Ég veit að þú trúir því ekki en það er komið að þessu… ótrúlegt en satt þá er heilt ár liðið. Kominn tími á smá yfirferð yfir árið sem er senn á enda (bara nokkrar klst).
Árið hefur einkennst af íþróttabrölti barnanna, ferðalögum og samveru sem er sennilegast besti parturinn af þessu öllu saman. En best er að byrja á byrjuninni og skoða hvernig janúar byrjaði þetta allt saman.
Janúar
Við sprengdum gamla árið í burtu í Álfheimunum með Ingu ömmu, Skúla afa og Halldóri frænda (Ingvar frændi átti að vera með en lá í flensu heima 🙁 ).
Biðin mikla eftir litla frænda í Danmörkinni tók enda í lok mánaðarins þegar hann mætti á svæðið þann 27. janúar!
Sigurborg Ásta byrjaði í dansskóla hjá Jóni Pétri og Köru og naut sín vel.
Leifur tók þátt í undirbúningi vegna borgarstjórnarkosninganna seinnihlutann í janúar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.
Fórum í matarboð til góðra vina og út að borða með Ingu Láru og Jökli.
Systurnar buðu báðar í Þorrakaffi sama dag – úr varð að Leifur kíkti til Sigurborgar Ástu á leikskólann en Maggi afi fór í Seljaskóla til Ásu Júlíu.
Oliver hélt áfram að synda af kappi og elta fótbolta þess á milli. Hann spilaði líka sinn fyrsta leik í Reykjavíkurmótinu á móti Val á Hlíðarenda.
Ása og Olli héldu uppteknum hætti frá fyrir jól og sungu eins og englar með skólakórnum.
Ása Júlía hélt líka áfram í fótboltanum.
Afmælisbörnin: Skúli afi
Febrúar
Mæðginin mættu fyrir allar aldir í Keflavík á sundmót fyrstu helgina í febrúar þar sem Oliver stóð sig með prýði – Reykjavíkurmótið í fótboltanum tók líka sinn toll þá helgi.
Sigurborg kíkti til augnlæknis og fékk fullt hús stiga þar, allt eins og það á að vera. Sama dag fékk besta vinkonan á leikskólanum, Eva Margrét, að koma með heim.
Dagný fór með æskuvinkonunum í Hörpuna á viðburð sem kallast “perlað með krafti” en þar voru þær að perla armböndin sem Kraftur selur sem á stendur “Lífið er núna”.
Vorvetrarfrí í skólanum um miðjan mánuðinni.
Bolludagur, sprengidagur og Öskudagur með tilheyrandi húllumhæi! syngjandi börnum og skemmtilegheitum.
Ingi gamli nágranni Dagnýjar af Framnesveginum lést fyrri part mánaðarins og fylgdi Dagný honum ásamt foreldrum sínum síðasta spölinn.
Árshátíð Heilsugæslunnar með fyrirpartýi hjá Guðleifu & Steina í lok mánaðar – svaka stuð!
Við vorum líka ágætlega dugleg að prufa nýjar fiskiuppskriftir í Fiskifebrúar og Oliver sendi Tobba beiðni um uppskriftina að hrásalatinu sem þeir félagar útbjuggu fyrir hópinn síðasta sumar og græjaði það svo bara alveg sjálfur (færsla).
Leifur fann sér svo nýtt áhugamál en það er að mála tindáta og “skriðdreka” fyrir spilið Flames of War (FOW) og er hann kominn inn í sérstakan hóp spilara sem hittast reglulega til þess að spila þetta spil.
Afmælisbörnin: Tobbi & Hrafn Ingi
Mars
Sigurborg Ásta var “barn vikunnar” fyrstu helgina og það þýddi bara að Lúlli bangsi fékk að koma í heimsókn til okkar.
Við rákum augun í að jarðaberjaplöntunar voru farnar að taka við sér úti á palli með grænum fallegum blöðum – frekar snemmt samt.
Við skelltum okkur í Páskabingó niðrí ÍR heimili og kom Oliver heim með vinning þaðan, litlu mátti muna að Ása Júlía kæmi heim með aðal vinninginn en þar sem þær voru fleiri en 1 með Bingó á sama tíma náði önnur að hreppa aðal vinninginn en Ása fékk samt smá sárabætur 🙂 Dagný & krakkarnir kíktu líka á páskabingó SFR þar sem Ása Júlía skellti sér í brandaraupplestur og stóð sig mjög vel, las hátt og skýrt fyrir hópinn.
Dagný skellti sér á námskeið í skjalastjórnun hjá EHÍ.
