úff hvar eigum við að byrja? Þetta ár er búið að líða óhemju hratt og með ýmsum skemmtilegum tilbreytingum við hið daglega líf.
Janúar
Við hófum árið með pompi og prakt í Álfheimunum ásamt foreldrum Leifs, Sigurborgu, Tobba og auðvitað Ingibjörgu. Skíðabrekkan var heimsótt á nýársdag og að vanda var fyrsta máltíðin í formi Purusteikar ala Leifur 😉
Krakkarnir spiluðu bæði fótbolta, Oliver æfingaleiki en Ása Júlía skellti sér á mót.
Sigurborg Ásta byrjaði áríð á því að verða virkilega lasin og greindist með þvagfærasýkingu, fékk sterkan sýklalyfjakúr vegna þess og í framhaldinu send í ómskoðun til þess að fylgjast með nýrunum hennar.
Gunnars&Evusynir voru hjá okkur yfir helgi um miðjan mánuðin en foreldrarnir skelltu sér í ferð til Oman að heimsækja vini sína. Ýmislegt var brallað með strákunum og skelltum við okkur m.a. í sund með allan hópinn (ekkert grín með 6 barna hóp ;)).
Sumarfrí fjölskyldunnar var ákveðið og byrjað að plana hvað skyldi skoða í Danaveldi í júlí.
Veggir risu og var lokað á loftinu og loksins er að komast almennileg mynd á rýmið.
Við skelltum okkur í Matarboð til Axels og Sellu ásamt Jóni Geiri og Hafrúnu. Mikið spjallað, mikið borðað og mikið hlegið! Þarf að endurtaka sem oftast 🙂
Afmælisbarn mánaðarins var Skúli afi.
Febrúar
Hófst á sundmóti í Keflavík þar sem Oliver stóð sig prýðilega, alltaf að bæta sig – bæði í tíma og “að gera gilt” og þar með að eignast staðfesta keppnistíma.
Dagný prufaði að fara með Sirrý vinkonu sinni á Bingókvöld á Sæta Svíninu með Siggu Kling og áttu þær erfitt með að halda aftur af tárunum það kvöld, svo mikið var hlegið. Óhætt er að segja að lítið hafi farið fyrir Bingói en því meira var um uppistand og skemmtun ala Sigga Kling 😉
Matarboð í Hafnarfjörðinn til SvIðanna þar sem indversktmatarþema var við völd. Þvílík veisla! alltaf svo gott að eiga kvöldstund með vinum sínum og kjafta fram á nótt.
Dagný hóf formlega störf í stofnanasamninganefnd fyrir hönd starfsfólk HH innan SFR. Þvílíka súpan!
Leifur, Sverrir og Þorvaldur skelltu sér í Axis and Allies spilaferð í Geðbót, það var alveg spurning hvort þeir kæmust til baka þar sem aðfararnótt sunnudagsins byrjaði að snjóa, og snjóa.
Dagný og krakkarnir skemmtu sér við að moka bílastæðið og söfnuðu í stóra hrúgu sem krakkarnir grófu sig inní og úr varð prýðis snjóhús.
Leifur setti saman fyrrihluta stigans góða með góðri hjálp frá Gunnari bróður.
Vetrarfrí, Árshátíð HH og afmælisveisla Hrafns Inga settu líka sitt mark á annars stuttan mánuð 🙂
Afmælisbörn mánaðarins voru Þorbjörn/Tobbi & Hrafn Ingi.
Mars
Öskudagur byrjaði gleðina! Dagný skellti sér í göngutúr með Ásu Júlíu og nokkrum vinkonum hennar í smá nammisníkj. Oliver fór hinsvegar einn með vinum sínum. Bæði komu þau klifjuð heim af sætindum og öðrum góðum gjöfum.
Fótboltamót í Hveragerði hjá systkinum bar upp á sitt hvora helgina þannig að stöðugar ferðir austur fyrir fjall í mars 😉
Sigurborg Ásta naut sín til hins ýtrasta sem barn vikunar aðra vikuna í mars. Það er sko heilmikill heiður að bera þessa nafnbót og ekki skemmir að Lúlli bangsi fær að fylgja með heim á föstudeginum.
Fyrri hluti stigans var fluttur á sinn stað með hjálp góðra ættingja og vina, á tímabili leit reyndar út fyrir að hann yrði bara sem skraut í miðri stofunni eftir að hann var fluttur af byggingarstaðnum (Oliversherbergitobe).
