þegar ég kom heim úr vinnunni í gær var mamma í símanum, hún hafði fengið símtal frá Önnu frænku sem var að láta hana vita af því að baráttan væri búin. Skrítnar tilfinningar fylgja svona fréttum, lítið annað en flóðbylgja minninga tengdar frænda.
Í raun má segja að það sé gott að Valli fékk að fara, hann er búinn að kveljast svo lengi að það var erfitt að horfa upp á það.
Við ákváðum að fara upp á Akranes að hitta Önnu og börnin hennar. Þegar við hringdum í þau til þess að láta vita að við værum á leiðinni sagði Anna frænka okkur frá því að von væri á prestinum og það ætti að fara fram bænastund með fjölskyldunni.
Ég er rosalega fegin því að hafa farið. Þó svo að ég hafi séð lík áður þá brá mér alveg rosalega. Ég hef aldrei séð svona “nýtt” lík enda voru rétt um 4 tímar frá því að hann dó þar til við komum til hans. Málið er kannski líka að þetta var eiginlega ekki Valli sem lá þarna í rúmminu, það vantaði galsaglottið og bumbuna!!
Presturinn var voðalega þægilegur, ekki með þessa “helgislepju” eins og margir prestar eru með. Hann talaði fallega um Valla og til okkar aðstendanna. Mér þykir skipta meira máli að prestar séu hlýjir og “mannlegir” heldur en að þeir séu að halda “helgislepjunni” á lofti.
Dagurinn í dag er búinn að vera skrítinn… Ég er búinn að vera hálf þakklát fyrir það að tölvukerfið bilaði í gær og ég hafi þurft að vinna upp síðustu 12 daga… ég fékk þá að vera í friði, í vinnunni, þannig séð… gat unnið á mínum hraða og nokkurnvegin í mínum heimi. Milli þess sem ég skráði inn nöfn og dagsetningar flugu minningabrot í gegnum kollinn á mér.
hey ég á aldrei eftir að geta strítt honum yfir hans háværu hrotum aftur!
hvar eru sandkornin hans Valla (neftóbak)?
hver á að sofa á launum í svefnsófanum niðri ?
hver á að hneykslast á því hve mikið við dekruðum við Trýnu?
hvar er vara heimiliskötturinn ?
Ég veit að hann er kominn á betri stað, hann mun vaka yfir Önnu sinni og börnunum þeirra.
Vertu sæll frændi…