Leifur fór á Landsfund Sjálfstæðisflokksins.
Reykjavíkurmótið hélt áfram og spilaði Oliver nokkra leiki þar.
Ása Júlía skellti sér líka á fótboltamót hjá Gróttu og hitti þar m.a. Ragnheiði Helgu frænku sína.
Skólakórinn var beðinn um að syngja nokkur lög í aðalupplestarkeppninni í Breiðholtskirkju og mættu systkinin þangað bæði.
Eva Mjöll og vinkonur gáfu út sína aðra prjónabók, leikskólaföt 2 og mættum við að sjálfsögðu til þess að samgleðjast dömunum í útgáfuteitið í Litlu prjónabúðinni.
Loksins fengum við að hitta og knúsa litla frænda en þau komu til landsins rétt fyrir páska! og fékk hann nafnið Jón laugardaginn fyrir páska.
Fyrsta barnið í æskuvinkonuhópi Dagnýjar fermdist nú um páskana, hann Brynjar Óli.
Dagný fór með krakkana og Ingibjörgu frænku að sjá Galdrakarlinn í Oz í Tjarnarbíó (Leikhópurinn Lotta).
Afmælisbörnin: Ingibjörg & Maggi afi.
Apríl
Páskadagur í Álfheimum í leit að súkkulaði! með öllum hópnum! Norðlinghyltingar, Kambaselirnir og Danirnir allir samankomnir og teljumst við nú 16 með Ingu & Skúla.
Skelltum okkur í nokkra létta göngutúra í nágrenni borgarinnar og náðust margar skemmtilegar myndir þar.
Uppskeruhátíð Ægis var loksins haldin hátíðleg og nældi Oliver sér þar í titilinn Aldursflokkameistari Hnokka ásamt viðurkenningu fyrir ástundun og framför á síðasta stundári. Ekkert lítið sáttur drengur sem kom heim eftir þá gleði.
Vortónleikar skólakórsins voru um miðjan mánuðinn og var virkilega gaman að sjá framfarir hópsins á þessum mánuðum sem liðnir voru frá stofnun.
Leifur tók við sem formaður Sjálfstæðisfélagsins.
Dagný skellti sér út að borða og í bíó með Nesstelpunum 😉
Fótboltakrakkarnir spiluðu bæði nokkra leiki, Olli á Reykjavíkurmótinu en Ása Júlía á TM mótinu í Garðabæ.
Afmælisbörnin: Sigurborg frænka
Maí
Frumburðurinn fagnaði 11 ára afmælisdeginum í upphafi mánaðar með afmælisveislu og svo á sjálfan afmælisdaginn með ferð í Bogfimisetrið og borgurum á Fabrikkunni með fjölskyldunni og besta vininum.
Sigurborg Ásta mætti með hjólið sitt á hjóladegi á Austurborg í blindbyl! en það rættist þó úr því og krakkarnir náðu að hjóla á leikskólalóðinni 😉
Dagný fór með vinnufélögunum í óvissuvorferð þar sem haldið var m.a. inn í Þórsmörk.
Við hjónakornin fórum svo í árshátíðarferð með HNIT til Berlínar þar sem við spókuðum okkur um í dásamlegu vorveðri. Hittum Stebba frænda í lönsh og í göngu um Berlín með Berlínum.
Ása Júlía fór í prufu fyrir erlent tónlistarmyndband en leitað var eftir dökkhærðri og brúneygðri brosmildri skottu – það fannst henni ekki leiðinlegt þó svo að hún hafi ekki landað því verkefni.
Oliver tók þátt í sundmóti hjá Breiðablik með eldri hópi sundgarpa þar sem miklar vonir voru bundnar við að honum myndi takast að ná tímalágmarki fyrir AMÍ mót sumarsins en þjálfararnir töluðu við Dagnýju þar sem þá vantaði aðeins 1 dreng til þess að vera með fullskipað drengjalið í boðsundssveit á AMÍ á Akureyri seinnipartinn í júní. Það gekk ekki eftir en ekki var öll von úti enn þar sem Akranesleikarnir voru síðasti séns. Oliver komst í fyrsta sinn á verðlaunapall og náði sér í brons á mótinu. Þetta var líka fyrsta sund hópsins sem Boðsundssveit og náðu þeir í silfur!
Ása Júlía tók þátt í VÍS-mótinu í Laugardalnum og síðustu leikirnir í Reykjavíkurmótinu voru leiknir hjá Oliver enda íslandsmótið að taka yfir.