Kaffihittingur afkomenda Láru og Kristjönu Helgadætra var í Valsheimilinu þar sem við hittum góðan hóp af móðurætt Dagnýjar.
Afmælisbörnin voru Ingibjörg frænka og Maggi afi.
Apríl
Súkkulaðimánuðurinn mikli hófst reyndar ekki með súkkulaðiáti heldur Sviðalöppum í Borgarnesinu hjá Jónínu og Vífli 🙂
Oliver byrjaði daginn og mánuðinn reyndar á sundmóti í Laugardalnum, svokölluðu B-móti og endaði hann líka á öðru sundmóti! nóg að gera hjá kappanum!
Danirnir okkar komu til landsins og nýttum við tækifærið til að eiga með þeim nokkrar gæðastundir eins og sundferð! fyrir matarboð í Álfheimunum á Skírdag.
Páskadagsbrönsh í Álfheimum með Dönunum okkar og því næst páskadinner í Birtingaholtinu – talandi um að hitta flesta (vantaði bara Norðlingaholtið en þau skelltu sér í stórfjölskylduferð til útlanda).
Við kíktum í misheppnaðapáskaeggjaleit K100 í kringum Hádegismóana, þar sem ekkert fannst. Ákváðum svo að skella okkur í Bauhaus með Ingibjörgu og Sigurborgu líka og þar græddu 3/4 stór egg!
Leifur skellti sér með MSingunum sínum í bíó.
Seinni hluti stigans var loksins kominn saman – spurning hvenær hann kemst á sinn stað!
Afmælisbarnið var Sigurborg frænka.
Maí
Með sína vorboða, Afmælisgleði Olivers sem í ár var í Keiluhöllinni ásamt Hrafni Inga og matur í framhaldinu á Shake and pizza.
Sólin lét sjá sig og Sigurborg Ásta masteraði að hjóla á pallinum.
Við heimsóttum SVIK í Ossabæ og nutum veðurblíðunar þar til hins ýtrasta. Potturinn var vel nýttur og ýmis vorverkefni voru skráð niður fyrir starfsmannafélagið.
Fótboltamót settu sitt mark á mánuðinn líkt og þá fyrri en í þetta sinn var heppnin með okkur og var bara 1 helgi og 1 dagur fyrir valinu, þau spiluðu þó ekki á sama tíma.
Á meðan Dagný sá um skuttl og stuðning á fótboltamótinu sá Leifur um verkstjórn þegar seinni hluti stigans rataði á sinn stað.
Sirrý bauð æskuvinkonunum í mat og spjall – alltaf gott að hitta stelpurnar (góður matur skemmir það ekki heldur ;))
Oliver fékk í afmælisgjöf ferð með frændum sínum í Bogfimisetrið þar sem hann skemmti sér stórvel með besta frænda.
Kartöflugarðurinn í Birtingaholtinu var tekinn í nefið! eða því sem næst með meðfylgjandi blöðrum og harðsperrum 😉 Við kláruðum semsagt að stinga upp garðinn og rákum reyndar líka nokkra óboðna gesti í burtu með hjálp Gaffals og skóflu. Mokuðum götur og gerðum klárt fyrir kartöflu- og grænmetisræktun.
Dagný endaði mánuðinn á að láta mynda kollinn sinn þar sem lækninum okkar leist ekkert á skerandi höfuðverki sem létu á sér kræla, álag og vöðvabólga reyndust stökudólgarnir.
Afmælisbörnin voru Oliver & Inga amma.
Júní
Hófst á fyrstu ferðinni í Costco! er það ekki aðalmálið hjá mörgum *hahah*
Annars þá byrjuðum við á Akranesi, eða réttara sagt á Akranesleikunum í Sundi með Oliver yfir Hvítasunnuhelgina. Oliver stóð sig alveg ágætlega þar bætti sig í nokkrum greinum.
Loksins Loksins fékk Oliver herbergið sitt eftir stigaframkvæmdirnar! Hann var svo fegin því að eftir að hann og Hrafn Ingi höfðu fengið að gista þar á vindsæng þá neitaði pjakkurinn að færa sig niður aftur og svaf á vindsænginni þar til búið var að redda rúminu.
Skólaslitin hjá krökkunum komu í beinu framhaldi Akranesleika. Skelltu þau sér á nokkur námskeið m.a. fór Oliver á Skátanámskeið líkt og síðustu sumur með Hrafni Inga & Sölva. Ása Júlía fór á Sumargaman hjá ÍR og bæði skelltu þau sér á fótboltanámskeið hjá ÍR.
