Ég er búin að vera rosalega léleg í að umgangast fólk undanfarið og líka skrifa eitthvað af viti hingað inn. Hef samt drullast til þess að gera það sem ég var löngu búin að lofa, hitta þá aðila og svo frv.
Hausinn minn er á alltof mikilli hraðferð og ég er ekki alveg að ná að fylgja honum eftir… Ég held einhvernvegin að það haldist ýmislegt í hendur sem ég hef verið að byrgja inn í mér.
Fyrst og fremst er maður með áhyggjur af gamla kappanum honum afa mínum, hann var fluttur á spítala um daginn með of lágt saltmagn í blóði… hann er búinn að vera í allskonar rannsóknum þar sem þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist… þ.e. að hann falli það langt niður í saltmagni að flytja þurfi hann á spítala til þess að láta hann vera með saltlausn í æð í smá tíma. Hann er víst allur að hressast núna en það er spurning hvort hann verði sendur heim um jólin eða ekki… Það kom samt eitthvað nýtt í ljós í gær og það á að vera fundur upp á spítala í kvöld með afa & systkinunum. Ég veit ekki almennilega hvað það er samt… eitthvað verið að tala um skugga/blett á lunga… getur verið of margt.
Æji þetta vekur upp erfiðar minningar. Amma heitin var einmitt lasin síðustu jólin sín.
Man að við ætluðum að vera í Ólafsvík þessi jólin (’96) og amma kom heim af spítalanum frekar seint á Þorláksmessu, nokkrum tímum seinna þurftum við að kalla á lækni og eina ráðið var að senda hana aftur upp á Akranes (á spítalann) þar sem hún var komin með vatn í lungun. Amma kom ekki aftur heim… ekki fyrr en í febrúar og þá til þess að verða jarðsett.
Ég sé alveg ótrúlega mikið eftir ömmu.. hún var svo yndisleg kona, í alla staði… ekta svona amma svo mjúk og góð… rosalega sterk og góð fyrirmynd. Þykir alltaf svo vænt um að heyra fólk sem þekkir mömmu fjölskyldu (svona gamlir fjölskylduvinir og fjarskyldir ættingjar) segja að ég sé lík Helgu ömmu… hlýjar mér um hjartarætur.