferðalög
Við skelltum okkur í bústað fyrripart árs og nutum þess að vera í kuldanum í Húsafelli í bústað SFR/Sameykis.
Næsta frí var svo í apríl en þá fórum við með fjölskyldunni hans Leifs til Tenerife í tilefni 140 ára afmæli SVIK. Dásamlegar 2 vikur sem við áttum þar saman þar sem ýmislegt var brallað og yfirleitt allur hópurinn saman 16 talsins.
Við heimsóttum nokkra garða, meðal annars Loro Parque, Siam Park, og Monkey Park. Leifur, Olli og Ása fóru með GunnEvu og strákunum í Forestal Park þar sem þau sveifluðu sér á milli trjáa. Við fjölskyldan kíktum líka í Fiðrildagarð þar sem við sáum fult af fallegum fiðrildum.
Hópurinn gerði svo heiðarlega tilraun til þess að fara upp á topp El Teide en það reyndist uppselt þegar á reyndi. Við áttum samt dásamlegan dag þar sem SVIK nutu þess að segja okkur hinum frá hinum ýmsu jarðfræðiundrum.
Næsta ferðalag fjölskyldunnar var svo í júlí þar sem við eltum Oliver og hina ÍRingana á N1 mótið í fótbolta. Lifið einkenndist af fótbolta auðvitað og áttu strákarnir góðan tíma þar.
Við fórum líka í útilegu í Húsafelli í sumar og dugnaðurinn i börnunum í göngum komu okkur enn og aftur á óvart er við skelltum okkur í fjallgöngu þar í nágrenninu. Við fórum líka upp á Úlfarsfell í hávaðaroki stuttu síðar.
Við fjölskyldan gáfum Ásu Júlíu ferð í Harry Pottersafnið í London í afmælisgjöf og nýttum við vetrarfríið í þá ferð. Safnið stóðst allar væntingar fjölskyldunnar þó ekki meira væri sagt og alveg óhætt að segja að við hefðum getað eytt mun lengri tíma þar en við gerðum. Við kíktum líka á Sience museum í London þar sem krakkarnir lærðu m.a. að gera leyniskilaboðahólk og svo fóru Leifur og Olli í Imperial War Museum á meðan stelpurnar skoðuð sig um í Primark og á kaffihúsum. Þetta var dásamleg ferð og erfitt að gera upp á milli hennar og Tenerife í ferðum ársins.
Heilsa
Sem betur fer þá var heilsan nokkuð góð hjá fjölskyldunni. Sigurborg Asta náði þó að smitast af hlaupabólunni og breytti það svolítð Tenerife fríinu okkar enda uppgötvaðist hlaupabólan stuttu eftir lendingu á Tenerife. Ása Júlía tók svo við daginn eftir heimkomu!
Jóhanna greindist með krabbamein á frumstigi í blöðru í öðru brjóstinu og var meinið fjarlægt í lok nóvember. Því miður kom í ljós þegar meinið var skoðað betur að ekki var þetta svo einfalt og þarf Jóhanna í frekari meðferð á nýju ári.
Dagnýju tókst að detta illa í byrjun des og er búin að eiga við vesen í öðru hnéinu síðan. Sem betur fer komu ekki fram skemmdir í myndatöku en gefa þarf þessu góðan tíma til að vinna í bata.
Stórfjölskyldan
Árleg Lappaveisla hjá Vífli og Jónínu í Borgarnesi var í lok mars þar sem stór hluti fjölskyldunnar kom saman. Árlega spurningakeppnin var auðvitað á sínum stað og voru Oliver og Ása Júlía bæði í sigurliðinu, ásamt Jóhannesi, Hjördísi og Guðmundu 🙂
Við endurheimtum Danina okkar! en Sigurborg, Tobbi, Ingibjörg, Jón og Kvika fluttu til Íslands í lok ágúst!
Systkini Leifs og Inga og Skúli festu öll kaup á nýrri fasteign í ár og má því segja að árið sé fullt stórra breytinga – Gunnar og Eva fluttu í haust, Inga og Skúli og Sigurborg og Tobbi stefna öll á að flytja í febrúar þó svo að þeirra samningar hafi allir verið kláraðir á árinu.
Jóhanna og Maggi tóku sig til og uppfærðu Outlanderinn og uppskáru þónokkur skot frá Dagnýju í kjölfarið enda bíllinn mun tæknilegri en þau – Oliver er líklegast búinn að læra einna mest á möguleika bílsins.
Famkvæmdir og annarskonar vesen
Framkvæmdir sumarsins voru löngu tímabærar en við tókum okkur til og rifum girðungina í kringum pallinn í samstarfi við nágranna okkar á K50. Sem betur fer vorum við ekki alveg á því að skipa um dekk líka en það kemur að því. Þetta tók sinn tíma en við erum mjög sátt við afraksturinn og dugnaðinn í krökkunum að hjálpa okkur við að skrúfa, laga, bera á, færa til spítur og að sjálfsögðu að rífa gömlu girðinguna!
Við ákváðum á haustmánuðum að “bláberinu” væri ekki lengur viðbjargandi og fórum á stúfana að skoða hvað við vildum gera í bílamálum. Þær pælingar enduðu með því að í fjölskylduna bættist Nissan Leaf rafmagnsbíll í stað Yarisins sem fékk endanlega hvíld hjá Hringrás.
Í heildina áttum við dásamlegt ár með fullt af nýjum áskorunum og ýmsum breytingum í bland við gamalt og gott.