17. júní hófst að vanda með bílferð frá HR og niður Laugarvegin, í ár fengu Krúsararnir að leggja í Vonarstrætinu. Krakkarnir fengu öll 3 að fljóta með í ár sem var nú ekki leiðinlegt 🙂
Ása Júlía dró fjölskylduna norður á Akureyri á fótboltamót þar sem við skelltum okkur líka í heimsókn til Olivers frænda og Önnu Guðnýjar í nýja húsið.
Stelpunum gekk ágætlega á mótin og skemmtu sér vel sem er auðvitað aðal málið!
Við fengum fína íbúð sem Verkfræðingafélagið á í gegnum Gunnar bróður sem svo skemmtilega vill til að var í sömu götu og Olli og Anna Guðný búa við.
Oliver dró okkur í framhaldinu til Eyja á Orkumótið í fótbolta. Fyrsta ferð fjölskyldunnar til Eyja sem var krefjandi en stórskemmtileg um leið. Við vorum í Tjaldi hjá Þórsheimilinu en Oliver gisti í skólanum með liðinu. Við vorum afskaplega heppin með veður og fengum bara rigningu einmitt þegar komið var að því að pakka niður, hversu dæmigert? Strákunum gekk mjög vel og hífðu sig upp um marga marga styrkleikaflokka.
Afmælisbörnin voru Jóhanna amma, Birkir Logi & Leifur
Júlí
Byrjaði með hraði þar sem það voru aðeins örfáir dagar milli heimferðar frá Eyjum og þar til sumarfrí fjölskyldunnar hæfist og á þessum dögum skyldi margt græjað og gert með 100% vinnu.
Gunnar kom eitt kvöldið og hófust bræðurnir handa við að steypa upp í gatið upp á háaloft enda engin þörf fyrir það þar sem stiginn var kominn – tja og já okkur langaði nú líka í slétt gólf án holu þarna uppi.
Við flugum til Billund þar sem miklir fagnaðar fundir áttu sér stað meðal Sigurborgar Ástu, Olivers, Ásu Júlíu og Ingibjargar frænku – já og líka fullorðna fólksins. Brunað var til Odense þar sem við losuðum okkur við stóran hluta farangurins okkar og fylltum bílinn aftur af allskonar öðruvísi farangri því daginn eftir skyldi haldið í sumarhús ekki svo langt frá Álaborg með Sigurborgu, Tobba, Ingibjörgu, Ingu og Skúla í viku. Fréttir ferðarinnar voru upplýstar strax við komuna til Odense en Ingibjörg er að verða stórasystir strax á nýju ári.
Ýmislegt bardúsað á meðan við vorum í bústaðnum og margir fallegir og sögufrægir staðir heimsóttir að ógleymdum Sirkusnum sem fannst óvænt og við skelltum okkur á. Þar fengu krakkarnir að prufa að sitja á Fílsbaki og Kameldýra baki (Olli & Ása fóru á Fílsbak en Sigurborg og Ingibjörg á Kameldýr).
Eftir yndislega viku í bústaðnum var haldið til baka heim til Odense. Inga og Skúli héldu áfram til Köben þar sem þau dvöldu í nokkra daga áður en þau fóru aftur heim til Íslands.
Við eyddum heilum degi í Odense Zoo þar sem dýrin voru skoðið í bak og fyrir, fylgdumst með Ljónunum leika með gamla skó og leituðum uppi letidýr sem fannst eftir þónokkra leit.
Það er engin heimsókn til DK án ferðar til Legolands amk ekki með legosjúklingana okkar.
Líkt og síðast gistum við í 1 nótt á Hótel Legolandi. Sigurborg, Tobbi og Ingibjörg voru með okkur fyrri daginn og voru annsi mörg tækin prufukeyrð.
Ása Júlía fékk loksins að fara í ökuskólann eins og bróðir sinn og veifar nú ökuskírteini Legolands um alllt.
Oliver og Ása Júlía tóku þátt í kubbakeppni á hótelinu og gerði Oliver sér lítið fyrir og vann þar nokkuð veglegan legokassa.
Dagsferð til Kiel með viðkomu í Grensubúð á landamærunum sem er opin hérum bil allan sólarhringinn sett mark sitt á ferðina okkar eins og Kirsuberjafestival, ferð á Hasmark ströndina og heiðarleg tilraun til berjatýnslu í úrhellis ringingu.
Oliver komst í kynni við bækurnar um Harry Potter og gleypti í sig 3 fyrstu bækurnar á rúmri viku.
