Oliver mætti á Orkumótið í ár ásamt félögum sínum úr ÍR.
Hann fór með liðinu á miðvikudaginn en við hin mættum á þriðjudagskvöldið með allt hafurtaskið.
Þetta var stórskemmtilegt mót þar sem strákarnir stóðu sig mjög vel og unnu sig upp um 9 riðla sem má teljast nokkuð gott hjá þeim.
Dagarnir í Eyjum byggðust auðvitað að mestu á því að elta þessa 9 gutta sem tilheyrðu ÍR bláum á milli valla en á kvöldin þá náðum við að kynnast aðeins hinum foreldrunum þar sem svo vildi til að við vorum nærri því öll á sama svæðinu á tjaldstæðinu hjá Þórsheimilinu.
Við nýttum síðasta daginn í Eyjum, svona á milli skúra, til þess að túristast aðeins á Eyjunni fögru.
Oliver og Ása Júlía prufuðu að spranga á meðan Sigurborg Ásta tók það ekki í mál að hanga í einhverjum kaðli utan í klettum! þvílíka ruglið 🙂
Einnig kíktum við á Stórhöfða og smellti ég þar nokkrum myndum af krökkunum.
Áttum far í land með Herjólfi rétt fyrir kl 7 þannig að við höfðum allan daginn til þess að taka saman og ganga frá eftir okkur.
Takk fyrir okkur Eyjar – þetta var stórskemmtilegt 🙂