Fyrir nokkrum dögum hafði maður samband við Ástu Haraldar frænku mína í gegnum Facebook. Sá var bandaríkjamaður á leið til Íslands með fjölskylduna sína og eftir smá spjall kom í ljós að þarna var á ferð barnabarn bróður Steina afa. En einn bræðra hans, Einar Valgeir, flutti til Bandaríkjana löngu áður en pabbi fæddist og stofnaði þar fjölskyldu.
Þessum frænda langaði óskaplega að kynnast aðeins sínum frændgarði á Íslandi og spurði hvort Ásta gæti aðstoðað hann við það sem henni þótti alveg sjálfsagt. Úr varð að hún setti sig í samband við pabba og fleiri ættingja og stefndi öllum á Cafe París að hitta fjölskylduna.
Við vorum um 15 sem mættum og hittum Stefan, Margret, Emmu og Erik og áttum saman skemmtilegt síðdegi. Þeim fannst mikið til koma að þarna skyldu allir þessir einstaklingar mæta og voru steinhissa á fjölda ættingja sem við töldum upp (við erum ríflega 100 afkomendur Steina afa og Þuru ömmu + makar).
Rétt áður en allir fóru kom í ljós að þau höfðu tekið með sér nokkra hluti að heiman til þess að rétta þeim sem mættu en hjónin eru bæði kennarar við Cornell háskólann í New York fylki – að sjálfsögðu voru þetta hlutir merktir skólanum 😜
Stefan og Erik voru spenntir að heyra að Oliver væri á leið á stórt fótboltamót á Akureyri og að þau gætu mögulega náð í blálokin á mótinu en planið þeirra var að keyra hringinn og vera á Akureyri frá laugardegi yfir á mánudag. Erik er líka að æfa fótbolta og jafnaldri Olivers!
Því miður náðu þeir því ekki en við náðum að hitta á þau á Cafe Berlin á Akureyri á sunnudagsmorgni í morgunmat 🙂 Spjölluðum við þau í rúman klukkutíma og fengum fullt af sögum það sem af var ferðalagsins.