Rétt fyrir heimför skelltum við okkur svo í bíltúr í Givskud Zoo með Sigurborgu & Ingibjörgu þar sem aðal sportið var að líta eftir Ljónunum þegar við keyrðum í gegnum ljónabúrið.
Við flugum heim á síðasta degi júlímánaðar.
Ágúst
Við tókum því frekar rólega í ágúst eftir fjörugan júní og júlí 😉 Byrjuðum á því að slá undan steypunni sem bræðurnir settu í “gatið” áður en við fórum út og koma búrinu í lag með engum stiga! *jeij* bættum við hillu fyrir ofan hurðina og hagræddum þeim sem fyrir voru.
Feðgarnir skelltu sér í vinnuferð í Geðbót og hjálpuðu íbúunum að skella upp einu stk þaki á geymslugáminn.
Dagný hafði pantað nýja diskinn hans Páls Óskars á meðan við vorum úti og mætti hann í eigin persónu til að afhenda diskinn. Óhætt er að segja að Ása var algjörlega starstruck og í skýjunum með þessa heimsókn. og er diskurinn búinn að rúlla ófáa hringi í spilaranum hennar.
Fótboltamótahelgi þar sem Oliver keppti á móti a vegum Fjölnis en Ása á vegum Víkings. Gaman að segja frá því að Brynjólfur Aron frændi Dagnýjar og Ásu var líka að keppa á þessu sama móti og hittist þannig á að þau skiptust á að spila þannig að auðvelt var að fylgjast með báðum.
Oliver hafði misstigið sig á æfingu nokkrum dögum áður og augljóst var að hann var ekki búinn að ná sér. Eftir mótið skelltum mæðginin sér á Læknavaktina þar sem úrskurðurinn var að möguleiki hafði verið á því að kvarnast hefði úr beini við “kúluna”, myndataka í Domus ef drengurinn skánaði ekki innan nokkurra daga… Myndantakan sýndi bara flottar vaxtalínur og að drengurinn ætti eftir að taka ut hellings vöxt og góð hvíld frá fótboltanum út mánuðinn eða svo.
Ása Júlía pantaði að fara í Keiluhöllina og út að borða líkt og Oliver gerði í vor á afmælisdaginn sinn og bauð hún Ástu Margréti vinkonu sinni með sér í þá gleði.
Daginn eftir afmæli Ásu átti sér stað fyrsta vinnuslysið á loftinu, Dagnýju finnst það hálf undarlegt að ekkert hafi gerst fyrr en þarna. Leifi tókst semsagt að rista upp á sér vöðva í lófanum með hjálp sporjárns. Betur fór samt en á horfðist og kom Leifur heim af slysó 12 sporum ríkari.
Skólinn byrjaði á ný og Ása Júlía fékk að prufa Skypark með frændum sínum í Norðlingaholtinu en það ásamt dekri var afmælisgjöfin frá þeim í ár.
Danirnir okkar komu í heimsókn sem og Ásta frænka og Linda frænka frá Ameríkunni.
Við skelltum okkur líka á ættarmót í Ólafsvíkinni í úrhellisrigningu og fögnuðum 5 ára brúðkaupsafmælinu okkar.
Afmælisbörnin voru Dagný & Ása Júlía
September
Rútínan hafin á ný! fótboltaæfingar, sundæfingar og kór! svona fyrir utan hið hefðbundna 😉
Dagný skellt sér á Ellý í Borgarleikhúsinu ásamt mömmu sinni, Garðari frænda, Steina frænda, Ástu frænku, Lindu frænku og Hrönn frænku – skemmtu sér allir mjög vel, þrátt fyrir merkilega mikil ónæði frá fólkinu á næsta bekk, nei engir unglingar á ferð þar heldur fólk á besta aldri.
Maggi afi/pabbi/tengdó skellti sér í 1 stk aðgerð til að laga carpal tunnel og gekk það mjög vel.
Bíltúr um Reykjanesið með Lindu frænku, Kleifarvatn, Krísjuvík, , Brimketill, Brúin milli heimsálfa skoðuð og mynduð í hávaða roki.
Krakkarnir skemmtu sér vel við að “lyfta brúnni” eins og sést á myndinni hér til hliðar af Ásu Júlíu.
Hringt var í Dagnýju frá frístundinni hennar Ásu Júlíu þar sem Ása hafði stigið á glerbrot við andapollinn. Búið var að búa um sárið og leit það ágætlega út þegar við sóttum hana og ákváðum við þá að fylgjast með því eftir að hafa þrifið sárið betur skv leiðbeiningum frá hjúkkunum í vinnunni hennar Dagnýjar.