Afmælisbörnin: Oliver & Inga amma
Júní
Akranesleikar! Oliver fékk sína fyrstu silfurmedalíu – 100m flugsund. Þjálfararnir í sundinu komust að því að hægt væri að bæta við “uppfyllingarmanni” í Boðsundið sem þurfti ekki að hafa náð neinu lágmarki og úr varð að Oliver fór að mæta á æfingar með Bronshópi í sundinu til að undirbúa AMÍ á Akureyri.
Hann fór einn með liðinu norður á fimmtudegi um miðjan júní en mömmuhjartað elti eftir vinnu á föstudeginum. Þá voru þeir búnir að synda eitt sund og mættu Olli frændi & Anna Guðný til þess að styðja kappann þar sem okkur þótti mjög vænt um. Dagný fékk að gista hjá þeim frá fös til lau en feimni litli sundgarpurinn vildi fara heim eftir sundið á laugardeginum. Þeir stóðu sig vel þrátt fyrir að komast ekki á pall.
Skólaslit hjá krökkunum fyrri part mánaðar og luku þau 3. og 5. bekk með glæsibrag.
Ása Júlía skellti sér á reiðnámskeið með Ástu Margréti vinkonu sinni hjá Faxabóli og fannst það alveg æðislegt og hefur hún kennt okkur foreldrunum ýmislegt um hesta og hestalingo-ið.
Lára María frænka Dagnýjar lést fyrri hluta júní mánaðar og var útför hennar um miðjan mánuð frá Hafnarkirkju. Dagný fór austur ásamt foreldrum sínum til þess að fylgja Láru Maríu.
Hjálpuðum til við að stinga upp kartöflugarðinn í Birtingaholtinu eftir annsi vætusamt vor (sem átti svosem lítið eftir að skána).
Leifur skellti sér ásamt Sverri & Þorvaldi á Tankfest sýningu í Bovington á Englandi yfir langa helgi. Nokkuð sem þá hafði dreymt um að gera lengi.
Afmælisbörnin: Jóhanna amma, Leifur & Birkir Logi
Júlí
Leifur var vart kominn heim af Tankfest þegar við brunuðum af stað Norður á ný, nú til þess að fara með Oliver á N1 mótið í fótbolta. Þar gistum við í AirBnB íbúðinni hjá Olla frænda og Önnu Guðnýju ásamt Jóhönnu og Magga. Oliver gisti reyndar bara fyrstu og síðustu nóttina en aðrar með liðinu í skólastofu 🙂 Strákarnir skemmtu sér konunglega og gekk alveg ágætlega.
Við hittum Arnar Gauta frænda, Val Kára og Halldór Hilmi sem voru með Olla á leikskóla en þeir voru allir einnig að keppa á mótinu.
Olli og Ása komu okkur á óvart og græjuðu hádegismat á öðru “leveli” en áður, bökuðu sér pizzu úr gerdeigi frá grunni 🙂
Rétt náðum að knúsa Ingibjörgu & Jón í smá áður en við skelltum okkur í flug til Benidorm í tvær vikur. Þar nutum við þess að baða okkur í sólinni á milli þess sem við hoppuðum í laugina eða sjóinn. Kíktum líka í nokkrar örferðir, m.a. til Althea, Albir og Guadalest. Ása og Olli uppgötvuðu skemmtunina í að kafa með köfunargrímu og öndunarpípu og áttum við stundum erfitt með að ná sambandi við þau þegar við vorum niðrá strönd (engar áhyggjur þau voru aldrei ein úti á sjó). Sigurborg skríkti af ánægju þegar öldurnar lentu á henni. Flest kvöld var spilaður gaur, kani eða tvenna.
Á meðan við vorum úti fékk Dagný þær fréttir að Ásta frænka hefði látist og færu Maggi o.fl. til Texas svotil um leið og við kæmum heim til að fylgja henni og vera Lindu & bræðrunum til halds og trausts.
Ágúst
Þegar heim var komið fór það ekkert á milli mála að þvottavélin var alveg á síðasta tóninum í sínum söng og þörf á því að endurnýja hana hið snarasta, ekki alveg málið að vera þvottavélalaus fyrir 5 manna fjölskyldu!
Fyrsti alvöru sumardagurinn leit dagsins ljós þann 4. ágúst – sem var einmitt brúðkaupsdagur Sigurborgar & Tobba! Sumardagarnir urðu reyndar ekki mikið fleiri. Jón litli var hjá okkur fyrir brúðkaupið, fékk að slaka á, taka lúrinn sinn og spjalla við frændsystkinin áður en haldið var í athöfnina í Háteigskirkju. Yndislegur dagur og dásamlegt brúðkaup&veisla 🙂
Dagný, Ása og Sigurborg fóru á Gosa með leikhópnum Lottu ásamt Norðhyltingunum og Dönunum.
