Árshátíðarferð vinnunar hans Leifs var til Berlínar í þetta sinn.
Ræs fyrir allar aldir 9.maí – vorum búin að semja við Dóra og frú um far út á völl.
Vorum lent í Berlín rúmlega 1 að staðartíma og eftir rútuferð á Maritim Proarte Hotel Berlin var haldið af stað til að finna eitthvað að borða líkt og allar þessar ferðir byrja á. Við ásamt Halla & Söru, Dóra & Bryndísi röltum af stað og fundum við eftir smá rölt Créps stað á jarðhæð verslunarmiðstöðvar við Friedrichstrasse – um það bil nóg til að fylla tankinn áður en fólk hélt áfram göngunni.
Checkpoint Charlie og Mauermuseum voru endastöðin á Friedrichstrasse í dag. Mauer Museum var mjög áhrifamikið safn, reyndar afskaplega mikill texti sem þurfti að lesa en það breytti því ekki að maður varð hálf meir og skrítinn við að skoða þetta. Hvernig fólk útbjó bíla t.d. til þess að flytja fólk á milli austurs og vesturs, ýmsar flóttaleiðir voru reyndar og margar heppnuðust en verst af öllu fannst mér að sjá fjöldann af nöfnum þar sem hægt var að finna nöfn fólk sem lést í tengslum við stríðið, flest voru þau bundin við útrýmingarbúðir.
Við vorum mikið að svipast um eftir “venjulegri” búð á leiðinni til baka svo við gætum keypt vatn en fundum nær eingöngu túritabúðir sem rukkuðu 2 evrur per flösku! Á endanum fundum við búð ekki svo langt frá hótelinu en það fyndnasta af öllu var að hún seldi nær eingöngu snyrtivörur og heilsuvörur! hollustu snakk! hvað er það?
Það voru frekar mikið þreyttir ferðalangar sem skriðu upp á herbergi fyrsta kvöldið 😉
Fimmtudagur
Á árshátíðardaginn sjálfan var búið að plana gönguferð undir leiðsögn frá Berlínum. Hittum Berlínurnar við aðalbrautarstöðina að morgni og skiptum okkur upp í 2 hópa. Við byrjuðum á því að ganga yfir að Bundeskanzleramt þar sem skrifstofur kanslarans eru meðal annars. Þaðan var farið yfir að Reichstag eða “alþingishúsi” þeirra Þjóðverja – merkileg bygging sem búið er að endurbyggja nokkrum sinnum og endurnýta m.a. sem fæðingardeild á meðan á stríðinu stóð.
Við gengum svo í gegnum almennings garðinn sem er þarna hjá og stoppuðum við minnisvarða um Roma fólk sem lést í stríðinu. Afskaplega látlaus og fallegur minnisvarði og benti Berlínan okkar á að daglega væri sett ferskt blóm á minnisvarðann.
Brandenburg-ar hliðið var næsta stopp og frekar skrítið að horfa niður eftir 17.júní stræti – svo löng og bein gata með ekkert nema trjágróðri – ekki alveg það sem maður er vanur hérna heima. En hvað um það eftir myndatökur og frásagnir um styttuna sem situr efst á Brandenburnar hliðinu og ferðalag hennar var haldið áfram að minnisvarða um gyðingana…
Sem enn á ný er mjög táknrænn minnisvarði þrátt fyrir að vera “ekkert nema misháir kassar” en það var jú einmitt það sem fólkið var – af öllum stærðum og gerðum, að ónefndum aldri. Við eyddum góðum tíma í að þræða okkur í gegnum minnisvarðann og passa okkur á að týna ekki hvert öðru, vorum auðvitað með endapunkt “í hinu horninu” þar sem við ætluðum öll að hittast aftur.
Nú voru aðeins 2 stopp eftir í þessari ferð og annað þeirra var eitt af þeim sem Leifur var búinn að segjast “verða” að fara á… hvaða staður var það? jú Bílastæðið þar sem Hitler dó! eða réttara sagt þar sem neðanjarðarbyrgið hans var þar sem hann eyddi síðustu dögunum innilokaður ásamt nánustu samstarfsmönnum sínum og fjölskyldum.
Það verður seint hægt að segja að það fari mikið fyrir þessu bílastæði, haft eins ómerkilegt og hægt er… Það eina er reyndar að búið er að koma fyrir skilti við innkeyrsluna með frásögn um byrgið. En þetta var eina ómalbikaða bílastæðið sem ég sá 😉
Við enduðum svo göngutúrinn við Potsdamer platz en þar eru nokkir hlutar af múrnum enn uppistandandi sem var merkilegt að sjá enda hefur það verið annsi magnað mannvirki.
