Sigurborg Ásta er hægt og rólega að vaxa upp úr mörgum af hlýrri fötunum sínum… Ákvað að skella í nýjan heilgalla handa henni til að vera í undir pollagallanum í vor og haust.
Fyrir valinu varð uppskriftin að gallanum Galdrakarlinn í Oz eftir Evu Mjöll úr bókinni Leikskólaföt sem kom út í fyrra. Langaði reyndar ekki að nota bekkinn sem er þar og nennti eiginlega ekki að leita langt yfir skammt þannig að úr varð að ég tók bekkinn úr peysunni Bróðir minn Ljónshjarta einnig eftir Evu Mjöll og úr sömu bók, Leikskólaföt.
Ég er mjög ánægð með útkomuna, prufaði í leiðinni nýja garnið frá ÍSTEX sem heitir Spuni og er merinóull í grófleika sem passar við Létt lopann. Hlakka til að sjá hvernig það kemur út í notkun.
Gallinn er full stór á skottuna enda hún smá eftir aldri og ég prjónaði gallan vísvitandi í stærð 3-4 ára. Hann endist bara lengur 😉
Vettlingarnir á myndinni eru einnig úr bókinni Leikskólaföt og kallast Baunagrasið og er uppskriftin eftir Sigurlaugu Elínu. Var í hálfgerðu missioni síðustu daga að nýta afgangsgarn þannig að úr varð að ég notaði afganga af Smart og Spuna í þessa vettlinga. Komu bara vel út, eru þykkir og hlýir þar sem þeir eru 3litir í belgnum og Sigurborg Ásta er ofsalega hrifin af þeim sem skiptir eiginlega mestu máli þar sem hún þarf að nota þá 😉
Posted by Intagrate Lite