Við áttum yndislega daga í Húsafelli þessa Verslunarmannahelgina.
Vorum etv full seint á ferðinni en fundum ágætis tjaldstæði inn í fallegri laut, hefði mátt vera aðeins sléttari ennnnn svefnstæðin voru góð, sérstaklega með vindsæng til að taka ójöfnurnar 😉
Það var ekkert annað fólk í þessari laut þannig að við náðum að vera svolítið prívat sem er ekki algengt á þessum stóru tjaldsvæðum.
Stutt í ánna og stutt í WC þó að það hafi iðulega verið ágætis röð í það sérstaklega þar sem annað þeirra bilaði á versta tíma, á laugardegi um verslunarmanna helgi! ekki alveg í lagi *haha* en það var komið í lag á sunnudagseftirmiðdegi og þá líka fullt af fólki farið.
Á laugardeginum þurfti ég að skreppa í Borgarnes þar sem seint á föstudagskvöldi uppgötvaðist það að elsku Ásan okkar gleymdi bakpokanum sínum í bænum með öllum fötum og lestrarefni! klassísk Ása og reyndar alveg jafnt okkur að kenna en við höfðum beðið krakkana að setja allt sitt á einn stað og svo voru margir að bera út í bíl og allir héldu að hinn hefði tekið töskuna). En Borgarsport reddaði barninu og gerði ég fín kaup þar á flottum vörum enda mjög margt á 40% afslætti og heppilega þá var næstum allt sem mig vantaði þar til í hennar stærð eða númeri stærra! sem henntaði mér fullkomlega! náði líka í auka heat gear leggings fyrir fótboltann á Olla á rétt rúmar 3500kr í stað tæplega 7þ.
Stelpurnar kynntust fljótt stelpu á tjaldsvæðinu sem var akkúrat á milli þeirra í aldri og eyddu þær miklum tíma saman. Foreldrar hennar spjölluðu líka heilmikið við okkur Leif og tókst ágætis kunningsskapur á milli okkar allra.
Við skelltum okkur auðvitað á Brennuna á laugardagskvöldinu – alltaf jafn skemmtilegt og svo dásamlegt veður að dagskráin dróst vel fram undir miðnætti. Ása Júlía var heillengi upp við sviðið þar sem hún tók þátt í “kórsöng” og söng hátt og lengi með söngvaranum 🙂
Á sunnudeginum ákváðum við að skella okkur í göngu – vorum fyrst að spá í að labba inn Bæjargil en enduðum á að labba í kringum það eða upp Bæjarfell og niður hinumegin við gilið niður Útfell (hér er kort með ýmsum gönguleiðum).
Þetta var ósköp notaleg ganga sem einkenndist ágætlega vel af berjatýnslu og stíflugerð ala Leifur.
Sigurborg Ásta kemur okkur stöðugt á óvart hversu öflug hún er… það er alltaf verið að tala um að hún sé svo lítil og svo framvegis en hún er algjör Nagli!
Sunnudagurinn fór svo bara í rólegheit í dásamlegu veðri við að týna saman og ganga frá dótinu okkar fyrir heimferð.