2 vikur í sól og sumaryl með þeim sem mér þykir hvað vænst um hljómar alls ekki illa og staðreyndin var sú að þetta var hreint út sagt dásamlegt!
Við flugum til Alicante seinnipartinn á sunnudegi með WOW og vorum lent rétt eftir miðnætti aðfararnótt mánudags.
Vorum með bókaða gistingu í 2 vikur á Apartemento Levante Club sem er íbúðahótel í gamla hlutanum á Benidorm. Flott staðstening á hótelinu þar sem það tók okkur alveg heilar 5 mín að labba niðrá strönd sem var óspart nýtt á móti tímanum sem við eyddum við sundlaugina í garðinum.
Oliver og Ása Júlía uppgötvuðu hversu mikið sport það væri að vera niðrá strönd að kafa með köfunargleraugu og munnstykki. Þau eyddu óratíma úti í sjó að elta fiskitorfur og skoða botninn.
Við tókum strætó yfir til Albir einn daginn og gengum yfir til Althea. Elska þann bæ! Svo dásamlega gamaldags og ekta fyrir mig með þröngum, litlum kræklóttum götum sem eru ó svo fallegar. Fengum okkur dásamlegan kvöldmat á ítölskum veitingastað ekki svo langt frá Kirkjunni og leituðum svo uppi stoppisstöð til að taka vagn heim aftur eftir dásamlegan dag 🙂
Fengum reyndar ömurlegt símtal sama kvöld þar sem við fengum fregnir af andláti Ástu frænku.
Skelltum okkur í Mundomar Benidorm en þann garð var Ása Júlía búin að heyra þónokkuð um frá Ástu Margréti vinkonu sinni og hreinlega bara “varð” að fara í þann garð líka. Við ákváðum að taka pakka þar sem við keyptm líka miða í Aqualandia en þessir garðar eru staðsettir hlið við hlið og í göngufæri við hótelið okkar 🙂
Í Mundomar skelltum við okkur á höfrungasýningu og fórum líka að heilsa upp á höfrungana og fengum öll myndir af okkur með höfrungunum. Sigurborg Ásta varð reyndar frekar svekkt að fá ekki að “synda” með þeim eins og nokkrir krakkar fengu að gera.
Oliver var alveg æstur í að fara í nokkrar af stæðstu rennibrautunum í Aqualandia og fékk að fara í 2 af 4 sem hann vildi hvað mest fara í og fór hann einn í þær. Ég og Ása Júlía fórum með honum í flestar hinna sem voru í boði. Sigurborg Ásta naut sín í botn í krakka hluta garðsins og buslaði út í eitt.
Síðasta daginn ákváðum við að taka bílaleigubíl til þess að hafa síðasta sólarhringinn og komast þannig út á flugvöll.
Fórum í smábæ sem heitir Guadalest og skoðuðum okkur þar um. Kíktum meðal annars inn á safn sem sýndi okkur hvernig fólkið lifði þar áður en t.d. vatnsveita kom á svæðið.
Frá Guadalest lá leiðin að ofboðslega fallegu svæði sem heitir Fonts de l’Algar. Þar busluðum við aðeins í ánni en mismikið þó – Olli á heiðurinn að mesta buslinu! Vatnið var alveg ótrúlega KALT og erfitt að fara út í það 😉
Síðasta deginum eyddum við á strönd við Alicante – týnandi skeljar, byggjandi sandkastala og að njóta þess að vera í sólinni.