Morguninn eftir leist okkur ekkert á sárið og ákveðið var að Dagný léti líta á það í vinnunni sinni. Þar var Ása deifð og krukkaði læknirinn okkar og hjúkrunarfræðingur í sárið en fundu sem betur fer ekki neina glerbrotsflís, læknirinn okkar vildi hinsvegar vera alveg viss og sendi okkur í myndatöku til að ath hvort eitthvað greindist þar, endaði daman á kennslustund í líffræði hjá lækninum sem Ómaði ilina hennar þar sem hann sýndi henni á skjánum hvernig vöðvarnir virkuðu. ekkert fannst! og lagaðist þetta á nokkrum dögum og er þar nú myndarlegt ör. En fyrirlestur um nálar og glerbrot fékk daman frá lækninum okkar og hætturnar sem geta leynst þar.
Ingibjörg frænka gisti hjá okkur áður en hún fór aftur heim til Odens og brölluðu frænkurnar ýmislegt saman þann tima sem þær höfðu saman.
Við hjúin skelltum okkur á tónleika með Ný Dönsk í Hörpunni, drógum meðalaldurinn aðeins niður en alltaf gaman að hlusta á lög sem fylgt hafa manni svona lengi 😉
Við enduðum svo mánuðinn á að fara með vinnunni hans Leifs í haustferð, þar sem við skoðuðum Búrfell 2 virkjunarsvæðið, Lavacenter á Hvolsvelli og fengum okkur svo dinner í Tryggvaskála á Selfossi.
Afmælisbarnið var Eva Mjöll
Október
Vetrarfrí einkenndi Október hjá okkur en við skelltum okkur í bústað í Húsafelli þessa löngu helgi. Þar var potturinn vel nýttur, farið í göngutúra, laugin heimsótt og mikið spilað og Sous Vide græjan prufukeyrð út í eitt.
Krakkarnir spiluðu bæði á fótboltamóti á Álftanesi við misgóðan árangur og Oliver bætti um betur með sundmóti.
Hjálpuðum til við Sláturgerð í Birtingaholtinu þar sem Ása og Olli kynntust handverkinu í fyrsta sinn. Að sjálfsögðu var slátur í matinn það kvöld enda er það í miklu uppáhaldi 😉
Eftir stutta kosningabaráttu var gengið til kosninga í lok mánaðar, ári frá því að síðasta ríkisstjórn var kjörin.
Nóvember
Oliver tók þátt í sundmóti í Keflavík og óhætt er að segja að hann bætti sig í hverri grein og var í skýjunum með árangurinn. Sama dag keppti Ása Júlía í fótbolta í Keflavíkinni og hitti þar fullt af vinkonum sínum af Austurborg, Það var virkilega skemmtilegt.
Ása Júlía og Oliver gistu bæði í Norðlingaholtinu eftir fjörugt síðbúið Halloween party. Á meðan fengum við vinafólk í mat þar sem Leifur galdraði fram dásemdar folaldasteik með Sous Vide græjunni.
Við fengum strákana úr Norðlingaholtinu til okkar yfir helgina og var ýmislegt brallað, meðal annars fóru Dagný, stelpurnar, Birkir Logi og Sigmar Kári með dúkkur og bangsa stórslösuð á Bangsaspítalann og í framhaldinu var kíkt á jólalandið í Blómaval. Kíktum líka í skíðabrekkuna og þegar heim var komið ákváðu stórukrakkarnir að vera lengur úti enda fullkominn snjór til snjóboltagerðar – endaði reyndar með risa snjóhúsi sem Oliver og Hrafn Ingi áttu frumkvæðið að en gerðu með aðstoð frá yngri systkinum sínum, Sölva vini Olla og nokkrum nágranna krökkum til viðbótar.
Helgin endaði svo á dinner í K48 með Norðlingaholtsbúunum enda Gunnar & Eva komin heim frá Edinborg.
Sigurborg Ásta fagnaði langþráðum 4ára afmælisdeginum sínum og óskaði hún þess heitast að fara í kvöldsund að loknum kvöldmat á Fabrikkunni. Virkilega þreytt og sæl stelpa sem lagðist á koddann sinn það kvöld 🙂
Vinir í kvöldkaffi bar höfuð og herðar yfir mánuðinn enda góðar fréttir sem sú heimsókn bar með sér.
