Óvissuferð Hg Sel 2018
Mættum út á stöð kl 9 í gærmorgun og þar beið okkar þessi eðal rúta sem flutti okkur austur á Hvolsvöll, nánar tiltekið að Midgard Base camp þar sem nýjir fararskjótar og fararstjórar biðu okkar.
Eftir stutt stopp í Base Camp og sýnisferð um bygginguna (sem er allt í senn, miðstöð ferðalanga, gistiheimili bæði með svefnpokaplássi og sérherbergjum og veitingastaður) var fólkinu smalað í tvo bíla og haldið af stað enn austar. Fyrstu hugmyndir voru Þórsmörk mv bílana sem við vorum komin í en
þegar bílstjórinn beygði niður að Landeyjahöfn breyttist það frekar snöggt!
Við keyrðum samt ekki að höfninni heldur niður í kolblikasvarta fjöruna þar sem við fengum dásamlegt útsýni yfir til eyja… hálf fáránlegt hversu stutt er þarna yfir en samt svo langt.
Við skelltum í eina góða hópmynd í fjörunni sem er samt pínu fyndin enda allir kappklæddir þar sem heilmikið rok var og frekar kalt.
Samt ó svo fallegt myndaveður.
Frá fjörunni var síðan haldið inn í Þórsmörkina fögru, nánar tiltekið í Bása.
Þar gæddi hópurinn sér á nesti og teygði úr sér. Við gengum svo svokallaðan Básahring sem er í raun síðasti spottinn af Fimmvörðuhálsinum.
Á leiðinni til baka úr Þórsmörkinni stoppuðum við við Stakkholtsgjá og gengum þar inn gljúfrið sem var dásamlegt, dálítill snjór sem olli því að við komumst ekki alveg inn í botn að fossinum en það bíður betri tíma, þetta var samt alveg dásamlegt og svo fallegt!
Gengum líka inn að Gljúfrabúa ♡ sem er rétt hjá Seljalandsfossi og ekki síðri foss alveg magnaður 🙂
Heitur pottur og sána í Base camp og kvöldmatur áður en haldið var aftur í borgina!
Snilldar dagur með hressum vinnufélögum!