Olli skellti sér í gistiparty hjá Sölva í Þverárselinu.
Frændsystkinahittingur hjá Tangagötuafkomendum var í F18 hjá Víkingi & Arnbjörgu. Fyrsta myndin náðist af barnabörnunum og barnabarnabörnunum 19!
Oliver keppti á fótboltamóti á Selfossi og Jón kom í næturpössun, og kom svo á fótboltamótið á sunnudeginum. Ása Júlía keppti líka á Extramótinu í Grafarvogi, sinn síðasta fótboltaleik því hún ákvað að prufa nýtt sport í vetur, meira um það síðar.
Ása Júlía hélt upp á afmælið sitt með pompi og prakt, kaus að fara í bíó og út að borða á afmælisdaginn sjálfan.
Frændurnir gistu hjá okkur fyrir afmælið og svo Sölvi viku síðar (nóg að gera í gistipartyum og brúðkaupum hjá fólki í ágúst).
Við hjónin föguðum 6ára brúðkaupsafmæli í lok mánaðarins <3
Skólinn settur síðustu vikuna í ágúst og rútínan að byrja á ný!
Afmælisbörnin: Dagný Ásta & Ása Júlía
September
Halló Rútína! Skólinn byrjaður á ný og fótboltinn farinn að rúlla hjá Olla og nú eru systkinin bæði komin í Sund hjá Ægi. Ásta Margrét elti Ásu sem henni fannst ekki leiðinlegt!
Sigurborg Ásta byrjaði að fara á fótboltaæfingar líka og hélt áfram í dansinum.
Fyrstu kórtónleikarnir voru á opnu húsi um miðjan mánuðinn og var Oliver eini strákurinn í kórnum! það breyttist þó þegar líða fór á veturinn og Sölvi mætti á ný 🙂
Í lok mánaðar tók Olli þátt í TYR móti Ægis og kom heim með 3 gull og 1 silfur! ekki slæm uppskera þar!
Við hjónin vorum á sama tíma í haustferð HNIT þar sem farið var í heimsókn í Hespuhúsið, í Víðgelmi og í brugghúsið Steðja.
Afmælisbarnið: Eva Mjöll
Október
Leifur fór ásamt Sverri & Þorvaldi í Geðbót í spilahelgi – þeir nutu sín alveg í botn með spileríi, mat og öli.
Fjölskyldan skellti sér í forvetrarfrísferð í bústað í Húsafelli eina helgina í Október og áttu við þar yndislegan tíma þótt Sigurborg hefði fengið í magann.
Vetrarfríið í skólanum var ekki alveg eins og “normið” var enda krakkarnir í fríi en ekki foreldrarnir.
Ása og Ásta buðu foreldrunum á foreldrasundsýningu á æfingu til að sýna okkur framfarirnar á ekki lengri tíma. virkilega duglegar!
Oliver tók þátt í sundmóti í Keflavík og svo spilaði hann æfingaleik við Þróttara með félögunum í fótbolta.
Dagný og Olli skelltu sér á matreiðslunámskeið á vegum SFR þar sem krakkarnir stjórna ferðinni og foreldrarnir eru aðstoðarkokkar. Hann naut sín í botn enda finnst honum mjög gaman að stússast í eldhúsinu, fær bara ekki alveg nógu mörg tækifæri til þess.
Dagný skellti sér út að borða og á tónleika með ágústmömmum, lokatónleikar Sálarinnar lengst upp í rjáfri í Hörpunni! eins gott að vera ekki lofthrædd! Tónleikarnir voru mjög skemmtilegir engu að síður 🙂
Við fengum upphringinu frá lögreglunni þar sem okkur var tilkynnt að ekið hefði verið á Previuna og skemmdir á henni – sem betur fer hafði tjónvaldur haft samband við lögregluna sjálf þannig að viðgerðarmálin eru í ferli, bílinn nothæfur en með skemmdan stuðara að aftan.
Nóvember
Loksins rann nóvember upp – Dagný bara búin að bíða eftir þessum mánuði síðan í vor 😉
Ása Júlía keppti á sínu fyrsta sundmóti og stóð sig með prýði. Mótið var svokallað C mót sem er í raun æfingamót og var haldið í Sundhöllinni.
Norðhyltingarnir voru hjá okkur yfir helgi á meðan foreldrarnir skoðuðu Brussel.
Oliver skipti um sundhóp – kominn yfir í Bronsið og eru æfingarnar í Laugardalslauginni – lengri og með þrekæfingum! Hann mætir þangað 3x (af 5x) í viku og 3x í viku í fótboltann.