Leifur fékk boð í allsherjar heilsurannsókn og ákvað að taka því – kom heim með þá niðurstöðu að hann sé með fullkomna heyrn – Dagný er ekki alveg að kaupa það 😉
Danirnir komu aftur í smá skrepp heim og skelltum við upp piparkökugerð og málun á afmælisdegi Gunnars með og fyrir frændsystkinin.
Afmælisbörnin voru Sigurborg Ásta & Gunnar
Desember
Sigmar Kári 7ára! í beinu framhaldi fékk Sigurborg Ásta dekurdag/nótt með Familíunni í Norðlingaholti, kvöldsund og fl dekur.
Ása Júlia skellti sér á fótboltamót og að því loknu fór öll fjölskyldan í jólaboð hjá Hauki og co.
Jólahlaðborð með Hnit, Jólasveinakallarnir hans Magga á jólamarkaði og ferð á Sólheima í Grímsnesi með Lionsklúbbnum Ægi ásamt Magga afa og Jóhönnu ömmu.
Bekkjarsystir Olivers skoraði á hann að mæta á kóræfingu í byrjun desember og í beinu framhaldi mætti hann á allar æfingar desember mánaðar – og ætlar að halda áfram! greinilegt að það skiptir máli hver ýtir við honum (mamman búin að margspurja).
Jólaundirbúningur var auðvitað í hámarki alla aðventuna út um allt með tilheyrandi stússi. Bekkurinn hans Olivers sá um helgileikinn í ár í skólanum og stóðu þau sig mjög vel. Við foreldrarnir mættum á fyrstu sýningu enda var heimastofan hans Olivers þar í aðal hlutverki.
Laufabrauðið var skorið í ár í Norðlngaholtinu. Þar brast hópurinn í söng og sungu jólalögin yfir skurðinum. Skúli einbeitti sér að steikingunni úti á palli í miklum kulda en þvertók fyrir að fá nokkra aðstoð.
Bekkurinn hennar Ásu var með piparkökumálun (yngsta stig býður foreldrum í piparkökumálun) og söng Kórinn (2+3bekkur) nokkur lög, meðal annars Santa Lúcia.
Aðfangadagur var haldinn hátíðlegur hér í K48 með foreldrum Dagnýjar. Jóladagur alveg slakur í náttfötum með 2 aðalréttum, Hangikjöt og kalkúnabringa – pörrfekt.
Annar í jólum hittumst við ásamt Gunnari, Evu & strákunum í Álfheimunum og áttum spilakvöld og borðuðum saman.
Dagný fékk fréttir af Láru Maríu frænku sinni á leiðinni í Álfheimana á annan í jólum en Lára María hafði verið flutt með hraði á spítala í borginni með blóðtappa í höfði og var mikil vinna framundan.
Jólaball vinnunar hjá Ingu og Skúla/ömmu og afa líkt og fyrri ár.
Leifi til mikillar gleði (já ok Dagnýju líka) má segja að loftið sé 95% tilbúið, bara eftir að klára að tengja rafmagnið – Teppið kom á gólfið á milli jóla og ný árs við mikla gleði allra og var teppalagningamaðurinn rétt farinn út um dyrnar þegar fyrsta myndin af legobænum byrjaði að myndast.
Brúðkaup Hjartar og Guðfinnu, dásamlegt kvöld með heljarinnar flugeldasýningu sem endaði formlegt veisluhald áður en partý ársins byrjaði.
Við gáfum Ásu Júliu miða á Fjölskylduáramótatónleika Páls Óskars í jólagjöf og fóru þær mæðgur á tónleikana þann 30.desember. Óhætt er að segja að Ása hafi verið hreinlega starstruck á ný og vissi varla hvernig hún átti að vera 🙂 Skemmtilegir tónleikar og sveif daman um á bleiku skýi það sem eftir var ársins.
Við hittum Gunnar & Evu ásamt strákunum
Árið var sprengt í burtu í Álfheimunum, í ár voru það Inga, Skúli og Halldór sem nutu síðasta kvöldi ársins með okkur, Ingvar ætlaði að vera með okkur en varð frá að hverfa vegna flensu.
Jæja stiklað á stóru yfir árið okkar. Nú eru bara ný tækifæri og nýjar áskoranir sem taka við hjá okkur ásamt því að bíða eftir nýjasta meðlimnum í fjölskyldunni sem er væntanlegur anyday now í Danaveldi.
Gleðilegt ÁR allir og takk fyrir það gamla <3