Eftir göngutúrinn fengum við okkur smá hressingu enda búið að vera vel heitt þarna um morguninn og röltum í gegnum markað sem var á Potsdamer platz. Á meðan við sátum á kaffihúsinu og kældum okkur niður fann Leifur út að “í næstu götu” væri varðturn sem hann langaði að sjá… jú hópurinn rölti þangað og viti menn það var hægt að kaupa aðganga upp í þennan turn, vinnufélagar Leifs voru alveg á því að þangað skyldi Leifur fara og voru ekki lengi að komast að því hvað kostaði upp og týndu saman klinkið sem þurfti (kostaði 5evrur) og upp fór Leifur við mikla kátínu okkar sem biðum niðri 😉
Eftir þennan hressandi göngutúr fóru allir upp á hótel að hafa sig til fyrir árshátíðardinnerinn.
Hópurinn hittist á veitingastað sem heitir Entrecote. Byrjuðum á fordrykk og færðum okkur svo yfir í kræsingarnar sem voru ekki af verri endanum, Tókum svo röltið heim á hótel seint og síðar meir enda orðin frekar fótsár eftir göngu dagsins 😉
Föstudagur – verslunarferð!
Við Bryndís hans Dóra vorum búnar að ákveða að fara í nokkrar prjónabúðir á meðan við værum þarna 😉
Byrjuðum á að rölta með strákunum áleiðis að búðunum sem við vorum búnar að finna en þeir héldu svo áfram að Bernauer straBe þar sem þeir skoðuðu minjar Berlínarmúrsins.
Fyrsta búðin sem við kíktum í heitir “Knit Knit Berlin” og var með fullt af allskonar garni en einhvernvegin ekkert sem greip okkur. Því næst var það fallega litla búðin hans Herr U! alveg dásamleg búð!! Ég stóðst það ekki og keypti 2 dokkur þar af garni sem ég þekkti ekki merkin á en önnur dokkan er lituð serstaklega fyrir hann. Síðasta búðin sem við fórum í var svo Yarn Over Berlin sem var virkilega sæt lítil búð með fullt af Madeline Tosh, Brooklin Tweed og fleiri garntegundum sem við þekktum vel, Bryndís smellti sér á á smá garn þar.
Við hittum svo strákana í hádegismat en fórum svo aftur í sitthvora áttina en planið var fara í Nike verslun ekki langt frá þar sem við borðuðum en þar var ekkert til af “barna” fötum þannig að við enduðum í Mall of Berlin þar sem við versluðum aðeins á krakkana. á leiðinni þarna á milli gegnum við yfir Safnaeyjuna og enduðum á litlum sætum útimarkaði þar sem ég stóðst ekki freystungun að að kaupa brúðarkort fyrir Sigurborgu og Tobba, Virkilega fallegt lazerskorið kort. Einnig var maður að selja allskonar myndir frá WWII fyrir framan háskólabókasafnið og keypti ég þar 2 myndir handa Leifi, spurning hvort við fáum að fara aftur til Berlínar.
Við hittum svo strákana aftur í kvöldmat hjá Mall of Berlin þar sem við fengum okkur næringu á “stjörnutorgi”.
Laugardagur
Við Leifur tókum langan göngutúr eftir 17júní stræti þar sem við lentum í miðri hjólakeppni krakka. Leifur vildi skoða minnisvarða Rauða Hersins en við höfðum rétt misst af minningarathöfn sem var nokkrum dögum áður og var því þarna mikið af blómsveigum.
Gengum áfram í gegnum Tiergarten sem var virkilega falleg leið þrátt fyrir að hafa bara séð smá brot af honum en leið okkar lá að lestarstöðinni við Dýragarðinn þar sem planið var að hitta Stebba frænda.
Hann fór með okkur í “Bjórgarð” þar sem við spjölluðum í góðan tíma og fengum okkur hádegismat.
Við Leifur gengum svo að Fredriks straBe og skoðuðum “púðurdósina” og “varalitinn” aðeins og héldum svo áfram þar sem við enduðum í Lego búðinni sem er eiginlega alveg á hinum endanum 😉 Við tókum svo leigubíl frá lestarstöðinni við Dýragarðinn að Rittersport búðinni sem er rétt hjá hótelinu okkar og kíktum þangað inn. Rétt kíktum upp á hótel með poka áður en við drifum okkur út aftur.
Við vorum búin að ákveða að hitta Halla og Söru á Alexander Plads og kíkja upp í Sjónvarpsturninn. Halli sá um að panta miða fyrir okkur og áttum við því pantaðan ákv. tíma. Magnað útsýni úr turninum!
Við hittum svo Dóra og Bryndísi á Alexander Plads og fórum á veitingastað sem heitir Block house og fengum þar dýrindis steikur! toppuðu eiginlega steikurnar á fína veitingastaðnum á Árshátíðarkvöldinu.
Sunnudagsheimferð
Sunnudagur til heimferðar? eitthvað þannig! Rútan keyrði í nokkra hringi í kringum hótelið enda var reiðhjólakeppni í gangi sem lokaði megninu af götunum þarna í kring.
Vorum lent seinnipartinn og hittum krakkana í Álfheimum hjá tengdó áður en við héldum heim eftir dásamlega ferð til Berlínar!
Takk fyrir okkur kæru ferðafélagar <3