Sigurborg Ásta fagnaði langþráðu 5 ára afmæli með bíóferð og IKEA nöggum! ásamt fjölskylduboði helgina á eftir 🙂
Sigurborg fékk sýkingu í “leikskólavörtu” sem hún var með á augnlokinu og við tóku lyfjagjafir og endurmat en sem betur fer fór þetta betur en leit út í byrjun.
Sigurborg bauð foreldrum sínum á danssýningu í leikskólanum en þau hafa verið að æfa dansa í allt haust.
Fjölskyldan fór á Ronju Ræningjadóttur í Þjóðleikhúsinu – fyrsta leikhúsferð Sigurborgar Ástu í “alvöru” leikhús og naut hún sýningarinnar vel.
Dagný fór með Sirrý vinkonu til Glasgow í nokkra daga í svokallað stelpufrí! Þær nutu sín í botn við að skoða sig um á nýjum stað, versla og borða góðan mat. Þær skelltu sér einnig í dagsferð til Edinborgar og eru báðar á því að þangað þurfi þær að fara aftur og skoða betur 🙂
Sömu helgi tók Oliver þátt í Málmtæknimóti Fjölnis í sundi, bætingar í sumu en stöðnun í öðru 😉 enda erfitt að bæta tímann sinn eftir heilan sunddag.
Afmælisbörnin: Sigurborg Ásta & Gunnar
Desember
Samverudagatalið bar ábyrgð á ansi mörgum samverustundum nú í desember, sem var náttrúlega bara dásamlegt.
Við bökuðum smákökur, útbjuggum konfekt, fórum á jólaböll og nutum þess að bralla ýmislegt saman.
Litlu jólin á Sólheimum eru orðinn fastur liður í aðventunni hjá okkur. En þangað förum við með Lionsklúbbnum hans Magga afa.
Ása Júlía tók þátt í uppfærslu kórsins (og 5.bekkjar) á leikritinu um Litlu stúlkuna með eldspíturnar og var það mjög flott hjá þeim.
Sigurborg Ásta tók þátt í Helgileiknum hjá skólahópi Austurborgar og fékk hún hlutverk Betlehemstjörnunnar 😉
Við hjónin fórum á tónleika hjá Vocal Project – ekki jólatónleikar en nokkur jólalög laumuðu sér þar með.
Laufabrauðið var í seinnafalli í ár en skorið var og steikt í Álfheimunum.
Dagný fór ásamt æskuvinkonunum í jólabrönsh á Kaffi Reykjavík síðustu helgina í aðventu þar sem þær nutu samverunnar sem og matarins.
Aðfangadagur var haldinn hátíðlegur heima í K48 ásamt Jóhönnu ömmu og Magga afa.
Þegar allir voru vaknaðir og komnir á ról á jóladag komu systkini Leifs og foreldrar + öll börnin í hangikjöt og spjall. Við höfum ekki fengið gesti á jóladag áður.
Við færðum okkur yfir í Birtingaholtið til foreldra Dagnýjar í mat á annan í jólum.
Ása Júlía var fyrir löngu búin að ákveða að bjóða Ingibjörgu frænku í bíó að sjá Mary Poppins um jólin og gekk það eftir þann 27. – reyndar endaði það þannig að við fórum + Sigurborg & Ingibjörg og Gunnar + Eva og strákarnir – samtals 14 sæti!
Allt í allt dásamleg samveru-jól að baki með smá vinnu hjá Dagnýju.
Strákarnir fengu svo að gista hjá okkur aðfararnótt laugardags og var hér mikið húllumhæ enda 6 börn í húsi!
Leifur fór og hitti FOW félaga sína snemma morguns þann 29. til þess að taka spil en það entist til rúmlega 5 um daginn. En Leifur átti að vera mættur stuttu síðar í Álfheimana í árlegt spilamatarboð vinahóps Ingu og Skúla. Hann var því í stöðgu spileríi allan laugardaginn frá morgni fram á nótt 🙂
Kvöldið í kvöld verður líkt og síðustu ár sprengt í burtu í Álfheimunum og styttist í mætingu þar hjá okkur.
Afmælisbörnin: Sigmar Kári & Garðar frændi
Takk fyrir allar minningarnar undanfarið ár og megi þær verða fleiri á því næsta. – og eins og ein útvarpskveðjan á Þorláksmessu hljómaði:
Megi gæfan vera uppáþrengjandi á komandi ári <3
Takk fyrir skemmtilegan annál. Kveðja – Inga