Ég er óbeint búin að vera að búa mig undir þessa bílferð síðan í janúar þegar fréttirnar komu um stöðuna hjá elsku Láru Maríu frænku.
Lára María lést í byrjun mánaðarins, hún fékk heilablóðfall um jólin og dvaldist á LSH þar til í lok maí þegar hún komst á hjúkrunarheimilið á Höfn þar sem hún náði aðeins stuttri dvöl en etv má segja að hún hafi verið svona fegin því að komast heim í sveitina sína, til strákanna sinna.
Ég, mamma, pabbi og Hjördís frænka fórum af stað eftir vinnu hjá mér á fimmtudaginn og keyrðum austur í einni lotu. Gistum að Smyrlabjörgum en þar má segja að hafi verið stór hluti okkar fjölskyldu. Björg og Diddi, Olga og Torfi, Guðmunda, Vífill, Helga & Júlíana gistu öll þarna líka. Seint um kvöldið gátum við spjallað saman í notalegri setustofu og rifjað upp minningar um elsku frænku.
Jarðaförin var svo á föstudag og var hún virkilega falleg. Allt, meiraðsegja söngurinn, túlkað á Táknmáli fyrir Halldór og vini hans/þeirra sem komu austur til að fylgja henni.
Glæsilegt allt saman en ó svo erfitt á sama tíma, elsku frænka átti svo margt eftir að gera og upplifa.
Erfidrykkjan að Hótel Höfn var alveg eftir uppskrift Láru Maríu, rjómatertur og bakkelsi af ýmsum toga og nóg af því! alveg eins og hún vildi alltaf hafa það.
Við keyrðum aftur til Rvk um kvöldið og var annsi ljúft að leggjast á koddann heima eftir erfiðan dag.
Hvíl í friði elsku frænka <3